1445 - Kosovo

108Gamla myndin.
Sennilega er þessi mynd tekin 1. desember. Það er Theodór Jónsson sem er fremst á myndinni, en aðra þekki ég ekki. Þar er líklega um að ræða fólk úr Norðurárdalnum.

Lati Geir á Lækjarbakka,
lá þar til hann dó.
Vatnið vild´ann ekki smakka
var hann þyrstur þó.

Þessi vísa er sífellt að rifjast upp fyrir mér. Hagaði Geir Haarde sér eins og hann gerði einkum vegna leti. Hann hafði fram að því að hann varð forsætis ekki gefið tilefni til þess að ætla að hann væri latur. Sem fjármálaráðherra hafði hann alls ekki verið minna áberandi en forverar hans. Þegar hann verður forsætis er eins og hann ákveði að hann megi helst engan meiriháttar mann styggja.

Þetta er hinn mesti missskilningur því eftir því sem völdin aukast vex þörfin á því að styggja aðra. Þessu virðist Geir alls ekki hafa gert sér grein fyrir. Hann heldur áfram að reyna að líta út fyrir að vera góði gæinn. Það er útaf fyrir sig eðlilegt að hann geri sem minnst úr öllu. Hann þarf samt ekki að láta eins og ekkert sé og hann sé bara á hvíldarheimili og láti Sollu um að flengjast út um allt.

Mér leiðist svolítið að þó gestum hjá mér fjölgi töluvert, þá fjölgar kommentum lítið sem ekkert. Það tel ég mér trú um að sé m.a. vegna þess að menn eru uppteknir við sína fésbók. Það er ekkert skrýtið. Það eru ekki allir með jafnmikla fésbókarfóbíu og ég.

Gleymda stríðið í dag er Líbýustríðið. Það er ekkert í fréttum lengur. Þar held ég samt að enn sé verið að drepa fólk þó fjölmiðlasirkusinn hafi að mestu misst áhugann. Stjórnmálalega eru Bandaríkjamenn að reyna að koma sem mestu af ábyrgðinni á því stríði og stríðinu í Afghanistan yfir á Evrópu í gegnum NATO. Heimafólk í Bandaríkjunum er nefnilega í vaxandi mæli að snúast til einangrunarhyggju. Aftur á móti virðist útþenslustefnan þrífast betur um þessar mundir í Evrópu.

Einu sinni sá ég mynd af fjölmiðlasirkusnum í sjónvarpinu. Það var eftirminnilegt. Þetta var að ég held á Kosovo tímanum. Þar var verið að sýna myndir af hergangaflutningum eða einhverju þ.h. minnir mig og tökumaðurinn tók sig útúr hópnum og sneri sér við. Það sem þá blasti við var mun áhugaverðara. Svona 40 til 50 manna hópur með myndavélar, skrifblokkir og þ.h. samanþjappaður eins og síld í tunnu og í haldi hermanna sem voru allt um kring.

Apropos Kosovo. Fjögurra ára frænka okkar, sem átti heima í Breiðholtinu horfði stundum á fréttirnar. Ruglaði gjarnan saman Kosovo og Kópavogi og vildi sífellt vera að gefa okkur mat og fatnað fyrst við áttum heima í þessu stríðshrjáða landi.

IMG 6293Hópur fugla í sólbaði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband