1236 - Fátæktarbiðraðir o.fl.

Fátæktarbiðraðirnar hjá svonefndri Fjölskylduhjálp og öðrum eru til skammar. Með því að auglýsa sig á þennan hátt er verið að reyna að gera allar aðrar tegundir hjálpar við bágstadda lítils virði og misheppnaðar. 

Þeir sem mest græða á þessu eru þeir sem selja mér og þér þær vörur sem þarna er verið að dreifa. Þó kamerumennirnir forðist að sýna framaní fólkið sem þarna er, fer það ekki framhjá neinum að það eru einkum vörurnar og samtökin sem verið er að auglýsa. Sjónvarpsmönnunum er vorkunn. Þeir sýna bara það sem þeir vita eða halda að áhorfendur vilji sjá og taka ekkert afstöðu með einum eða neinum í þessu efni.

Við gætum alveg verið án alls þessa. Hætt að minnast á það og látið eins og það sé ekki til. Þannig var það að mestu áður. Og þannig finnst mörgum að það eigi að vera. Það gæti hinsvegar orðið til þess að matargjafir sem samtökunum áskotnast minnkuðu verulega. Hver hefur áhuga á að gefa ef engin er auglýsingin? Bara þeir sem eru skikkaðir til þess.

Þannig er þeim sem raunverulega vilja hjálpa þeim sem verst eru settir komið í mikinn vanda. Ég hef aldrei gefið neitt og þarf ekkert að auglýsa svo ég get gagnrýnt þetta án þess að eiga mikið á hættu.

Páll Ásgeir Ásgeirssson er að draga svolítið í land varðandi endalok vinstristefnu sinnar. Hann tók samt þannig til orða að afsakanlegt er að álíta að  hann hafi verið að sýna öllu liðinu rauða spjaldið. Eina rökræna ástæðan sem ég sé fyrir þessum sinnaskiptum Páls Ásgeirs er að hann sjái eftir öllu saman.

Það var Icesave sem endanlega setti Pál Ásgeir útaf sporinu. Ég á svosem líka á hættu líka að lenda útaf sporinu. En ekkert endilega útaf Icesave. Er einn af þeim sem frá upphafi hef verið fylgjandi samningum um það mál. Þeir sem héldu því fram að betri samningum væri vel hægt að ná reyndust hafa rétt fyrir sér. Svo einfalt er það í mínum huga. Hvort þeir halda áfram að hafa rétt fyrir sér finnst mér mikið vafamál.

Mér finnst ekkert sjálfsagðara að samningamenn Breta og Hollendinga séu að reyna að svína á Íslendingum en að Íslendingar séu að reyna að sleppa betur frá þessu máli öllu en þeir eiga skilið. Í öllum samningaviðræðum reyna menn að komast eins langt og þeir geta. Eru íslensku samningamennirnir komnir á endastöð? Veit það ekki. Kannski.

Endur fyrir löngu las ég jafnan Spegilinn - samvizku þjóðarinnar. Þar var fastur þáttur sem hét „Rakarinn minn sagði...." Höfundur þess spjalls var sagður heita „Faraldur." Hann sagðist vera blaðamaður og vera sífellt á ferð og flugi. Hann var líkur mér að því leyti að hann óð jafnan úr einu í annað. Mun fyndnari samt. Kannski er það ekki síst hann sem ég er að reyna að stæla með bloggskrifum mínum núna.

Ég hef fengið að heyra það að orðalag mitt þykir svolítið forneskjulegt á köflum. Það læt ég mér gjörsamlega í léttu rúmi liggja. Jón Pálsson er svolítið fornlegur í orðavali stundum í Austantórum sínum. Mamma hans var t.d. hreint engin skerjála.

Hvers vegna í ósköpunum hef ég svona gaman af að blogga? Jú, þetta er mín aðferð við að hugsa upphátt. Að hugsa upphátt er að halda vitfirringu heimsins frá sér. Hún á ekki eins greiðan aðgang að sálarlífinu með því móti. Nú er ég orðinn alltof hátíðlegur svo það er best að hætta.

IMG 3793Gatnamót að morgni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæmi, líklega eru það áhrif frá einum ágætum kennara okkar sem við erum heldur fornlegir í máli - ég er skammaður fyrir þetta líka eins og þú.

Ellismellur 20.12.2010 kl. 09:13

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, það er vel líklegt. Samt þurfti ég að fletta upp í orðabók til að vita hvað skerjála þýðir og hvernig það er hugsað.

Sæmundur Bjarnason, 20.12.2010 kl. 11:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband