1518 - Eirkatlarnir á Snæfellsnesi og fleira

Scan301Gamla myndin.
Fjögurra manna tjald.

Fór í gær á bókasafnið. Tók þar að láni m.a. bók sem heitir „Yfir alda haf“. Hún er eftir Sigurð Ólason. Sá er fæddu 1907. Ekki er neitt útgáfuár að finna á bókinni en margt bendir til að hún sé eldgömul. Fremst í bókinni er þó skrifað með blýanti og sett í hornklofa ártalið 1964 og kann það að vera útgáfuár bókarinnar. Í fyrsta kaflanum er sagt dálítið frá Aroni Hjörleifssyni sem er nokkuð frægur í sögunni. Á hann er minnst í Sturlungu og hann er fæddur árið 1200. Þeir sem áhuga hafa á honum er bent á að Gúgla nafnið hans og lesa sér til um hann. Hér vil ég aðeins geta þess að hann var Snæfellingur og ólst upp með Sturlu Sighvatssyni og var einn af nafntoguðustu  liðsmönnum Guðmundar góða, sem frægastur var biskupa þeirra sem störfuðu á Sturlungaöld.

Síðasti kafli bókarinnar ber nafnið „Leyndardómur eirkatlanna í Rauðamelshraunum“. Þar segir höfundur frá eirkötlum þeim sem fundust skammt frá Ytri-Rauðamel á Snæfellsnesi. Segir hann að þeir hafi fundist fyrir nokkrum árum og er e.t.v. hægt að finna útgáfuár bókarinnar útfrá því. Tilgáta höfundar er að eirkatlarnir (pottarnir) hafi tilheyrt þeim mæðginum Sigríði Hákonardóttur (1648 – 1733) og/eða Oddi lögmanni Sigurðssyni (1681 – 1741) og rökstyður það á ýmsan hátt.

Sá líka um daginn heimildamynd um Bobby Fischer sem nefnd er „Bobby Fischer Against the World“. Sú mynd er greinilega fullgerð fljótlega eftir að Fischer dó en líklega hefur samt verið byrjað á henni mun fyrr. Þessi mynd er um margt nokkuð góð og t.d. er ágætlega fjallað í henni um uppvöxt Bobbys og einvígið sem haldið var hér í Reykjavík árið 1972. Alls ekki er samt hægt að segja að kafað sé djúpt í ævi þessa höfuðsnillings skáklistarinnar. Á einum stað í myndinni segir Fischer að ekki sé rétt að segja að hann hafi verið snillingur í skák heldur sé rétt að segja að hann sé snillingur sem svo hafi viljað til að hafi einbeitt sér að skák.

Margt bendir til að þetta sé einmitt rétt. Fischer virðist halda að hann sé einhver allsherjar snillingur á öllum sviðum. Svo er bara alls ekki. Skoðanir hans á mörgum málum eru einmitt talsvert brogaðar. Mér finnst samt að ástæða sé til að horft sé í gegnum fingur sér með það, vegna þess hve góðum árangri hann náði í skáklistinni. Vissulega eru þeir til sem alls ekki geta fyrirgefið honum margt af því sem hann hefur látið hafa eftir sér. Það er auðvitað rétt að margt af því er ákaflega vanhugsað, en mér finnst ástæða til að láta hann í friði eftir að hann er farinn á vit feðra sinna. (Sem ekki er fyllilega vitað hverjir voru.)

Er ímynd Hornafjarðar deyjandi hreindýr? Það álítur Ómar Ragnarsson. Sjá: http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/entry/1201945/ Ekki er hægt að vera með öllu ósammála honum. Forráðamenn Hornafjarðar geta ekki endalaust haldið áfram að vísa hver á annan. Þeim væri nær að láta fjarlægja girðingarafmánina.

IMG 6973Spilað af hjartans lyst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband