1954 - Sigmundur

Skrapp aðeins út að ganga í gærmorgun. Tvær vísur urðu til þá:

Sjálfstæð hetjan Sigmundur
segir að hann telji,
Framsókn skapa fagundur
og flestir hana velji.

Lygastandard lækkaði
lyfti fargi þungu.
Heimilin svo hækkaði
Húrra allir sungu.

Segja má að kveikjurnar að þessum vísum hafi verið tvær. Fyrst var ég eitthvað að hugsa um að erfitt væri að finna rímorð á móti Sigmundur. Svo reyndist ekki vera. Svo var ég að hugsa um brandarann um strákinn sem var nýbúinn að fá að vita einkunn sína í einhverju prófi og sagði: „Ha, varst þú lakkaður? Ég var hakkaður.“

Þarna voru semsagt komin tvö þriggja atkvæða rímorð sem ég flýtti mér að smíða utanum.

Það var svo Fésbókin sjálf sem fann uppá því að tengja þetta við Sigmund Erni Rúnarsson, ekki ég.

Af hvaða hvötum er maður að þessu sífellda bloggi alla daga. Ekki fæ ég borgað fyrir það. Frekar að það kosti mig eitthvað. Allavega fyrirhöfnina. Ég reyni að ímynda mér að lesendur mínir mundu sakna þess ef ég bloggaði ekki. Stundum á ég samt erfitt með að sannfæra sjálfan mig um þetta.

Sumir blogga bara um sjálfa sig. Sumir blogga stanslaust um fréttir og pólitík. Flestir blogga samt ekki neitt. Láta sér nægja að lesa snilldina. Ég, auminginn, rembist eins og rjúpan við staurinn (hvað er hún að rembast við að gera? – Og við hvaða staur?) við að blogga sem oftast og hafa bloggin mín sem fjölbreytilegust. Mest blogga ég samt um blogg. Sennilega minnst um sjálfan mig. Enda er frá litlu að segja um mitt daglega líf. Það líður bara. Auðvitað væri samt frá einhverju að segja. E.t.v. geri ég það líka án þess að vita af því.

Skil þetta ekki. Geri bara eins og mér finnst ég þurfa að gera. Þ.e. blogga sem allra mest. Skyldi þessi sótt einhverntíma enda? Nú, er á meðan er. Best að láta ekki þetta tækifæri sér úr greipum ganga.

IMG 3049Í Reykjavík.


mbl.is Sigmundur fundar með Katrínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Lætur eins og ekkert sé
en eftir því er tekið
að Sæmi setti x við bé
því sjálfur hefur lekið

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 1.5.2013 kl. 12:30

2 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Jæja piltar,eruð þið bara að hugsa um pólitíkina á þessum drottins dýrðar degi en:

Held í göngu sjálfur upp mig herði

Með vopn og verjur ,girtur gildu sverði

Veit minn granni Sveinn mun standa á verði

að ég ekki hana Sígríði hans serði

ég sem aldrei hár á höfði skerði

Kannski bara ég heimsæki hana Gerði.

Jósef Smári Ásmundsson, 1.5.2013 kl. 13:47

3 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Þessi talsháttur er svo til orðinn að þegar maður finnur fyrst á vorin rjúpuhreiður skal ekki taka eggin undan henni, heldur láta hana verpa við. En það má með því móti að maður setji lítinn staur upp á endann niður, sumir segja í mitt hreiðrið milli eggjanna, en aðrir utan við hreiðrið, og hinir þriðju segja að það nægi að setja tréspæni í hreiðrið svo hærra beri á þeim en eggjunum. Þegar búið er að þessu og maðurinn er genginn burtu sezt rjúpan á eggin og verpir við þangað til hún hefur orpið svo mörgum eggjum að staurinn fer í kaf eða að eggjahrúgan taki jafnhátt honum, sé hann settur fyrir utan hreiðrið, og þaðan er orðskviðurinn dreginn, og er hann einnig hafður um það sem örðugt veitir að koma af.

(Þjóðs. Jóns Árnas.)

Svanur Gísli Þorkelsson, 1.5.2013 kl. 14:48

4 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Hvaða talshátt ertu að tala um Svanur-Fagundur? En varðandi pælingar þínar Sæmundur um bloggið held ég að þér þyki það bara svona asskoti skemmtilegt að blogga alveg eins og mér og fleirum þykir asskoti skemmtilegt að lesa bloggið hjá þér og allar pælingarnar .Maður er manns gaman og ég held að tungumálin hafi verið fundin upp einmitt í þeim tilgangi.Svo var þarna einhver geðillur kall sem ruglaði öll tungumál þjóðanna svo þær gætu ekki haft eðlileg samskipti.Og þess vegna urðu nú stríðin.Heyrðu:Ætla að ná mér í meira öl.Blessaður.

Jósef Smári Ásmundsson, 1.5.2013 kl. 16:08

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Setti ekki X við bé,

undarlegt er haldið.

Lætur einsog ekkert sé

áfram Laxdals-valdið.

Sæmundur Bjarnason, 1.5.2013 kl. 21:14

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jósef Smári, Svanur Gísli er eflaust að tala um talsháttinn að rembast eins og rjúpan við staurinn. Það er einmitt einn af talsháttunum sem ég á dálítið erfitt með að skilja. Er heldur ekki viss um að þessi skýring Svans Gísla sé hafin yfir allan vafa.

Við vísnagerð er stundum nauðsynlegt að búa til ný orð. Man ekki eftir að hafa heyrt orðið "fagundur" fyrr, en mér fannst það passa alveg sæmilega þarna og vantaði orð sem rímaði við Sigmundur.

Sæmundur Bjarnason, 1.5.2013 kl. 21:19

7 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Vesælum ei vertu mér
vald um nös að núa
Þú sem verpir vísum hér
og vilt ei Svani trúa

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 2.5.2013 kl. 01:09

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Vísum kannski verpi ég,

vont tal eflir trúna.

Skammarvísan skemmtileg

skelfir mig þó núna.

:)

Sæmundur Bjarnason, 2.5.2013 kl. 13:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband