1393 - Crowd control

img 0006Gamla myndin.
Þetta er mynd af Trésmiðju Hveragerðis. Þarna hafa margir unnið og margt átt sér stað. Trésmiðja Hveragerðis var lengi eitt helsta fyrirtæki þorpsins.

Las um daginn frétt sem fór því miður inn um annað eyrað á mér og út um hitt. Get ekki fundið hana aftur. Þessi frétt fjallaði um það að Bandarísk yfirvöld hefðu fundið upp (eða styrkt gerð á) nýjan tæknibúnað sem gerði fólki kleift að notast við farsímana sína þó stjórnvöld reyndu að gera þá óvirka. Kannski var eitthvað meira í fréttinni en núna allt í einu dettur mér í hug að þetta sé merkilegt mál.

Er ekki með þessu verið að tryggja yfirráð Bandaríkjanna og fylgiríkja þeirra í atburðum á borð við þá sem urðu í Egyptalandi í byrjun þessa árs. Senditækin sem falin voru uppi á hlöðulofti í heimsstyrjöldinni síðustu eru algjörlega úrelt. Nútíma njósnarar notast við fullkomnari útbúnað.

„Crowd control“ er það sem mestu máli skiptir þegar ástand er ótryggt. Þurfa bandamenn ekki að nota allt sitt þegar um er að ræða að halda sínum yfirráðunum?

Ég er í aðra röndina róttækur en íhaldssamur í hina. Mér finnst þetta ekkert einkennilegt og gengur vel að flokka þau áhrif sem ég verð fyrir daglega og setja í réttar skúffur í heilanum. Með þessu verður smám saman til einstaklingseðli sem er ólíkt flestum eða öllum öðrum slíkum.

Til að vega upp á móti tilgangsleysi lífsins ímynda ég mér að ég hafi stíl. Bæði ritstíl og ljósmyndastíl. Fer ekki fram á meira. Reyni ekki einusinni að breyta heiminum.

Nú er ég búinn að vera úti að flækjast í mestallan dag og bloggið er þessvegna með stysta móti. Ekkert er við því að gera, því ekki er víst að sumardagarnir verði margir. Hlýindin í dag og sólskinið er vel þegið eftir kuldann að undanförnu.

Það er enginn ávinningur að bulla sem mest á blogginu eins og sumir gera. Nær að blogga minna og helst ekki neitt. Margir hafa líka gefist upp á þessari tilgangslitlu iðju. Ég þumbast þó við. Enda er ég þumbari mikill.

IMG 5777Ris á hjólum og með sólarpanel (sýnist mér).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gamla myndin.
Er þetta Humber í forgrunni?

Ólafur Sveinsson 16.6.2011 kl. 18:47

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Áttu við hvaða tegund bíllinn er fyrir framan trésmiðjuna?

Nú veit ég bara ekki. Ég hugsa samt að ég gæti komist að því.

Sæmundur Bjarnason, 16.6.2011 kl. 22:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband