1929 - Svei mér þá

Mér finnst nú of langt gengið að fremja sjálfsmorð útaf raunveruleikaþætti í sjónvarpi. Tekur fólk virkilega þessa vitleysu svona alvarlega. Þetta er alveg örugglega ómerkilegasta, ódýrasta, lélegasta og vitlausasta sjónvarpsefni sem til er og er þá langt til jafnað.

Hver skjótti hann? Spurði barnið þegar það frétti lát afa síns. Auðvitað hafa börnin það eftir sem fyrir þeim er haft. Sennilega er þeim ekki hollt að heyra um öll þau dráp og limlestingar sem stöðugt eru í fréttum. En hver á að koma í veg fyrir það? Sennilega skólarnir eins og flest annað. Annars hafa þau ekki mikinn áhuga á fréttum sem betur fer. Öfunda börn dagsins í dag og vorkenni þeim um leið. Þau fá allt upp í hendurnar samanborðið við okkur, sem erum að yfirgefa þennan heim, um leið og þau kynnast vonsku heimsins í gegnum Tomma og Jenna og fréttirnar í sjónvarpinu.

Mér finnst lýðurinn láta illa. Það er engin ástæða til að láta svona þó allt fari ekki að vilja manns. Er ekki allt í lagi þó margir flokkar bjóði fram? Frambjóðendurnir gera þá ekki annað af sér rétt á meðan það er verið að munstra þá. Og þó sprengt hafi verið norður í landi fyrir löngu síðan er engin ástæða til að sprengja neitt núna. (T.d. möguleika á samstarfi til að snúa á kjörstjórnina sem við fáum náðarsamlegast að hafa í boði fjórflokksins.)

Í alvöru talað finnst mér allt í lagi þó eitthvað af atkvæðum falli dauð niður. Þau styðja þó ekki fjór(eðafimm)flokkinn á meðan nema í mesta lagi óbeint. Frekar vil ég láta atkvæði mitt falla steindautt til jarðar og verða til einskis gangns en að fara að styðja fjórflokkinn. Hann hefur ekki breyst það mikið. Nýtt fólk er komið í brúna hjá Framsókn og sá flokkur nýtur þess. (Auk þess sem það virðist ganga vel í fólk að næla sér í svolítið af peningum (sem alltaf vantar hvort eð er) frá helvítis hrægömmunum (útlendingunum)). Þeir sem áður riðu öllu á slig um árið ráða enn of miklu hjá Sjálfstæðisflokknum. Kýs sennilega Píratana. (Sko mig – er bara farinn að nota tvöfalda sviga – meira má það samt ekki vera.)

Það var aldrei líklegt að alþingi gæfi réttinn til að hringla með stjórnarskrána frá sér þegjandi og hljóðalaust. Það verður að gera það með illu og það tekur tíma. Líklega er ESB fyrir bí í þessari atrennu, en í næstu tilraun tekst það. Þá verða orðin kynslóðskipti hjá Sjálfstæðisflokknum og hann orðinn ESB-flokkur til að halda bísnessmönnunum þar. Þá flýgur umsóknin í gegn.

Var að enda við að lesa í kyndlinum mínum bók um Úteyjarmálið eða réttara sagt um sálfræðilegar rannsóknir á Anders Behring Breivik. Athyglisverðar mjög. Fjallað er líka um réttarhöldin yfir honum og hvort hann hafi verið geðveikur í skilningi laganna þegar hann framdi hryðjuverk sín í júlí 2011.

IMG 2921Framkvæmdir á fullu.


mbl.is Framdi sjálfsvíg eftir lát sjúklings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er áreiðanlega eitthvað meira líka þarna á bak við. Erfitt að geta í hug annara.

Sigurður Þór Guðjónsson, 3.4.2013 kl. 15:51

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, áreiðanlega. Áttu annars ekki við lækninn sem fyrirfór sér?

Sæmundur Bjarnason, 3.4.2013 kl. 21:27

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Jú.

Sigurður Þór Guðjónsson, 4.4.2013 kl. 14:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband