2556 - Eiturlyf

Ef þingkosningar færu fram núna fljótlega (ástæðulaust að bíða fram í júní) mundi einkum verða kosið á milli þeirra lausna sem mest hafa verið í athugun að undanförnu. Það er annarsvegar stjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar og hinsvegar þessarar 5 flokka stjórnar sem Birgitta og Kata litla hafa verið að athuga. Auðvitað er sennilegt að möguleikarnir breyttust eitthvað en ekki á ég von á því að samstjórn íhalds og frammara mundi fá líf sitt framlengt. Allsekki er víst að þingmönnum yfirleitt hugnist þessi aðferð því óhjákvæmilega myndu einhverjir þeirra detta út. Guðna er samt trúandi til að leyfa öllum þingflokkaformönnum að spreyta sig á stjórnarmyndun fyrst.

Annars er það að verða fremur þreyttir spádómar sem fjalla um væntanlega stjórnarmyndun eða stjórnarmyndunartilraunir. Kannski fáum við nýja ríkisstjórn á þessu ári og kannski ekki fyrren á því næsta. Mér er eiginlega sléttsama.

Er lögreglan virkilega að stela? Lögreglan lagði hald á ýmislegt í sambandi við rannsókn á einhverju máli. Skartgripirnir sem haldlagðir voru finnast ekki. Finnst ykkur þetta með haldlagða skartgripi ekki alveg stórkostleg íslenska? Þetta er stóralvarlegt mál. Eiginlega má lögreglan alls ekki stela. Vonum bara að það hafi verið einhverjir aðrir.

Á í miklum vandræðum með að viðurkenna sem réttmæt rök þau sem haldið er fram af mönnum sem kunna illa stafsetningu. Greinilega fjölgar þeim mjög sem láta sig hafa það að láta ljós sitt skína án þess að hafa minnstu þekkingu á venjulegri stafsetningu. Auðvitað eru þetta fordómar. Vitanlega geta menn sem lítið kunna í stafsetningu haldið fram gildum rökum ekki síður en aðrir. Ég er bara svona illa gerður. Verða rök mín eitthvað betri þó ég sé sæmilegur í réttritun. Eflaust ekki. Datt þetta í hug núna rétt áðan þegar ég last greinina um fávitana sem ekki láta bólusetja börnin sín og viðbrögðin við henni. Vissi ekki að Donald Trump hefði haldið þessu fram. Fannst margt í grein Sifjar sem sneri að úthúðun Trumps vegna útlits hans draga heldur úr krafti greinar hennar. Veit samt að einn af veikleikum Trumps er að trúa um of á hvers kyns samsæriskenningar.

Sagt er að yfir 50 þúsund bandaríkjamenn deyji árlega af ofneyslu eiturlyfja. Held að sambærilegar tölur séu ekki fyrir hendi hér á Íslandi. Kannski eru þær það á Filippseyjum enda er slátrun fólks án dóms og laga sögð þar meiri en víðast annarsstaðar. Duterte forseti Filippseyja er sagður standa fyrir þessari slátrun og sagt er einnig að hann misnoti sjálfur Fentanyl sem er víst svona 100 sinnum öflugra en Morfín. Kannski eru þetta alltsaman þjóðsögur, en ég held samt ekki.

Það var fyrir fisk sem þessi garður var ull. Gátur af þessu tagi voru vinsælar í mínu ungdæmi. Þessi setning gæti verið svona: Það var fyrir löngu að þessi garður var lagður. Svona getur nú íslenskan verið skemmtileg.

IMG 2520Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Slæm stafsetning er svo sannarlega pirrandi. Hún er sjálfsagt að mestu leyti skólakerfinu að kenna og almennu frjálslyndi gagnvart málfari og stafsetningu.

Málvillur eru verri. Þær kalla skólamenn málþróun og láta sér í léttu rúmi liggja þegar æskan leitar af hlutum í stað þess að leita að þeim, og þar fram eftir götunum.

Vondri stafsetningu og lélegu málfari væri vel hægt að útrýma, rétt eins og flámælinu forðum tíð. Mér hefur þó ávallt þótt leiðinlegt að enginn sé flámæltur lengur - að tala við flámælt fólk gæti ég trúað að væri ekki síður upplífgandi en að glugga í Dimmalætting þeirra Föroyinga.

Þorsteinn Siglaugsson, 19.12.2016 kl. 22:28

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Þorsteinn. Að flestu leyti er ég alveg sammála þér.

Sæmundur Bjarnason, 21.12.2016 kl. 12:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband