1871 - Spillingin

Þegar ég varð fimmtugur fyrir áratugum síðan fannst mér ég orðinn svolítið gamall. Nú finnst mér það enginn aldur. Það er alveg eins hægt að segja: „Allt er fimmtugum fært“ eins og „allt er fertugum fært“. Það spakmæli sem sýnist eiga einna best við núna er: Allt er þrítugum þraut. Ég segi bara svona af því það stuðlar. Samt er það vitað að það er hvað erfiðast að vera ungur. Tala nú ekki um að vera táningur. Það er erfiðast af öllu, en lagast samt á endanum. Annars væri ágætt að vera gamall, ef maður óttaðist ekki að dauðinn væri að læðast aftan að manni.

Er sjálftaka slitastjórna á enda runnin? Er spurt í grein á Eyjunni. Gott ef það er ekki fyrirsögn. Ég held að svo sé ekki. En eflaust munu þeir sem komast í svona uppgrip fara ögn varlegar í framtíðinni. Það dómsmál sem við horfum nú framá hér á Íslandi getur orðið um margt athyglisvert, og ég vona að fjölmiðlarnir, sem hljóta að hafa efni á því að fylgja einu og einu máli eftir fylgist með þessu fyrir mína hönd.

Áður fyrr, þegar bankar fóru ekki á hausinn og ég var miklu yngri en ég er núna, var eitt besta ráðið til að geta skifað ótakmarkaða reikninga á ríkið og aðra að gerast tannlæknir. Man að það kom fram í einhverri bók sem ég las að Flosa Ólafssyni hefði verið bent á að gerast tannlæknir. Honum þótti bara mun skemmtilegra að gera flest annað.

Lögfræðingar löptu semsagt dauðann úr skel en tannlæknar blöktu. Seinna breyttist þetta og ég tala nú ekki um þegar Kreppan stóra skall yfir að þá sköpuðust mörg afar góð lögfræðingsstörf. Nú eru það tannlæknar sem sjá framá að verða að semja af einhverri skynsemi við ríkið. En lögfræðingarnir eyða tíma sínum í að skrifa himinháa reikninga sem á endanum lenda á almenningi og skattborgurum þessa lands.  

Mér skilst að lögfræðingar tali gjarnan um það eins og hvern annan happdrættisvinning að fá í hendurnar þrotabú og vera skipaðir skiptastjórar. Að komast svo í slitastjórn eða eitthvað þessháttar hjá fjöllnu bönkunum er eins og risastór lottóvinningur.

Hverjir eru það svo sem útdeila þessum vinningum? Jú, það eru einmitt dómstólarnir og þar með er komið á næstum fullkomið spillingarkerfi, því lögfræðingarnir verða að haga sér sæmilega til að dómararnir muni eftir þeim þegar úthlutað er gæðadjobbum. Æðstu menn banka og fjármálastofnana ásamt útrásarvíkingum og öðrum óþjóðalýð hafa svo með harðfylgi komist í þennan spillingarhóp.

Í seinni tíð hefur lærða afætudótið svo þurft að vara sig svolítið á sorpsneplum eins og DV og jafnvel fleirum. Einföldust er þöggunin. Bara láta eins og þetta pakk sé ekki til og þá getur það ekki gert manni mein, er hugsunin hjá mörgum.

Held ég.

Ómar Ragnarsson ræðir um lögheimili þingmanna á bloggi sínu. Umræður um sveitavarga og lattelepjandi Reykvíkinga læt ég mér oftast í léttu rúmi liggja, enda held ég að sú umræða sé oftast heldur grunn. Dettur samt í hug að óvitlaust sé að ræða bara um eitt málefni í hverju bloggi og hengja það í mbl.is-frétt ef maður finnur einhverja hentuga til þess. Nenni samt ekki að leita og finnst ómögulegt að blogga bara um eitt mál í einu.  

KraniIMG 2460.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband