1782 - Já, já og nei, nei

Ég hef áður skrifað um stjórnarskrármálið og hef eiginlega litlu við það að bæta. Nýja stjórnarskráin tekur valdið til breytinga á stjórnarskránni af alþingi. Það er langmikilvægasta breytingin. Líklega er hún líka til bóta. Svolítil áhætta er samt fólgin í þeirri breytingu. Hvað það þýðir nákvæmlega að leggja skuli frumvarpið til grundvallar við gerð nýrrar stjórnarskrár er miklu þýðingarminna. Alþingi ræður því einfaldlega hvað það þýðir. Að leggja það sífellt til að ekki megi afgreiða jafnmikilvægt mál í ágreiningi er einfaldlega tilraun til að komast hjá breytingum. Breytingin mun samt verða. Ágreiningur er eðlilegur. Óvinsældir alþingis munu valda því að mikill meirihluti landsmanna mun samþykkja að taka valdið til breytinga á stjórnarskránni frá alþingi og færa það landsmönnum öllum.

Sá Þorvaldi Gylfasyni og einhverjum öðrum manni bregða fyrir í sjónvarpinu og auðvitað voru þeir að ræða um stjórnarskrána. Þorvaldur þjáðist af einhverjum yfirdrepsskap sem hinn maðurinn var alveg laus við. Þorvaldur hefur samt kynnt nýju stjórnarskrána vel að undanförnu en nauðsynlegt er að fá sem flesta til að kynna hana nú síðustu dagana. Lady Gaga er jafnvel hægt að nota í því efni.

Sennilegt er að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar þann tuttugasta október næstkomandi ráði einhverju um úrslit þingkosninganna að ári. Mikil breyting virðist vera að eiga sér stað í íslenskum stjórnmálum um þessar mundir. Óvinsældir ríkisstjórnarinnar eru engin tilviljun. Spilling sú sem grasserar í stjórnkerfinu verður að minnka. Flokkakerfið þarf nauðsynlega að stokka upp áður en það vex okkur yfir höfuð. Þó svo virðist sem nýjir flokkar njóti lítils trausts í skoðanakönnunum er ekki  þar með sagt að úrslit næstu þingkosninga verði á þann veg.

Tók mig til í gærkvöldi (þriðjudagskvöld) og skrifaði villt og galið á fésbókina og það er bara nokkuð gaman að því. Verst ef einhverjir taka þetta rövl alvarlega. Líklega er eins gott að passa sig. Ögmundur gæti komið í heimsókn.

Á sínum tíma var mikil andstaða við veru ameríska hersins hér á landi. Aldrei fór samt fram nein þjóðaratkvæðagreiðsla um það mál. Ekki er heldur víst að slík atkvæðagreiðsla hefði leyst málið. Að lokum leystu Bandaríkjamenn það sjálfir með því að fara bara.

Inngangan í ESB er mál af sama toga. Ekki er hægt að vera bæði með og á móti í því máli og örðugt er að tala sig niður á einhverja málamiðlun þar. Þjóðaratkvæðagreiðsla kann að leysa málið að einhverju leyti, en ekki er víst að samkomulag náist nokkurntíma um hvenær hún eigi að fara fram.

Nú er fellibyljatímabilið hafið á Karíbahafinu og stundum koma leifar af TRS (tropical revolving storm) hingað til lands sem djúpar haust- eða vetrarlægðir. Orðanotkun er nokkuð einkennileg í þessu sambandi, jafnvel ruglandi. Sjálfur hef ég álitið að ensku orðin hurricane, typhoon og cyclone þýddu það sama og væru best þýdd á íslensku með orðinu fellibylur. Aftur á móti er tornado eða skýstrokkur allt annað og afmarkaðra fyrirbrigði. Gríðarlega öflugt samt og verður til vegna þess að heitt og kalt loft mætist með miklum látum og breytist frá því að vera lárétt hreyfing í lóðrétta og þyrlar upp öllu lauslegu á litlu svæði. Ég er ekki veðurfróður maður og kannski er þetta allt á misskilningi byggt hjá mér.

IMG 1712Kópavogur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þar fyrir utan með allt þetta stjórnlagaráðgefanditilgangslausakosningaeitthvað, þá er , að mínu viti, flest okkar vandamál leyst með persónukjöri á þing. Þá hafa kjósendur vald, sem flokkarnir taka sér núna, til að losa sig við lélega þingmenn og veita þannig aðhald. Þetta er valdið sem íslenska kjósendur skortir.

larus 10.10.2012 kl. 09:30

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Í persónukjöri fara málefnin kannski forgörðum. Stundum getur það verið heppilegt. Kosningafyrirkomulagið þarf ekki endilega að vera stjórnarskrármál en er það samt oft. Lárus, það er ekki einfalt mál að ná valdinu af flokkunum og alþingi en ein leið er sú að kjósa rétt í kosningunum 20. okt. n.k.

Sæmundur Bjarnason, 10.10.2012 kl. 09:48

3 identicon

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/10/10/faer_2_1_milljon_i_baetur_fra_rikinu/

og samt er talið nauðsynlegt í þessari nýju stjórnarskrá að tiltaka það sérstaklega að bætur eigi að koma fyrir fangelsisvist að ósekju

Grímur 10.10.2012 kl. 11:18

4 identicon

Ef málefnin fara forgörðum þá er það vegna þess að kjósendur leyfa það. Eftir að hafa fylgst með Íslandi úr fjarlægð í nokkur ár, þá sér maður að umræðustjórnum fjórflokksins gengur út á að ef vinstri maður segir "heitt", þá stökkva alltaf til fótgönguliðar af hægri vængnum og segja "kalt", og þá getur rifrildið hafist ;) það stoppar enginn til að spyrja "hversu heitt" eða "getum við lækkað hitann" (ég vona að þú skyljir samlíkinguna)

larus 10.10.2012 kl. 11:28

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Er endilega víst að stjórnmálaflokkarnir séu eins slæmir og sífellt er verið að tala um? Mig grunar allavega að fjórflokkurinn og reyndar Alþingi líka séu orðnir allsherjar blórabögglar.

Emil Hannes Valgeirsson, 10.10.2012 kl. 13:17

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, það er nokkuð til í þessu hjá þér Emil Hannes. En flokkarnir flestir eru búnir að hafa langan tíma til að sanna sig og með öllu ástæðulaust að vorkenna þeim. Það er kannski einhver áhætta fólgin í því að samþykkja nýja stjórnarskrá, en þingmönnum kemur lítið við hvernig hún er.

Sæmundur Bjarnason, 10.10.2012 kl. 15:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband