1531 - Að eldast og gleymast, það er lífsins saga

Scan578Gamla myndin. Blokkir í Reykjavík.

Stundum þegar ég fer inn á fésbókina sé ég að einhverjir fésbókarvina minna eiga afmæli. Oft er ég í vafa um hvort ég eigi að óska þeim til hamingju með það eða ekki. Suma finnst mér ég þekkja þó ég þekki þá svosem ekki neitt. Öðrum hef ég kannski unnið með í fyrndinni og kannast e.t.v. eitthvað við og sumir lenda alls ekki í síunni hjá mér. Allar þessar lækanir, endalausa hamingja og vinátta á fésbókinni fer líka öfugt í mig, því ég er svo fúllyndur.

Druslubækur og doðrantar ( http://bokvit.blogspot.com/ ) er vefsetur sem ég kíki stundum á. Karlmenn eru nefnilega oft svo hátíðlegir og snobbaðir þegar þeir minnast á bækur. Konurnar sem standa að að Drusluvefnum eru fjórtán. Sennilega bara til að vera ekki þrettán. Alveg gæti ég hugsað mér að skrifa greinar um bækur sem ég les. Les alls ekki svo fáar. Mest gamlar þó. Tími nefnilega aldrei að kaupa þær nýjar. Panta helst ekki á Bókasafninu heldur því það kostar peninga líka. Já, ég er samansaumaður, líka í áhugamálunum. Það kostar ekkert að blogga. Þessvegna blogga ég.

Auðvitað gæti ég skrifað eitthvað bölvað rugl. En það væri áhætta. Ég vil ekki sýnast ruglaður. Allt fyrir útlitið. Alltaf að sýnast. Sýnast betri en maður er. Enginn er eins góður og hann heldur. Sumir eru samt nokkuð góðir. Það er vandasamt að raða orðum. Þau mega ekki vera í alltof föstum skorðum. Þannig er það bara. Ekki get ég gert að því. Ef ég gæti það væri ég einhver annar. Um að gera að hafa þetta þrugl ekki of langt. Þá gætu lesendur fengið leið á að lesa bloggið mitt eða a.m.k. þessa grein.

Að blogga er eins og að skrifa fyrir skúffuna. Það gerðu margir í gamla daga. Stundum týndist innihaldið úr skúffunni. Kannski týnist bloggið ekki. Jafnvel síður en fésbókarþruglið. Er skúffan þá fyrir afkomendur og eftirkomendur? Hugsanlega. Það er hægt að setja myndir, skrif og ýmislegt fleira í hana. Ekki samt hluti eins og hægt væri að setja í skókassa. Svo er þessi skúffa ógnarstór. Það er líklega helsti gallinn á henni. Hún er svo stór að kannski nennir enginn að gramsa í henni þegar þar að kemur.

Helsti gallinn við það að verða gamall er sá hvað manni verður lítið úr verki og er lengi að öllu. Það líða stundum heilu dagarnir án þess að maður geri nokkuð af viti. Auðvitað getur verið að ég hreyfi mig bara svona hægt. Undarlegt að vera orðinn gamalmenni. Að sumu leyti er það samt ágætt. Ábyrgðarleysið, skilningsleysið og bjargarleysið er þægilegt ef maður ýkir það hæfilega. Verst með jafnvægisleysið. Get jafnvel skilið Júlla bakk sem stundum náði sér ekki af stað nema með því að bakka fyrst um nokkur skref.

Allir eru sérfræðingar í einhverju. Horfði áðan á endursýningu í sjónvarpinu. Þar var verið að sýna sérfræðinga í því að byggja hús uppi í trjákrónum. Kannski er ég sérfræðingu í bloggi. Legg líka meiri stund á það en flestir. Blogga næstum alltaf daglega og á erfitt með að hætta.

Yfirleitt er pólitíkin leiðinleg. Það skemmtilegasta við hana er að bíða eftir því að eitthvað gerist. Get varla beðið eftir þvi að Hanna Birna ýti Bjarna Ben. úr Engeyjarstólnum. Samt gæti það orðið vatn á myllu sjálfstæðisflokksins. Held þó að ekki verði hægt að spá neinu um næstu kosningar fyrr en framboðin eru fram komin.

Birgitta Jónsdóttir þingmaður hreyfingarinnar og dóttir Bergþóru sem er í hausmyndinni hjá mér er af bandarískum stjórnvöldum látin standa við smáa letrið. Stjórnvöld þar vildu semsagt kíkja í twitterskjölin hjá henni og Twitter-fyrirtækið hafði athugað að starfa eins og stjórnvöldin í Guðs eigin landi vildu.

Margir sem nýlega hafa kynnst töfrum stafrænu tækninnar gera sér ekki grein fyrir því að fundir í Öskjuhlíðinni eru besta formið ef verið er að skipuleggja eitthvað sem leynt á að fara. Auðvitað finnst mörgum æskilegast að allt sem nútildags er gert með stafrænni tækni sé jafnvel verndað og hinn mörg hundruð ára gamli sniglapóstur.

Svoleiðis er það bara ekki. Netið og farsímarnir eru samt að breyta heiminum. Byltingarnar í Norður-Afríku eru að mörgu leyti afsprengi tæknibyltingunnar sem gengið hefur yfir heiminn að undanförnu.

Þetta með vírusana og MacIntosh tölvurnar er skiljanlegt. Markaðshlutdeild makkanna er á heimsvísu verulega miklu minni en pésanna þó svo sé ekki hér á landi. Hvern langar að skrifa vírusa fyrir sjaldgæf stýrikerfi? Já, ég var pésamaður þegar þau trúarbragðastríð geisuðu.

Djöfull skrifa ég alltaf mikið. „Þetta er ekki einlægur andskoti“ eins og Mummi Bjarna sagði einu sinni. En nú er hann dáinn blessaður eins og á víst fyrir okkur öllum að liggja. Hann sagði líka einhverju sinni við mig: „Skelfing ertu heimspekilegur um hausinn“. Þá var ég nefnilega óklipptur eins og oft er. Þetta sýnir bara að hann hafði skilning á stuðlum. Ég ætlaði ekkert að skrifa um Mumma. Þetta var alveg óvart. Fór ekki einu sinni í jarðarförina hans. Þóttist víst vera að gera eitthvað annað. Svo hef ég ekkert gaman af jarðarförum. Safna þeim ekki eins og sumir.

IMG 7075Auðbrekka útum glugga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Eru þessar blokkir ekki í Fellsmúlanum?

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.11.2011 kl. 23:43

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Man það ekki með vissu, en myndin er sennilega tekin úr blogg við Fellsmúlann. Gæti snúið öfugt.

Sæmundur Bjarnason, 14.11.2011 kl. 01:45

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hún snýr rétt, Esjan og Mosfellið í fjarska

Gunnar Th. Gunnarsson, 14.11.2011 kl. 02:07

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þar sem þetta eru mínar uppeldisstöðvar þá get ég staðfest að myndin snýr rétt að þessu sinni. Blokkin til hægri tilheyrir Fellsmúla en hin er við Háaleitsbraut. Gunnar þekkir greinilega til hér í borginni.

Emil Hannes Valgeirsson, 14.11.2011 kl. 15:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband