1609 - Hrun, skattar og skátar

Untitled Scanned 45Gamla myndin.
17. júní hátíðahöld í Laugaskarði sýnist mér.

Allt í einu eru menn búnir að fá leið á að tala um Hrunið og farnir að tala um lífeyrissjóðina. Ég hef verið þeirrar skoðunar allt frá Hruninu sjálfu að á endanum muni stjórnmálin gleypa það. Umræðan hefur samt breyst á undanförnum árum og gott ef fólk er ekki orðið mun meðvitaðra um sín pólitísku réttindi. Kosningaúrslit munu samt ráða því enn um skeið hvernig landinu er stjórnað.

Bæði í umræðum um skattamál og lífeyrissjóðamál er rétt fyrir fólk að gera sér grein fyrir því að það kostar okkur talsvert að vera svona lítil. Við erum að rembast við að halda uppi alvöruþjóðfélagi þó við getum það varla. Skattar eru háir hér á landi og lífeyriskerfið meingallað. Meðan lifað var á lyginni í aðdraganda Hrunsins var reynt að telja okkur trú um að við værum öðrum fremri. Svo er ekki. Alveg fram á tuttugustu öldina drógumst við í sífellu aftur úr nágrannaþjóðunum. Síðan kom blessað stríðið rétt fyrir miðja öldina og framfarir hér á landi urðu gríðarlega miklar og örar. Þær framfarir byggðust nær eingöngu á sjávarafla (og hermangi) og geta ekki haldið áfram endalaust.

Þó við höfum nær kollsiglt okkur nú nýlega er margt sem bendir til þess að við séum að ná okkur furðanlega aftur. Stjórnmálaástandið er samt undarlegt hérna svo ekki sé meira sagt. Útlendingar eiga erfitt með að skilja hvernig stjórnarfarið virkar. Mér finnst að reynt hafi verið síðastliðin tuttugu ár eða svo að teygja stjórnarfarið í átt að því Bandaríska meðan við ættum að taka okkur Norðurlandaþjóðirnar til meiri fyrirmyndar. Þessu hefur Jón Baldvin Hannibalsson haldið fram og ég er ekki frá því að hann hafi sannfært mig.

Auðvitað er ég krati. Hef ekki einu sinni reynt að halda öðru fram. (Jú, einu sinni þóttist ég vera kommúnisti en þeir eru víst svotil útdauðir – kratarnir eru skyldir þeim. Þjónkun þeirra við fjármagn hvaðan sem það kemur er samt stundum óþægilega mikil.) Mér er alveg sama þó „bloggskrifandi hagfræðingum“ hafi fjölgað mjög að undanförnu. Þeir hafa ekki sannfært mig. Þó mikið sé talað um að allt sé að fara í kaldakol hér á Íslandi hef ég ekki í hyggju að flýja land. Skil samt vel það unga fólk sem leggur saman tvo og tvo og fær það út að lífið sé auðveldara annars staðar.

Þessi sífelldi bloggmalandi í mér er aðallega vandamál vegna þess hvað bloggin verða oft löng. Þetta blogg er svosem orðið ansi langt, en ég hef bara svo margt að segja. Auðvitað reyni ég alltaf að sýnast gáfaðri og merkilegri en ég er, en það gera flestir.

Sá áðan fyrirsögn á mbl.is sem hljóðaði svona: „Skart stöðvað á leið úr landi.“ Þetta hefði ég viljað sjá. Lítið er að græða á fréttinni sjálfri enda er fyrirsögnin langtum merkilegri.

Einu sinni var rætt um að flytja út teikningar af gatnakerfinu í Kópavogi, enda er það einstakt.

Nú er mikið rætt um Snorra í Betel. Hélt reyndar að Betel væri í Vestmannaeyjum. Það skiptir þó ekki máli. Honum er legið á hálsi fyrir að skrifa eitthvað kristilegt á bloggið sitt. Virðist trúa Biblíunni eins og nýju neti. Furðulegt. En mér finnst ansi hart að reka manninn úr starfi fyrir það eitt að einhverjum líki illa við það sem hann skrifar á bloggið sitt. Ef krakkarnir eru ánægð með hann sem kennara þá á hann að halda áfram að kenna. Svona mál á ekki að leysa á síðum blaða eða á fésbók. Á ekkert erindi þangað. Fésbókarfurstarnir vilja samt skipta sér af öllu og fordæma allt. Niður með þá.

Krakkarnir fá spjaldtölvur í skólanum og foreldrarnir rífa sig niður í rassgat á fésbókinni. Hvar endar þetta eiginlega? Ég er þeirrar skoðunar að þjóðin sé sífellt að vera gáfaðri og gáfaðri. Man eftir því að þegar ég var í Borgarnesi þá stofnuðum við félag sem hafði það á stefnuskrá sinni að koma tölvum í skólana. Ekki gekk það. Könnun sem mælir bara hve margar bækur hver og einn les er orðin úrelt áður en byrjað er á henni. Afl og afkastageta hjá tölvum tvöfaldast á hverjum 18 mánuðum. Hugbúnaður þróast ögn hægar en samt er augljóst að bylting er í vændum.

Benjamín Axel Árnason skrifaði mér á fésbókinni og bað mig að séra og læka síðu hjá skátunum. Gerði það og minnist þess um leið að ég var í þýðendahópi í fyrra sem var að þýða Suður-Ameríska bók sem átti að verða einskonar foringjahandbók. Tók síðan þátt í útgáfuteiti s.l. vor þegar bókin var gefin út. Benjamín Axel leiddi þýðendahópinn og gerði það vel. Mér finnst ég vera mun fróðari um skátastarf allt eftir það. Þegar ég var unglingur starfaði ég talsvert í skátunum í Hveragerði og tók þátt í því með Öllu Möggu og Árna að blása að nýju lífi í Skátafélag Hveragerðis. Kannski ég bloggi einhverntíma um það. Minnir þó að ég hafi gert það. Hvað ég hef bloggað um áður og hvað ekki er þó alltaf að verða óljósara og óljósara í mínum huga.

IMG 7879Greinar trjánna svigna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband