42. blogg

Vonandi skánar moggabloggið eitthvað þegar kosningarnar verða afstaðnar. Flokkapólitík litar alltof margt af því sem hér er skrifað um þessar mundir. Auðvitað skipta kosningar máli og bloggið er nýr vettvangur fyrir stjórnmálaskrif. Hvort þessi skrif hafa áhrif á eftir að koma í ljós. Kannski var ágæt hugmynd að fara af stað með þetta svona skömmu fyrir kosningar. Moggabloggið hefur áreiðanlega breytt blogginu. Eftir kosningar kemur í ljós hverjar þær breytingar verða til lengri tíma litið.

 

Það að yrkja er þjóðargaman / þetta er fyrri hendingin. / Vísu þessa setti ég saman / svona verður endingin.

Ég hef alltaf haft sérlega gaman af vísum um vísnagerð ef þær eru vel ortar. Þessi er ágæt, en því miður gerði ég hana ekki sjálfur og hef ekki hugmynd um hver gerði hana.

Fyrir alllöngu síðan, (líklega laust eftir 1990 eða svo) í árdaga Internetsins á Íslandi stofnaði Pétur Þorsteinsson á Imbu sinni leirlistann svokallaða. Þetta var póstlisti af hefðbundinni gerð þannig að allt sem skrifað var á hann fór í tölvupósti til allra á listanum. Á Imbu eða einhverri af öðrum tölvum sem Ísmennt kom seinna á laggirnar var talsvert skrifað á einhverja ráðstefnu og þar lét ég sundum ljós mitt skína og birti meðal annars eitthvert vísnabull eftir mig. Í framhaldi af því var mér svo boðið á leirlistanum og þáði ég það auðvitað með þökkum.

Þar var ég svo einn af svonefndum leirlistamönnum allar götur þangað til á síðari hluta síðasta árs. Lengst af var ég nú heldur atkvæðalítill þar en orti þó stöku sinnum vísur sem ég er náttúrlega alveg búinn að gleyma.

Í upphafi voru leirlistamenn ekki margir og framleiðslan svona ein eða tvær vísur á dag, jafnvel minna. Undir það síðasta hafði félögum á listanum fjölgað svo að líklega hafa þeir verið farnir að nálgast hundraðið. Allmargir af þessum nýju félögum virtust líta á það sem skyldu sína að senda a.m.k. nokkrar vísur á hverjum einasta degi og þar með var það orðið talsvert mál að opna öll bréfin og lesa vísurnar sem þar voru. Ég tala nú ekki um ef einhverjir dagar liðu án þess að pósturinn væri athugaður.

Vísurnar voru líka afskaplega misjafnar að gæðum þó flestar væru þær rétt ortar. Margar af bestu vísunum voru birtar í Morgunblaðinu því einn blaðamaður þar var á listanum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það eru bara einhver mistök og ég hef ekki nennt að leiðrétta það.

Sæmundur Bjarnason, 9.5.2007 kl. 14:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband