1807 - Græðgisvæðingin

Ég er eiginlega hættur að ergja mig útaf fésbókinni. Annað hvort kann ég ekkert á hana (enda er það líklega vísindagrein útaf fyrir sig) eða hún er sífellt að verða skrýtnari og skrýtnari. Aldrei getur hún hagað sér eins og maður heldur að hún eigi að gera. Nenni ekki að fjalla um nýjustu afreksverkin.

Ég er líka alveg hættur að fylgjast með erlendum fréttum dagsins. Þær fjalla bara um stríð og aðrar hörmungar. Afar sjaldan eru Íslenskar fréttir. Þær fjalla þá oftast líka um einhverja óáran. Hvað er þá til ráða? Ekki standa fréttamannagreyin fyrir þessu. Ætli þau láti ekki bara stjórnast af þeim sem hæst hafa. Það er vaninn.

Núna áðan var ég fyrst að koma því í verk að lesa upphaflegu kynslóðagreinina eftir Sighvat Björgvinsson í Fréttablaðinu. Greinina sem ber nafnið „Sjálfhverfa kynslóðin á sviðið.“ A.m.k held ég að þetta sé upphaflega greinin. Ágætt er að hafa svolitla fjarlægð þegar meta skal grein af þessu tagi, sem vakið hefur jafnmikla úlfúð og raun ber vitni.

Margt er rétt hjá Sighvati í greininni. Samt gerir hann alltof mikið úr hlutunum og kennir heilu kynslóðunum um hvernig komið er. Margir sem reynt hafa að svara Sighvati hafa einkum haft það að segja að hann og hans kynslóð séu ekkert betri. Rifrildi milli kynslóða skilar engu. Það er langt síðan ég komst að því. Unga fólkið vill því gamla vel og öfugt.

Það að verðtryggingin sem slík eigi sök á óförum okkar Íslendinga í efnahagsmálum er tóm vitleysa. Verðtryggingin hefur fært valdið til áhrifa í þjóðfélaginu frá alþingi og stjórnvöldum til lífeyrissjóðanna. Stjórn lífeyrissjóðanna er misheppnuð og hefði þurft lagfæringa við í rás tímans. Starfsemi þeirra er einn þáttur í því sem olli Hruninu mikla.

Í Barna- og Miðskóla Hveragerðis, sem ég gekk í á sínum tíma voru svonefnd sparimerki kynnt. Það skeði einmitt um það leyti sem það var að verða algjör vitleysa að spara nokkurn skapaðan hlut. Verðbólgan var nefnilega komin á skrið. Skyldusparnaðurinn var tekinn upp um svipað leyti. Hann var verðtryggður og kom fótunum undir marga. Svo var hann afnuminn og ekkert kom í staðinn. Fjármálalæsi og efnahagsmál hafa aldrei verið kennd að neinu gagni í íslenskum skyldunámsskólum.

Á Bifröst lærðum við bæði rekstrarhagfræði og þjóðhagfræði. Bæði fögin þóttu hundleiðinleg en samt kann að vera að þau hafi aukið skilning minn á efnahagsmálum. Sá skilningur, ef einhver er, hefur ekki orðið til þess að ég hafi auðgast þó ég hafi gert mér einhverja grein fyrir hvert stefndi uppúr 1980.

Verkalýðshreyfingin var þjóðfélagsafl áður fyrr. Ég man sérstaklega eftir því þegar Hermann Jónasson sagði af sér forsætisráðherraembættinu eftir að hafa verið neitað um stuðning af hálfu alþýðusambandsþings. Síðan hefur verkalýðshreyfingin orðið gamaldags og óþörf. Í upphafi græðgisvæðingarinnar (um og fyrir 1990) voru flestir hættir að reikna með henni til nokkurs hlutar. Völdin komu svo til hennar aftur að nokkru leyti í gegnum lífeyrissjóðina og kannski er það ástæðan fyrir því að ekki var farið að hugsa í alvöru um stjórn þeirra fyrr en eftir Hrun.

Þessi mál öll eru yfirgripsmeiri en svo að ég fari nálægt því að hafa nóg vit á þeim, en áberandi er hversu sérfræðingum á þessu sviði hefur fjölgað síðustu árin.

Enn hækkar Seðlabankinn (sem einu sinni var bara skúffa í Landsbankanum) vexti. Bráðum verða þeir komnir aftur í hæstu hæðir og verðbólgan á fullan skrið ef svo fer sem horfir. Einkennilegt að reynslan af stöðugum stýrivaxtahækkunum skuli ekki hafa kennt mönnum neitt. Sennilega er bara verið að hjálpa bönkunum til að auka enn gróða sinn. Eiginlega ættu Íslensku bankarnir að laga sig að þjóðfélagsaðstæðum, en ekki öfugt.

IMG 1830Úr Víðistaðakirkju.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband