1699 - Munu hægri sinnaðir stuðningsmenn ÓRG yfirgefa hann á síðustu metrunum?

Untitled Scanned 10Gamla myndin.
Nú er trúðurinn kominn til sögunnar og staddur á pallinum í sundlauginni.

Þó skoðanakanninir sýni annað um þessar mundir geta forsetakosningarnar í lok mánaðarins  orðið spennandi. Hætt er við að einhverjir hægri sinnaðir stuðningsmenn Ólafs Ragnars Grímssonar muni yfirgefa hann á síðustu metrunum og kjósa einhvern annan. Frá sjónarmiði andstæðinga ÓRG er eitt af því hættulegasta sem honum hefur tekist það að valda óróa og flokkadráttum milli andstæðinga sinna. Þóra Arnórsdóttir hefur enn vinninginn og er langlíklegust til að sigra hann ef hann verður sigraður. Ari Trausti Guðmundsson og Herdís Þorgeirsdóttir gætu hæglega bætt við sig undir lokin. Stuðingsmönnum Ólafs hefur tekist að bendla Þóru við Samfylkinguna og ESB. Þar með eru forsetakosningarnar orðnar flokkspólitískar og voru það kannski alltaf. Einnig hefur Þóra varla verið nógu skelegg sjálf og ekki er víst að það fylgi sem hugsanlega hrynur af Ólafi fari í eins ríkum mæli til hennar og Herdísar og Ara Trausta. Af því leiðir að líkurnar fara vaxandi fyrir því að Ólafur verði kjörinn en fái samt innan við helming atkvæða

Framsóknarmenn og sjálfstæðismenn hafa hingað til ekki riðið feitum hesti frá forsetakosningum. En það er lítið gagn í því fyrir þá að styðja mann sem eflaust mun svíkja þá við fyrsta tækifæri. Það mun Ólafur áreiðanlega gera enda er hann vanur að haga sér eins og vindurinn blæs hverju sinni.

Barátta forsetaframbjóðendanna er orðin nokkuð illvíg og fer aðallega fram í fjölmiðlunum og á netinu. Eiginlega er þetta líka mælikvarði á skoðanakannanirnar. Með hruninu hafa stjórnmálaskoðanir almennings breyst svo mikið að ekki er víst að kannanirnar séu eins sannspáar og þær hafa verið hingað til.

Guðbergur er dóni og hefur alltaf verið það, segir Sigurður Þór Guðjónsson. Rithöfundar eru það yfirleitt. Þórbergur var líka óttalegur dóni og margir fleiri. Dónaskapurinn er bara svo lítill hluti af þeirra höfundarverki að hann skiptir ekki máli. Dónaskapurinn hjá Guðbergi fer þó vaxandi í blaðagreinum hans. Einnig ofstækið og mannfyrirlitningin. Auðvitað svíður sumum hvernig hann skrifar núna. Á yngri árum mínum voru Guðbergur og Klaus Rifbjerg hinn danski talsverðir uppáhaldshöfundar hjá mér og alls ekki síst vegna þess hve miklir dónar þeir gátu verið. Fátt var þeim heilagt, ef nokkuð.

Umræðan á netinu er hræðilega fyrirsjáanleg. Illkvittin líka. Það er afar fátt sem má segja og mjög tíðkast þar fordómar allskonar. Allir eru tilbúnir að dæma aðra hart með litlum eða engum rökstuðningi og oft samkvæmt lituðum fréttum einum saman. Sum orð (t.d. feminisma) má alls ekki nota nema í réttu samhengi. Fésbókin er sífellt að verða illskiljanlegri og einhæfari. Sá fjöldi fólks sem áreiðanlega vinnur við breytingar á fésbókinni reynir að halda öllum sem mest þar og að þeir þurfi aldrei að fara annað á netinu. Eiginlega er ég alveg að gefast upp á bókarfjandanum. Hef samt enn svolítinn tíma fyrir bloggið. Moggabloggið er best.

IMG 0399Skrautlegur steinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Sæmundur, íhaldið reiknar með að komast í næstu stjórn og Ólafur mun klárlega vilja reka af sér slyðruorðið og er því ekki líklegur tiul þess að gefa þeim mikin frið.

Þetta er að renna upp fyrir þeim íhaldsmönnum sem ná að geta hugsað fram fyrir rassgatið á sér.

þeir eru ekki margir reyndar, en þeir sem átta sig munu trúlega hafa vit fyrir hinum.

þannig að, já það er líklegt að sjallar sjái ekki sína sæng údbreidda með Ólaf áfram á Bessastöðum.

hilmar jónsson, 19.6.2012 kl. 15:34

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hilmar, þú notar ekki orðtakið með sængina á sama hátt og ég mundi gera. Mér finnst merkingin vera neikvæð. Ef einhver sér sína sæng útbreidda þá má hann eiga von á að ætlun sín mistakist. Alveg sammála þér að öðru leyti.

Sæmundur Bjarnason, 19.6.2012 kl. 16:43

3 Smámynd: hilmar  jónsson

Er ég að misskilja þetta ?

Að sjá sína sæng útbreidda= að standa allar dyr opnar ?

hilmar jónsson, 19.6.2012 kl. 18:20

4 identicon

"Að sjá sína sæng upp reidda", banasæng, að sjá fram á endalokin! http://www.mbl.is/greinasafn/grein/602543/

En hvernig í ósköpunum hugsa menn (eða hugsa ekki)fram fyrir rassgatið á sér?

Það er a.m.k. aftan á mér þannig að ég gæti í besta falli hugsað aftur fyrir það!

Annars ósammála ykkur með Ó.R. tel hann hinn mætasta forseta.

Bjarni Gunnlaugur 19.6.2012 kl. 21:38

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sammála Bjarna.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.6.2012 kl. 23:37

6 identicon

Ég er sammála Bjarna og Ásthildi.

Ég mun kjósa ÓRG, sama hve hart verður að honum vegið síðustu metranna fyrir kosningarnar.

Sigrún Jóna 20.6.2012 kl. 05:53

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já Bjarni það er sorglegt að sjá hvernig orð og setningar gjörbreyta merkingu sinni. Þetta er alltaf að gerast. Er ekki frá því að orðið ítuvaxinn sé að breytast einmitt núna. Og kannski fleiri þó ég muni ekki eftir þeim.

Sæmundur Bjarnason, 20.6.2012 kl. 05:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband