1298 - Blogg og skák

Mér dettur í hug að ástæða þess meðal annars hve orðljótir og skömmóttir bloggarar eru oft, sé sú að það er oft sama hvernig þeir hamast, enginn segir neitt. Svo færa þeir sig stöðugt upp á skaftið og bölsótast meira og meira. Allt í einu segir svo einhver eitthvað (t.d. Árni Matt. á Moggablogginu) og þá eru þeir komnir of langt út í kviksyndið til að komast aftur til lands. Afleiðingin er sú að bloggið í heild líður fyrir þetta. Það er álitið með nokkrum rétti að svona séu bloggarar nú og taka verði öllu sem þeir segja með varúð. Bloggið er samt markverð nýjung, því oft ratast kjöftugum satt á munn. Úr því sem komið er verður fólk ekki stöðvað. Sannleikurinn vill út.

Fésbókin, sem ég vil alltaf ræða um leið og bloggið, er dálítið öðruvísi. Meira eins og kaffibollaspjall meðan bloggið er dálítil predikun. Bloggið er líka meira háð umhverfinu. Bloggveitur koma og fara. Eiga sína vinsældatíma og dala svo. Fésbókin aftur á móti nýtur þess að þar er einn stjórnandi og þar er ekki vinsældakeppni af sama tagi og af því að einn aðili stjórnar þar er samband aðila sterkasti hluti hennar.

Bjarni sonur minn er að gera það gríðarlega gott á Reykjavíkurskákmótinu og ég get ekki stillt mig um að minnast á hann hér. Í gær (laugardag) vann hann bæði Róbert Lagerman (áður Harðarson) og Dag Arngrímsson og teflir í dag (sunnudag) við Hannes Hlífar Stefánsson. Er ásamt tveimur öðrum efstur Íslendinga á mótinu. Já, hann hefur gaman af að tefla. Annars verður þetta hálfúrelt frásögn ef ég geymi hana fram til næstkomandi miðnættis, eins og ég er vanur. Ekki er samt gott að gera við því. Ég er bara enginn fréttabloggari. Enda er svosem sagt frá þess í Mogunblaðinu og víðar.

Skák, sem er óneitanlega er eitt af mínum aðaláhugamálum, nýtur ekki nærri eins mikilla vinsælda hjá fréttamiðlum nú eins og áður var. Úbreiðsla hennar um heiminn er samt gríðarmikil og vaxandi. Fjöldi útlendinga á þessu móti er mikill og reikna má með að þeir raði sér í efstu sætin. Íslendingar koma líklega ekki til með að veita þeim bestu þeirra mikla keppi.

IMG 4868Pálmatré.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

íslendingar voru góðir í skák áður en tölvuleikirnir komu :)

Óskar Þorkelsson, 14.3.2011 kl. 02:57

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Svo komu útrásarvíkingarnir og rugluðust á því hvað er tölvuleikur og hvað er veruleiki. !

Sæmundur Bjarnason, 14.3.2011 kl. 08:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband