1468 - Jóhannes Birkiland og fleiri

Með því að minnast stundum á aðra bloggara tryggi ég mér vissan gestafjölda. Sumir bregðast illa við, en aðrir láta sér fátt um finnast. Sumir eru orðnir svo vanir að ég sé að einhverju smápoti að þeir kippa sér ekkert upp við það.

Sæmundarháttur í bloggi er hugtak sem ég tek til mín. Sumir leggja það út sem sérlega sjálfhælin blogg, en ég skil það ekki þannig. Mér finnst það frekar þýða að maður sé sífellt að blogga um blogg. Það geri ég einmitt. Kannski er ég svolítið hálffrosinn við það eins og Villi í Köben segir en það er í lagi, það er minn háttur. Ég er bara svona. Sumir virðast vilja lesa þannig blogg.

Áður áminnstum Villa er mjög í nöp við kínverjann á Fjöllum (sennilega af því að hann er ekki síonisti) og spinnur á sínu bloggi upp einhverja sögu um heittrúaðan ísraelskan Gyðing  sem eigi skítnóga peninga og sé á leiðinni til Íslands til að bjóða í (Stein)Grímsstaðina á móti kínverjanum.

Þegar ég fer til útlanda drekk ég oft meira af áfengi en ég ætti að gera. Sjaldan til skaða þó. Verður samt stundum hugsað til þess hve auðvelt væri að verða róni þar sem áfengi er hræbillegt. Sennilega væri ég áfengissjúklingur (á Vogi alltaf öðru hvoru) ef brennivínið væri ekki svona dýrt. Segið svo að opinber stefna í áfengismálum sé ekki skynsamleg!!

Þó ég hafi kosið Ólaf Ragnar til forseta á sínum tíma, einmitt vegna þess að hann var líklegri en aðrir frambjóðendur til að virkja embættið til góðra mála, finnst mér hann vera orðinn pólitískari nú en góðu hófi gegnir. Það er auðvitað í góðu lagi að forseti hafi skoðanir á ýmsum málum. Jafnvel líka að hann láti þær í ljós. En það er ekki sama hvernig það er gert.

Mér finnst hann reyna of mikið að upphefja sjálfan sig og mun varla kjósa hann aftur þó hann bjóði sig fram enn einu sinni á næsta ári eins og mér sýnist hann vera að undirbúa. Held jafnvel að hann muni fá mótframboð að þessu sinni. Hlutur hans í niðurlægingu Íslands er stór.

Var að skoða gamlar fésbókar veggmyndir hjá Andra Snæ Magnasyni. Veit ekki af hverju ég tók uppá því. Sumar þeirra (jafnvel allmargar) hafa farið framhjá mér á sínum tíma. Líklega vegna þess að fésbókin brunar svo hratt framhjá manni nema maður liggi yfir henni. Það er kannski ekkert slæm aðferð að setja það sem maður vill segja í veggmyndir á fésbók. Mér finnst a.m.k. líklegra að gamlar myndir séu skoðaðar þar en annað.

Eftirminnilegust af þeim myndum sem ég hafði misst af var skrípamynd eftir Halldór Baldursson af Árna Sigfússyni þar sem hann var búinn að skera af sér Reykjanestána til að komast í Helguvíkurskóinn. Sú mynd var u.þ.b. ársgömul og Andri Snær var þar í hlutverki Öskubusku.

Ein af þeim bókum sem ég fékk á bókasafninu síðast þegar ég fór þangað heitir „Mánasilfur II“ og er safn endurminninga sem valdar eru af Gils Guðmundssyni og er bókin gefin út af Iðunni árið 1980. Þetta er hin merkilegasta bók og ég er þegar búinn að lesa flesta kaflana (held að þeir séu 29 talsins) Suma þeirra hafði ég reyndar lesið áður eins og frásagnir þeirra Gunnars Benediktssonar og Guðmundar G. Hagalín.

Á margan hátt er merkilegasta frásögnin eftir Jóhannes Birkiland. Sú frásögn er úr bókinni frægu „Harmsaga ævi minnar“ og þar lýsir hann uppvexti sínum og fer ófögrum orðum um foreldra sína og kennir þeim um allan sinn aumingjaskap. Einkum þó föður sínum sem Jóhannes telur að hafi verið sér alltof eftirlátur.

Lýsingar Jóhannesar á daglegum þrifnaði og matargerð eru líka magnaðar. Ein málsgreinin  er svona:

„Allir voru lúsugir á heimilinu og lýs voru í hverju rúmi. Flær létu sig heldur ekki vanta. Síðla kvölds, er allir heimamenn voru gengnir til rekkju, bar það við að hver, sem betur gat, tók að leita sér lúsa og strádrepa lýsnar, „þegar veiðin gekk vel“. Var þetta sjálfsagt gert til þess að grynna á lúsamergðinni, en einnig virtist þetta vera einskonar „dægrastytting“ í fásinni sveitalífsins. Þetta átti sér einkum stað að vetrarlagi. Menn létu hverja lús á milli nagla sér á þumalfingri beggja handa, fylgdi því smellur, er lúsin lét þannig líf sitt. Heyrðust oft margir slíkir smellir samtímis. Lýsnar voru álitnar sjálfsagður og óhjákvæmilegur hlutur. Því var trúað að þær kviknuðu á líkömum manna, og þess vegan heyrði ég fólk oft vera að tala um það að lýs kviknuðu örar á gömlum manneskum en ungum, enda væri það svo að rosknir menn og konur létu lúsunum betri lísfsskilyrði í té en menn og konur í blóma lífsins. Varð mörgum tíðrætt um að örðugt væri að hindra það að háaldrað og ellihrumt fólk yrði bókstaflega uppétið af lúsunum.“

IMG 6460Raffó.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Manstu eftir Jóhannesi? Hann var stundum að flækjast út um land og selja bækur sínar. Svo rámar mig í að hann hafi troðið sér inn í skólana til að tala yfir lýðnum. Sumum þótti þetta skemmtileg tilbreyting, öðrum ekki. - Ég sé að Siglufjörður hefur vakið verðskuldaða athygli þína í sumar. Ég vona bara að þínir mörgu lesendur veiti myndunum athygli og geri nú alvöru úr því að heimsækja þennan fallega bæ. Siglufjarðarlognið er líka plús í dæminu!

Ellismellur 6.9.2011 kl. 05:23

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, ég man vel eftir Jóhannesi. Hann dvaldi nokkuð lengi í Hveragerði held ég. Aðallega var verið að gera grín að honum og stríða honum. Man t.d. eftir að strákarnir voru að henda púðurkerlingum að honum. Þetta þótti sjálfsagt, en hefði verið kallað einelti í dag.

Já, ég var nokkuð hrifinn af Siglufirði og tók svolítið af myndum þar í sólskini um miðja nótt, því ég gat ekki sofið.

Sæmundur Bjarnason, 6.9.2011 kl. 09:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband