3034 - Af nýyrðum o.fl.

3034 – Af nýyrðum o.fl.

Nú hefur William Barr, sjálfur dómsmálaráðherra Trumps snúist gegn honum í svindlmálinu og lýst því yfir að engar vísbendingar hafi komið fram um skipulagt svindl. Einn maður auk Trumps sjálfs, Rudy Giuliani fyrrum borgarstjóri og einkalögfræðingur Trumps forseta heldur því þó ennþá fram að um slíkt hafi verið að ræða. Ekki er víst að öllu fleiri séu sömu skoðunar í raun. Sá sem einu sinni var einkalögfræðingur Trumps situr víst í fangelsi núna. Hringurinn þrengist. Bandarísk stjórnmál halda þó áfram að vera spennandi. T.d. verður ekki ljóst fyrr en í janúar hvort repúblikanar halda meirihluta sínum í öldungadeildinni. Einnig gæti ýmislegt gerst í sambandi við staðfestingar þeirrar deildar á sumum embættum í ríkisstjórn Bidens.

Talsvert margir hafa lesið mitt síðasta blogg. Held jafnvel að þetta sé í fyrsta sinn sem fyrirsögnin hjá mér er bara tölustafir. Sennilega hafa samt engir gáð að því nema ég hvernig blogg hjá mér númer 2020 lítur út:

Það ber ekki á öðru. Strax er fólk byrjað að lesa. Best að ég byrji líka strax á að skrifa. Verst ef mér dettur ekkert í hug til að skrifa um. Var að enda við að skoða myndir hjá Atla úr Grikklandsferðinni. Hann hefur vandað sig talsvert við þetta og það er allt annað að skoða þetta en sumar myndaseríur þar sem öllu er hent á fésbókina, ónýtu sem nýtu. Hefði sjálfur getað sett þónokkuð margar myndir frá Kanaríeyjum á sínum tíma en þær eru orðnar fullgamlar núna. Sá líka í gærkvöldi nokkrar myndir af Tinnu og Dre hjá Guðrúnu Völu. Fésbókin er að verða myndasýningarstaður nr. 1 og mér líst vel á það.

Ég er eiginlega alveg búinn að taka sagnirnar að „lana“ og „larpa“ í sátt. Ætla samt að gera skilning á þeim að umtalsefni hér því ef ég misskil þær eitthvað er hugsanlegt að fleiri geri það. Báðar eru þær dregnar af amerískri skammstöfun. Lana er dregið af „Local Area Nework.“ Og „larpa“ af „Live action role playing.“ Þannig skil ég málið a.m.k.

Að „lana“ er þá að fást við eða starfa á litlu tölvuneti, sem takmarkað er við eitthvert ákveðið svæði. Að „larpa“ er öllu flóknara. „Live action role playing“ má segja að sé hlutverkaleikur af hvaða tagi sem er. „Live Action“ skil ég einfaldlega þannig að ekki sé um sýndarveruleika að ræða. Kann ekki að skýra það betur.

Rætt var um þetta á Orðhenglinum um daginn og þá sló ég um mig með því að kasta því fram að „laser“ væri amerísk skammstöfun. Ekki er víst að allir þekki þá styttingu en mér skildist einhverntíma að það stæði fyrir: „Light Amplification by Simulated Emission of Radiation. 

Það var nú þá. Þetta var skrifað í júlí 2013 held ég. Þessar sagnir virðast ekki hafa náð mikilli fótfestu í málinu. Þó getur vel verið að þær séu eitthvað notaðar í vissum kreðsum.

Einhver mynd.IMG 5178


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Palli Vilhjálms Trumps er tröll,
talsvert illa hirtur,
larpar útum víðan völl,
veruleikafirrtur.

Þorsteinn Briem, 2.12.2020 kl. 06:28

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Er þér eitthvað uppsigað við Pál Vilhjálms, Steini minn?

Þú ert einn af örfáum sem mér finnst ég geta ávarpað með nafni, enda væri hægt að halda að þú lesir alltaf bloggið mitt.

vísan þín er mjög góð, eiknum seinni parturinn. Veit samt ekki hvort Palli er illa hirtur, eða hvort hann larpar mikið.

Sæmundur Bjarnason, 2.12.2020 kl. 11:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband