1434 - Lygasaga

12Gamla myndin.
Starfslið úr eldhúsinu að Bifröst. Veit því miður ekki nöfnin á kvenfólkinu en sennilega er þetta Beggi kokkur lengst til vinstri.

Nú er ég búinn að setja blogg nr. 1433 á sinn stað og get því byrjað strax á bloggi nr. 1434. Skelfing held ég að sumum leiðist að lesa svona bull. Ætti ég ekki frekar að segja frá einhverju bitastæðara.

Lauk í dag við að lesa bókina „Lygasaga“ eftir Lindu Vilhjálmsdóttur. Sjálfsævisögulegar bækur eru ekki margar á íslensku og þær vekja jafnan áhuga minn. Þessi bók var víst gefin út fyrst árið 2004 og hefur sjálfsagt þótt ágæt þá. Sem betur fer er hún ekki löng og fremur fljótlesin. Svo er að skilja á Lindu að hún hafi verið baldinn unglingur og stundað drykkjuskap og fíkniefnafikt þegar hún eltist. Kannski hefur hún skrifað sig frá demónum sínum með þessari bók. Mér finnst bókin ekki verulega góð, en hún er það kannski fyrir þá sem þekkja Lindu. Líklega hefur bókin líka elst illa.

Nú er verslunarmannhelgin að ná hámarki sínu. Og enn rignir. Veðrið er samt alveg ágætt. Mikið er friðsælt í borginni. Engin læti eða neitt. Vildi að það væri alltaf svona. Rigningunni mætti þó sleppa.

Menn eru enn að fjargviðrast útaf atburðunum í Noregi og reyna eins og þeir geta að mjólka það útúr þeim sem þeim finnst styðja sín sjónarmið í pólitík. Hryðjuverk hafa afar lítið með stjórnmál að gera þó óvandaðir stjórnmálamenn reyni eins og þeir geta að notfæra sér þau og ótta almennings við þau.

Þó svo vilji til að fjöldamorðinginn norski hafi ýmis hægrisinnuð viðhorf, er ekki þar með sagt að vinstri menn séu eitthvað lausari við hryðjuverk úr sínum ranni. Það segir samt afar lítið um stefnurnar sem slíkar. Menn reyna t.d. að afsaka áhuga sinn með því að gera ráð fyrir að stefnur flokkanna sem slíkar hafi eitthvað með þann hugsanagang að gera sem fjöldamorðingjarnir básúna. Til þess fá þeir aðstoð fjölmiðla og er lítið er því að gera. Mér finnst sú þörf fólks að vera sammála síðasta ræðumanni vera of almenn.

Ástæðulaust er að blogga í sem lengstu máli ef maður hefur lítið að segja. Ég verð samt dálítið var við þessa tilhneygingu og reyni oft að stytta bloggin mín sem mest þó oft sé erfitt að hemja sig.

Jónas Kristjánsson segist ætla að greiða atkvæði á móti stjórnarskrárdrögunum. Það er hans mál. Samkvæmt því gerir hann ráð fyrir að stjórnarskrárdrögin komi óbreytt að mestu til þjóðaratkvæðagreiðlsu. Ég held líka að svo verði og að þau verði samþykkt.

IMG 6222Þetta minnir á íslenska fánann, en er ekki mjög vel gert.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sæmundur.

Ágætis grein hjá þér og ég er sammála þér um að það að ætla að draga fjöldamorðingjann Breivik inní stjórnmálaumræðuna og nýta sér voðaverk hans í pólitískum tilgangi er algerlega tilhæfulaust og smekklaust.

Undir lok greinar þinnar segir þú að Jónas Kristjánsson ætli að greiða atkvæði gegn tillögum Stjórnlagaráðs.

Þú segist eins og Jónas telja að tillögur Stjórnlagaráðsins muni koma svo til óbreyttar í þjóðaratkvæðagreiðslu og þú telur að þar muni þau verða samþykkt.

Þarna er ég þér algerlega ósammála þér, því að ef tillögunum um "fullveldisafsal" verður ekki kippt út þá verða þessar tillögur því miður allar felldar, ef greidd verða atkvæði um allar tillögur Stjórnlagaráðs á einu bretti, já eða nei.

Það er mjög miður því þarna er margt af ágætum tillögum, nema þessar um fullveldisafsalið sem eru afleitar og meirihluti þjóðarinnar mun aldrei samþykkja, ekki frekar en ESB innlimun.

Þess vegna líki ég nú Stjórnlagaráðinu við hafskip sem nýlega hefur lagt fullfermt úr höfn. Það er M.S. Stjórnlagaráð RE 25 og farmurinn í lestum skipsins eru allar tillögur stjórnlagaráðsins.

Í þessum farmi skipsins eru margar góðar afurðir og kræsilegar vörur, en því miður hefur einnig verið komið fyrir og eiginlega verið smyglað líki í lestar þessa skips, eins konar Samfylkingar-líki.

Sem eru þessar dæmalausu tillögur um fullveldisframsal þjóðarinnar, til að þóknast ESB liðum og þeirra aftaníossum !

Það mun því miður verða til þess að þetta skip verður eitt af þeim sem aldrei landi ná !

Gunnlaugur Ingvarsson 31.7.2011 kl. 10:22

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Gunnlaugur, þú verður að tala skýrar ef ég á að skilja þig. Hvað áttu nákvæmlega við þegar þú talar um "fullveldisafsal"?

Flutningaskipssamlíking þín er ágæt en ég hef ekki hugmynd um hvað það er í lestinni sem þú ert að tala um.

Sæmundur Bjarnason, 31.7.2011 kl. 13:29

3 identicon

Sæll Sæmundur.

Þú kannski nærð að skilja þetta ef þú lest textann að Stjórnarskrártillögum Stjórnlagaráðs um mögulegt fullveldisafsal til ríkjasambanda eða annarra alþjóðlegra stofnana.

Svo máttu gjarnan lesa þetta hér að neðan til frekari skýringa sem er reyndar tekið af nýlegu Mbl bloggi JVJ.

Flumbrugangur "stjórnlagaráðsins" (sem þær vikurnar mun hafa verið með óráði) við að finna ESB-væna leið til að farga fullveldisréttindum landsins á sem snyrtilegastan hátt og jafnvel þannig, að hægt yrði að fífla í leiðinni saklausa, fullveldissinnaða menn innan "ráðsins", gekk bara allsendis að óskum hinna ESB-sjúku. Niðurstaða, sem enn stendur í plaggi þessa liðs, verður til ævarandi skammar fyrir alla stjórnarskrárvinnu Íslendinga frá upphafi, svo greiðlega kom í ljós að þetta fullveldisafsal gæti gengið fyrir sig: bara þyrfti að kjósa nógu oft um heimild til þess, þegar ESB-fylgið mælist nokkuð verulegt í skoðanakönnunum, og þetta væri unninn sigur, enda þá ekki rofið þing í tilefni þess. Þannig getur ESB-dindilmenna-þing þá látið ítrekað kjósa um málið án þess að missa sitt umboð, en við það eru þeir hræddastir, ESB-Samfylkingarmenn, enda styður nú innan við 3. hver kosningabær maður þessa ríkisstjórn.

Gunnlaugur Ingvarsson 31.7.2011 kl. 13:59

4 identicon

Sæll aftur Sæmundur.

Þér til frekari glöggvunar þá er þetta hér orðrétt frá Stjórnlagaráði úr 8 kafla um utanríkismál.

110. gr. Þjóðréttarsamningar

Ráðherra gerir þjóðréttarsamninga fyrir hönd Íslands. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi, innsævi, landhelgi, efnahagslögsögu eða landgrunni, eða kalla á breytingar á landslögum, eða eru mikilvægir af öðrum ástæðum, nema samþykki Alþingis komi til.

111. gr. Framsal ríkisvalds

Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu. Framsal ríkisvalds skal ávallt vera afturkræft.

Með lögum skal afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds samkvæmt þjóðréttarsamningi felst.

Samþykki Alþingi fullgildingu samnings sem felur í sér framsal ríkisvalds skal ákvörðunin borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu er bindandi.

Gunnlauguri 31.7.2011 kl. 14:09

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Gunnlaugur, mér finnst þú vera að misnota bloggið mitt og bið þig að hætta því.

Sæmundur Bjarnason, 31.7.2011 kl. 14:17

6 identicon

Ég skal hætta því strax. Aðeins þetta að lokum: Þú sjálfur baðst bara um frekari skýringar og svör frá mérvið fyrsta commenti mínu og ég reyndi að verða við þeirri ósk þinni, með tveimur commentum.

Finnst mjög leiðinlegt ef að ég eða þessi svör mín hafa eitthvað farið í taugarnar á þér eða móðgað þig á einhvern hátt. Það var ekki meiningin.

Gunnlaugur Ingvarsson 31.7.2011 kl. 15:05

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nei, Gunnlaugur, ég er alls ekkert móðgaður. Mér finnst bara út í hött að vera að vitna í aðra í kommentasvörum. Líka finnst mér þau í lengra lagi. Annað er það ekki.

Sæmundur Bjarnason, 31.7.2011 kl. 20:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband