199. - Jólasveinar einn og átta + 4

Í dag er sagt að jólasveinarnir byrji að streyma til byggða.

Margir eru víst búnir að taka forskot á sæluna, en hér er semsagt mynd af Stekkjastaur, sem samkvæmt jólasveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum var fyrstur þeirra.

Þessi mynd er eftir Áslaugu og hún er búin að teikna myndir af þeim öllum eða að minnsta kosti flestum í PaintBrush og ætlar að birta þær smátt og smátt á sínu eigin vefsetri. Svo er líka slóð á heimasíðuna hennar hér til vinstri.

Hún fékk sér þetta vefsetur um daginn og setur þar myndir af ýmsum listaverkum sínum, málverkum, bræddu og lituðu gleri, leirmunum og ýmsu fleiru. Einnig ljósmyndir og svo skrifar hún oft lýsingar á verkunum og tilurð þeirra. Hingað til hafa það einkum verið ættingjar hennar sem hafa heimsótt síðuna, en ég hvet alla sem þetta lesa til að kíkja á það.

Í gær, þriðjudag, sá ég auglýsingu um ferðir út í Viðey þar sem fólk var hvatt til að fara þangað og skoða friðarsúlu Yoko Ono. Kannski var það aðeins óheppileg tilviljun, að það var einmitt nú um þessar mundir sem slökkt var á ljósatyppinu. Kannski er alveg eins merkilegt að skoða það þó ekki sé kveikt á því.

Annars hefur mér fundist þessi friðarsúla nokkuð frumlegt fyrirbæri að sjá úr fjarlægð og í réttu veðri. Stundum sést hún ekki neitt en stundum ber talsvert mikið á henni. Einhversstaðar sá ég því haldið fram á bloggi að súlan hallaðist til vinstri. Ég held reyndar að það sé ekki rétt og þar að auki er viðmiðunin hægri og vinstri alveg ónýt í þessu sambandi, nema tekið sé fram hvaðan horft er. Vissulega horfa flestir á hana frá Reykjavík, en það er ekki einhlítt.

Ég veit ekki betur en Reykjavíkurborg hafi kostað uppsetningu þessa reðurtákns og að Orkuveita Reykjavíkur leggi til orkuna í ljósið sem er víst talsverð. Mér finnst ófært að kostnaður við þetta sé innheimtur hjá öllum sem annaðhvort búa í Reykjavík eða nota orku frá Orkuveitu Reykjavíkur. Ég sé að minnsta kosti eftir þeim peningum sem í þetta fara frá mér. Hinir nýríku sem virðast varla vita hvað þeir eiga að gera við alla sína peninga eru ekkert of góðir til að borga þetta.

Útvarp Saga var á sínum tíma auglýst sem eina talmálsrás landsins. Það vill svo til að oft er opið fyrir þá rás á mínu heimili og hingað til hefur þetta verið að mestu leyti rétt með talmálið. Reyndar finnst mér ansi mikið um endurtekið efni en við því er víst lítið að gera.

Nú í aðdraganda jólanna bregður svo við að langtímum saman er ekki annað efni á Sögu en jólalög og auglýsingar á milli. Þetta eru svik við þá sem hlusta á þessa útvarpsrás í því skyni að heyra mælt mál, en ekki sama gaulið og er á öllum hinum rásunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband