2555 - Sigurður þarf að gera Sigmund óskaðlegan

Eiginlega er ekkert spennandi að vera gamall. Jú, maður þarf ekki að fara til vinnu og getur þessvegna legið eins lengi í rúminu og manni sýnist. Þegar nýjabrumið er farið af því, sýnist manni hinsvegar ekki að vera mjög lengi þar, m.a. vegna pissuþarfar. Það er nú svoleiðis með mig að ég vakna oft um miðjar nætur og get ekki sofnað aftur. Það er ekkert spennandi. Heldur ekki að verða syfjaður og þreyttur snemma kvölds. Í það heila tekið er ævikvöldið ekkert sérstaklega spennandi. Það væru þá helst barnabörnin, sem eru að sjálfsögðu óviðjafnanleg. Gallinn er bara sá að þau fullorðnast alltof fljótt. Jákvætt er þó að þurfa ekki að bera neina ábyrgð á uppeldi þeirra. Heimurinn virðist nefnilega syndum spilltari en í gamla daga.

Svona lagaðar speglasjónir (spekúlasjónir á góðri íslensku) eru mér eiginlegar. Þarf ekkert að hafa fyrir þessu. Set bara aðra eða þriðju hverja hugsun á blað og þá er þetta komið. Bráðum þarf ég að fara uppí Melahverfi því Tinna er að koma úr skólanum. Pabbi hennar er í vinnunni og mamma hennar að taka próf. Svoleiðis er nú það. Og ekkert að því að finna.

„Og ég sem átti eftir að vaska upp.“ Sagði Lási kokkur eitt sinn þegar honum var sagt frá því að skipið sem hann var á væri að farast. Svona er þetta oft. Við fárumst yfir því sem við fáum með engu móti ráðið við, en sættum okkur við allskyns kárínur ef okkur sýnist þær koma yfirboðurum okkar til góða. Um þetta gæti ég nefnt mörg dæmi en geri ekki því einhver gæti verið svo meðvirkur með blessuðum yfirboðurunum að ég yrði kærður fyrir vikið. Ekki er ég eins frægur og Kári Stefánsson. Hann getur látið allan fjárann frá sér fara án þess að vera lögsóttur. Þannig virkar meðvirknin. Og ekkert við því að segja. Kári er svosem nógu ákveðinn en sennilega taka þeir sem það ættu að gera ekkert mark á honum.

Furðulegt að allir virðast álíta að ef bara stjórnarmyndunarviðræður yrðu formlegar þá væri eiginlega komin ríkisstjórn. Ekki álít ég svo vera. Umboð það sem forseti Íslands veitir er líka einskis virði. Hver sem er getur myndað ríkisstjórn, sitji hann á þingi. Að vísu mundi hann þurfa að láta forsetann vita að meirihluti væri fyrir hendi.

Margt er skrýtið í kýrhaus íslenskra stjórnmála en líklega er VG skrýtnasti flokkurinn. Ekki virðist hann hafa hugmynd um hvort hann vill í ríkisstjórn eða ekki. Hinir flokkarnir virðast flestir vilja fara í ríkisstjórn. Enginn vill samt vera með Framsóknarflokknum þó hann sé orðinn hundrað ára, eða kannski er það einmitt vegna þess.

Ætli Sigurður forsætis sé sá kraftaverkamaður sem beðið hefur verið eftir. Líklegast er að Guðni láti hann næst fá umboðið og að hann verði snöggur að fá kerfisflokkana (Sjálfstæðis og græningjana) til fylgilags við sig. Kannski þarf hann að gera Sigmund óskaðlegan fyrst. Eiginlega truflar hann málin töluvert. Enginn trúir á nýja Framsókn meðan hann er innanborðs og ekki með öllu óskaðlegur.

IMG 2573Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gríska skáldið Menandes sagði réttilega:

"Þeir deyja ungir sem guðirnir elska."
(hlíft við því sem við tekur þá æska er að baki)

Orð þín um Sigmund Davíð eru svíðingsleg; ómakleg.

Húsari. 14.12.2016 kl. 16:14

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

"Sá feiti"lagðist á sveif með óvininum,skal sldrei fá frið.Framsókn verður að fara í bráðabana til að línur skýrist.

Helga Kristjánsdóttir, 15.12.2016 kl. 10:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband