1385 - Geir Haarde

vignirGamla myndin.
Þessi mynd er af Vigni bróðir. Hann er líklega um 14 ára þarna. Kannski er þetta einhverskonar fermingarmynd.

Geir Haarde heldur því fram að réttarhöldin sem eru að hefjast yfir honum séu pólitísk og Stalínísk. Því er ég ekki sammála. Málatilbúnaðurinn er byggður á rannsóknarskýrslu alþingis sem almennt hefur verið talin vönduð. Landsdómur er þannig skipaður að ekki á að vera hætta á að ríkjandi stjórnvöld hafi úrslitaárhrif á hann. Úrslit mála fyrir Landsdóminum koma þó áreiðanlega til með að hafa stjórnmálaleg áhrif.

Friðrik Þór Guðmundsson hefur fjallað ágætlega um þetta mál allt saman á eyjubloggi sínu á http://blog.eyjan.is/lillo/2011/06/07/politisk-rettarhold-ad-haetti-stalins/ Ég hef litlu við það að bæta. Þetta mál alltsaman getur þó orðið mikið hitamál á næstunni. Það er líka nokkuð óljóst hvernig og hvenær alþingi lýkur. Mér sýnist að ríkisstjórnin sé að linast í kvótamálum en styrkjast í ESB-málum.

Fyrir allmörgum árum eða áratugum fór ég í sólarlandaferð til Mallorka. Þetta hafa fleiri gert og ég ætla ekki að fara að rekja þá ferðasögu. Minnist þess samt að hafa lesið í blaði sem þar var gefið út að undangenginn mánuð hefði ferðamannafjöldi sá sem til Mallorka kom í þeim mánuði í fyrsta skipti farið yfir milljón. Því minnist ég á þetta að nú heyrist mér að Íslensk ferðamálayfirvöld séu farin að gæla við þá hugmynd að ferðamenn sem koma til landsins koma verði á þessu ári yfir 600 þúsund. Ég er ekki að bera þessar tölur saman til að gera lítið úr ferðamannstraumi til Íslands, heldur til að benda á í hvaða samhengi við aðra ferðamennsku íslenskir aðilar starfa.

Gúgli segir (og Jónas líka) að frétt sé á RUV.IS með fyrirsögninni „Glæpsamlegt að loka Ekron.“ Mig langaði að lesa þessa frétt en hún var horfin í kvöld um níuleytið. Vonandi er bara verið að lagfæra hana lítilsháttar, en hvernig á ég að vita það? Á ég bara að trúa því sem Jónas Kristjánsson segir um það? RUV virðist ætlast til þess.

Harpa Hreinsdóttir segir í fésbókarfærslu að ekki megi vitna í lokaðar slíkar færslur (eða þannig skil ég hana). Ég tek mikið mark á Hörpu og hef lært heilmikið af henni (vonandi). Sjálfur vitna ég þó beint í það sem mér sýnist (eini mælikvarðinn sem ég hef er hvort ctrl-c virkar eða ekki) og sé ekki einu sinni á fésbókarfærslum hvort þær eru opnar eða lokaðar. Svo er líka um að ræða beinar eða óbeinar tilvitnanir og þannig má lengi flækja málin.

Borgarnesmyndir mínar frá því í gær hafa vakið nokkra athygli en ekki eins mikla og ég hafði búist við. Við því er ekkert að gera. Ég er viss um að filmurnar sem Borgarblaðinu tilheyrðu og voru hjá mér í nokkurn tíma munu skila sér til Héraðsskjalasafns Borgarfjarðar og þó ekki þekkist allir á myndunum þegar til þeirra á að taka gerir það lítið til.

IMG 5730Borgarspítalinn. Mér dettur ekki í hug að kalla þessa byggingu Landsspítala – háskólasjúkrahús.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband