1438 - Sinadráttur í svefni

101Gamla myndin.
Bifröstungurinn Sigurður Fjeldsted með bjór og brennivín.

Skelfing finnst mér fáránlegt hve margir af þeim sem byrjaðir voru að blogga áður en Moggabloggið kom til sögunnar finna því allt til foráttu. Jú, jú. Það er vel hægt að fallast á að eftir að Moggabloggið kom til sögunnar hafi bloggurum fjölgað mikið og margt sem þar var skrifað hafi verið óttalega lítils virði. Það er líka hægt að skrifa uppá það að bloggin á Moggablogginu hafi í rauninni flest verið bara „glorifíseraðar“ athugasemdir. Jafnvel líka að sumir þeirra sem þá höfðu bloggað lengi séu ágætir bloggarar. En að kenna Moggablogginu sem slíku um allt sem aflaga fer í bloggheimum er afskaplega heimskulegt.

Heimskustu bloggararnir eru reyndar, að ég held, flestallir hættir að blogga. Þeim fannst nefnilega Moggabloggið taka svo mikið frá sér. Áður en það kom til skjalanna voru lesendur miklu fleiri en bloggarar og þessvegna héldu jafnvel lélegir miðlungsbloggarar að þeir væru voðalega snjallir bara af því það voru svo margar heimsóknir á bloggið þeirra. Nú er ég farinn að fabúlera eins og „Fabúlus Fabúluson“ og gefa í skyn að ég sé ofurbloggari hinn mesti. Því er best að hætta þessu snarlega.

Var vakinn upp með símhringingu í morgun, sem var svo bara vitlaust númer. Maður verður eiginlega bæði ergilegur og feginn þegar svona gerist. Símhringingar snemma morguns (tala nú ekki um miðjar nætur) geta nefnilega verið hættulegar.

Einkennilegast við þessa símhringingu var að mig hafði verið að dreyma um símhringingu, sinadrátt og ýmiss konar vitleysu.

Þannig var að mér þótti í draumnum sem dauf símhringing heyrðist frammi á ganginum þar sem ég var kennari. Fór að athuga það og sá að einhver nemandi hafði svarað í símann. Það áttu þeir alls ekki að gera og þessi nemandi átti að vita það ekki síður en aðrir.

Tók í hnakkadrambið á honum og fór að skamma hann, en fékk þá alveg heiftarlegan sinadrátt í vinstri kálfann (hugsanlega í raunveruleikanum) og varð að hætta því. Annar kennari var þá kominn á vettvang einnig og hann og nemandinn biðu á meðan sinadrátturinn leið hjá.

Um leið og honum var lokið og ég ætlaði að halda áfram við skammirnar hringdi hinn raunverulegi sími og ég rauk upp með andfælum og draumurinn þurrkaðist út.

Þegar ég kom svo aftur upp í rúm fór ég að hugsa um hnakkadrambstakið og hvort það hefði kannski verið svonefnt steinbítstak, en fannst svo ekki vera. Man vel eftir steinbítstakinu svokallaða þegar ég var í grunnskóla. Aldrei var ég þó tekinn steinbítstaki og tók aldrei neinn slíku taki. Hugsanlega hefur bara verið ímyndun að það væri notað á fólk. Líklega erfitt að ná því.

Dæmi um samræður okkar hjónakornanna á morgnana þegar við sitjum hvort við sína tölvuna og erum niðursokkin í að fésbókast eða eitthvað þessháttar.

„Hvernig er lýsi á dönsku?“

Ég bulla eitthvað um hvernig lýsi sé á ensku og að máli skipti úr hvaða fiski það sé, o.s.frv..

„Já, nú man ég það. Það er „levertran“.

Fyrir allnokkrum árum var Ngorno Karabak mikið í fréttum á hverjum degi. (Held að það hafi verið eða sé fylki eða ríki í Sovétríkjunum sálugu). Kannski mundu það ekkert allir en ég mundi vel eftir því að Stígvélaði kötturinn var eign greifans af Karabak. Þetta skipti svosem ekki máli í fréttum dagsins, en fréttir þaðan minntu mig alltaf á Stígvélaða köttinn.

IMG 6239Brotinn gluggi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er mogga bloggið ekki að hrynja? Mér sýnist fáir vera eftir, og stór hluti þeirra einhverjir furðufuglar... ekki þú samt :).

DoctorE 4.8.2011 kl. 07:45

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég held að bloggurum sé að fækka mikið, ekki bara Moggabloggurum. Það getur vel verið að flestir sem eftir eru eftir þar séu með svipaðar stjórnmálaskoðanir en það segir ekkert um þá að öðru leyti.

Sæmundur Bjarnason, 4.8.2011 kl. 08:39

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Var það ekki greifinn af Carabas?

Annars:

Bestu þakkir fyrir að kalla nafna minn Bifröstung, ekki Bifresting eins og núverandi fólk þar efra kallar sig. Á mínum tíma/tímum í Bifröst var líka alltaf talað um í Bifröst, ekki á Bifröst eins og nú étur hver eftir öðrum.

Hvar breyttist þetta?

Sigurður Hreiðar, 5.8.2011 kl. 18:31

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Mér finnst Bifröst miklu frekar eiga að taka með sér forsetninguna á heldur en í, einfaldlega vegna þess að mér finnst þetta fremur vera bæjarnafn en eitthvað annað.

Sæmundur Bjarnason, 5.8.2011 kl. 22:56

5 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Þú hefur þá aldrei sungið um Önnu í Hlíð, eða þekkt Guðmund í Hvammi.

Sigurður Hreiðar, 6.8.2011 kl. 10:21

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jú, en við fyrstu sýn sýndist mér á-ið eiga fremur við býli en kauptún. Annars eru þessar forsetningar ólíkindatól hin mestu og margir hafa glímt við að finna reglu þar.

Sæmundur Bjarnason, 6.8.2011 kl. 20:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband