1435 - Verslunarmannahelgi

13Gamla myndin.
Ingþór Ólafsson, Ingibjörg Bjarnadóttir, Rósa Gísladóttir og Sigurjón Guðbjörnsson. Myndin er eflaust tekin á bókasafninu á Bifröst. Hjálpsamir menn þeir Ingþór og Sigurjón.

Hversvegna er ég eins og ég er? Hvers vegna er ég ekki einhver annar? Hvers vegna er ég ekki bestur og klárastur allra? Hvers vegna er ég ekki eilífur eins og ég ætti skilið?

Þegar stórt er spurt verður oft lítið um svör. Það ætti samt að vera vandalaust að svara þessu? En, hver ætti að svara því? Það er vandamálið. Ef óviðkomandi svara þessu er ég vís með að taka ekkert mark á því. Ekki er líklegt að aðrir reyni að svara. Þessvegna verð ég sennilega að burðast með þessar hugsanir þangað til ég drepst og fæ líklega aldrei nema óbein svör við þeim.

Mér er það mætavel ljóst að ég undanskil mitt innsta eðli í þessum bloggskrifum mínum. Skrifa ekkert um mitt persónulega líf og innstu og leyndustu tilfinningar. Flest bloggskrif eru þannig. Sjálfsævisögur líka. Ævisögur og æviþættir fólks, sem óviðkomandi skrifa komast oft nær manningum en hann mundi nokkurntíma gera sjálfur. Með lífshlaupi sínu skráir hver maður sögu sína á vissan hátt. Sú saga er oftast nær stutt. Miklu styttri en viðkomandi heldur. Fáir eru eins merkilegir og þeir halda sjálfir. Jafnvel ekki frægustu menn. Allra síst þeir sem frægir eru að endemum. Sumum finnst þó slík frægð skárri en ekkert.

Þetta á að virðast djúphugsað og er það á vissan hátt. Persónulegt líf fólks og innstu tilfinningar er það sem flestir vilja lesa og fræðast um. Held ég. Hversvegna skrifa ég þá ekki meira um slíkt? Það er afskaplega vandasamt og alveg ómögulegt án þess að minnast á sína nánustu. Og þeir eiga það alls ekki skilið að verið sé að fjölyrða um þá við aðra. Það sem aðrir hugsa um mann sjálfan er nefnilega það sem mestu máli skiptir. Það sem óviðkomandi fólk hugsar og talar um mann skiptir samt afar litlu máli. Hvað manns nánustu hugsa um mann er lífið sjálf.

Eftir svona „speki“ ætti ég að snúa mér að öðru. Verslunarmannhelgin er bara yfirleitt ein tíðindalausasta helgi ársins. Mér finnst það engar fréttir þó fólk hópist saman til að drekka sig fullt. Flest annað er áhugaverðara. Svo er rigning eins og venjulega. Veðrið er svosem ágætt að flestu öðru leyti. Kannski ég skreppi út í gönguferð.

Ljósmyndavélar eru sniðug tæki og ljúga ekki. En til að vita hvort ljósmynd er lygi þarf maður samt annaðhvort að taka hana sjálfur eða treysta tökumanninum mjög vel.

Að hvaða leyti er líf okkar frábrugðið lífi hinna aumustu og smæstu skorkvikinda á jörðinni? Jú, við höfum komist uppá lag með að skilja eftir okkur ummerki. Ummerki sem við teljum okkur trú um í hroka okkar og sjálfsblekkingu að séu óforgengileg eða a.m.k. lítt forgengileg. Hvort við erum svo eina lífsformið sem gerir sér grein fyrir keðju kynslóðanna vitum við auðvitað ekki, en höldum að svo sé. Ef okkur tækist að ná sambandi við líf annarsstaðar í alheiminum mundi það breyta mörgu. Kannski tekst okkur það einhverntíma. Kannski ekki.

Kalli á Sunnuhvoli hét Eggert og það er ekkert merkilegt við það. Hét segi ég því hann hlýtur að vera dáinn. Kalli var náttúrulega verkstjóri hjá hreppnum og einhverju sinni var vinnuflokkurinn eitthvað að grafa holur út um allt og Unnar Ben. bað okkur krakkana að fara frá svo hann gæti séð Kalla. Man að þetta var ekki langt frá gamla barnaskólanum.

Þá sagði ég og þóttist vera voðalega fyndinn: „Farið frá svo hann sjái ekkert.“ Gott ef einhverjir krakkanna hlógu ekki að þessu.

Samkvæmt því sem segir á Eyjunni er ástæða fangelsisfarsans sem nú er leikinn með mikilli innlifun af stjórnmála- og fjölmiðlamönnum m.a. sú að sjálfstæðismenn og aðrir á Árborgarsvæðinu vilja ólmir fá fangelsið tíl sín. Í greinargerð fá Eyþóri Arnalds og fleirum segir m.a.

„Vaxandi þörf er á fangelsi sem annast afplánun meginþorra fanga í landinu, Litla-Hraun er best til þess fallið enda byggt á traustum grunni þekkingar og aðstöðu.“

Þetta finnst mér bara vera orðaleppur sem engin ástæða er til að taka alvarlega. Ef bygging fangelsis hefur verið á döfinni síðastliðin fimmtíu ár hversvegna má þá ekki bíða í fáeina mánuði ennþá? Það er vitað að einkaframkvæmd er mun dýrari en opinber. Var það ekki einkaframkvæmdarfáviskan sem setti mörg sveitarfélög á hausinn?

IMG 6226Tveir bátar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband