1505 - Er vit í Vaðlaheiðargöngum?

209Gamla myndin
er af Kristni Jóni Kristjánssyni og Gunnari Hallgrímssyni

Nú er ég að hugsa um að taka þann sið upp aftur a.m.k. um tíma að birta bæði gamlar myndir og nýjar á hverjum degi. Ég er nefnilega búinn að undirbúa nokkrar gamlar myndir fyrir birtingu. Ekki er víst að mikið framhald verði á þessari stefnu en þá verður bara að taka því. Varla býst ég við að lesendum mínum fækki þó ég birti nokkrar gamlar myndir.

Er vit í Vaðlaheiðargöngum? Ég held ekki. Það er kannski ekki að marka. Ég var á móti brúnni á Óseyrarnesi á sínum tíma og andvígur Héðinsfjarðargöngum. Var samt hrifinn af Siglufirði þegar ég kom þangað síðastliðið sumar, en þangað hefði ég líklega ekki farið ef Héðinsfjarðargöngin hefðu ekki verið til staðar.

Það eru samt Vaðlaheiðargöngin sem eru mál málanna í dag. Hringvegurinn styttist um heila 16 kílómetra við gerð þeirra. Sumum finnst það alls ekki mikið, miðað við kostnaðinn. Aðalspurningin er hve mikið þau verða notuð. Það kann að ráðast að nokkru af því hve dýrt verður að fara um þau. Sagt er að Víkurskarðsvegur sé ágætisvegur mestan hluta ársins. Fari vetur harðnandi getur verið að Vaðlaheiðargöng borgi sig upp á tiltölulega stuttum tíma. Annars er ég hræddur um að þau verði minnisvarði um átakanlega bjartsýni Íslendinga í vegagerð. Mörg önnur verkefni eru brýnni.

Eru bloggin mín að styttast? Ekki er ég frá því. Mér finnst það bara góðs viti. Það er ekki hægt að blogga endalaust um allt og ekkert. Erfitt á ég samt með að hætta að blogga. Hvíldin eða bloggleysið, sem ég boðaði fyrir nokkru, kemur einkum fram í því, að ég tek mér bloggfrí öðru hvoru. Mér finnst ég ekki lengur vera skuldbundinn sjálfum mér og öðrum til að blogga á hverjum degi. Samt finnst mér ég þurfa að blogga. Þetta er ávani. Mér finnst ég losna betur við allskyns hugsanir með því að blogga um þær. Þegar ég er búinn að senda þær upp á bloggið get ég farið að hugsa um eitthvað annað. Svo lauma ég líka myndum með.

Litlum sögum fer af tímamótamótmælum þeim sem fram fóru í Reykjavík síðastliðinn laugardag. Það er skaði. Ekki trúi ég því að Íslendingar séu almennt búnir að gleyma góðærinu sem logið var að okkur að yrði endalaust. Margir trúðu því og töpuðu aleigunni. Sumir voru efins og gátu kannski bjargað einhverju. Fáeinir komust vel frá þessu og lifa nú í vellystingum.

Líklega verður reynt aftur um næstu helgi að mótmæla sem ákafast. Kannski tekst betur til þegar fólk fer að venjast þessu. Spyrjið bara Hörð Torfason. Það verður að kenna fólki átið og það getur tekið svolítinn tíma.

IMG 6867

Frá Hveragerði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Einhversstaðar á ég mynd af þeim félögum, Gunna og Kristni. Þar eru þeir spariklæddir. Ég held ég hafi sagt þér af róðrarferð, sem við fórum á (stolnum) báti á Hreðavatni. Kristni var minna skemmt en okkur Gunnari!

Ellismellur 18.10.2011 kl. 09:45

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, mig rámar í þessa bátsferð. Ætli Kiddi hafi ekki þurft að ausa. Man líka eftir að einhverju sinni voru nokkrir skildir eftir í eyju einni lítilli á Hreðavatni. Það var margt brallað á Bifröst.

Sæmundur Bjarnason, 18.10.2011 kl. 12:06

3 identicon

600 milljónir í afborganir, vexti og rekstur , á ár?. Eða þannig.

Ólafur Sveinsson 18.10.2011 kl. 15:34

4 identicon

Búið er að bjóða út Vaðlaheiðargöng. Lægsti tilboðsgjafi var neðar kostnaðraáætlunar.

Að sjálfsögðu veit enginn hvort göngin ein  og sér standa undir sér rekstrarlega,

Það leiðir tíminn einn í ljós,  en gleymum ekki því að þarna er fleira sem íbúar og hagsmunaaðilar þessa svæðis sjá og þurfa að hafa sem forsendu fyrir búsetu og rekstrarforsendum með traustari vegsamgöngum án þess að þurfa að treysta á Víkurskarð sem talið er versti vegatálmi frá höfuðborgarsvæðinu norður og austur um land.

Hólmgeir 18.10.2011 kl. 20:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband