198. - Afmælisblogg með vísu

Ekki áttaði ég mig á því fyrr en eftir að ég var búinn að senda síðustu bloggfærslu út í eterinn að það var einmitt samkvæmt upplýsingum Moggabloggsins sjálfs hinn 10. desember í fyrra sem ég setti  mína fyrstu færslu á Moggabloggið.

Já, ég er búinn að vera svona lengi að, en hef þó ekki enn komist í 200 færslur alls. Þetta verður því afmælisfærsla og grobbfærsla um leið og nokkrar myndir í lokin.

Mig minnir endilega að það hafi verið Hallmundur Kristinsson sem stóð fyrir því að mér var á sínum tíma boðin þátttaka á Leirlistanum svokallaða.

Póstlisti nokkur var á Imbu í gamla daga og ég var öðru hvoru að senda á hann gamlan samsetning eftir sjálfan mig og í framhaldi af því var mér boðin þátttaka í þessum eðla félagsskap.

Framan af voru ekki margir á listanum og vísur sem þangað komu á hverjum degi fáar. Smámsaman fjölgaði á listanum og margir vísnagerðarmenn þar hafa reynst mikilvirkir með afbrigðum.

Sjálfur orti ég fremur sjaldan á þennan lista og var með fáskiptustu mönnum þar. Ætli við Arnþór Helgason höfum ekki átt það sameiginlegt að yrkja fremur lítið fyrir þá sem þar voru. Nú er hann orðinn Moggabloggari eins og ég, en bloggar bara alltof sjaldan.

Fyrir allmörgum árum orti ég vísu um mál sem var til umræðu í fjölmiðlum. Upplýst var að fiskifræðingar við Hafrannsóknarstofnum hefðu misreiknað sig eitthvað og jafnvel var talað um að mikið magn af þorski hefði beinlínis týnst eftir gögnum stofnunarinnar að dæma. Hugsanlega svo næmi milljón tonnum eða svo. (Ég minni á að fargið sem nú er talið hugsanlegt að valdi skjálftum við Upptyppinga er talið vera meira en 2 milljarðar tonna.)

Vísan sem ég gerði í tilefni af þessu og sendi á Leirlistann var svona:

Hér var milljón tonnum týnt

í torráðinni gátu.

Þjóðinni var svarið sýnt.

Sægreifarnir átu.

Annars á ég oftast erfitt með að muna vísur sem ég geri og finnst þær sjaldnast merkilegar.

Hér situr Vignir á tunnu við skúrinn heima á Bláfelli. Mögnuð uppstilling. :) :-)

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég held að þetta hljóti að vera Jón Kristinn Ólafsson, sonur Sigrúnar. Ekki veit ég þó hvar þessi mynd er tekin.

 

 

 

 

 

 

 

Þetta er áreiðanlega Björgvin. Myndin er tekin á túnflötinni framan við Bláfell og greinilega áður en brann. Skemmtileg mynd. Snúran er alveg kostuleg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband