1233 - WikiLeaks, stjórnlagaþing o.fl.

Held ég hafi beinlínis látið þess getið í lok síðasta bloggs að nú myndi ég fjalla eitthvað um það sem nefnt er hér í fyrirsögninni.

Sögunni um WikiLeaks er alls ekki lokið. Beðið er eftir bankahneyksli og reynt að koma Assange til hjálpar. Stjórnvöld margra landa eru þó mjög hikandi við að taka af skarið. Vilja forðast að styggja Bandaríkjastjórn. Stórmannlegt er það ekki en skiljanlegt. Íslensk stjórnvöld gætu sem best tekið að sér að hýsa WikiLeaks-skjölin og lýst yfir stuðningi við aðgerðirnar, því ekki hefur sannast að stjórnendur WikiLeaks hafi gert neitt ólöglegt. Hérlend stjórnvöld liggja hundflöt fyrir Bandaríkjastjórn í sumum málum en hafa gengið þvert gegn vilja hennar í öðrum.

Jónas Kristjánsson hinn orðhvati fyrrum ritstjóri bauð sig fram til stjórnlagaþings. Satt að segja reiknaði ég með að hann væri með öruggustu mönnum inn á þingið. Svo fór þó ekki. Á bloggi sínu skrifar hann nú hverja greinina eftir aðra um hvernig taka skuli á málum á þinginu. Einnig skrifar hann um ýmislegt annað og satt að segja getur vel verið að meira gagn sé að honum við þau skrif en hefðu orðið á stjórnlagaþinginu.

Fylgdist dálítið með Alþingisumræðum í dag. Ríkisstjórnin missti fjárlagafrumvarpið næstum út úr höndum sér. Lilja Mósesdóttir, Atli Gíslason og Ásmundur Dalamaður studdu ekki frumvarpið og er ríkisstjórnin veikari á eftir.

Síðan var byrjað að ræða Icesave-málið. Mat mitt er að Bjarni Benediktsson og langflestir þingmenn sjálfstæðisflokksins muni á endanum greiða atkvæði með nýja samningnum og hann því verða samþykktur með verulegum meirihluta. Fari svo hef ég ekki trú á að ÓRG muni neita að skrifa undir lögin en hann muni e.t.v. gera það ef samningurinn verður naumlega samþykktur.

Hef verið að lesa undanfarið í Austantórum Jóns Pálssonar. Merkileg bók og eftirminnileg. Unga fólkið í dag gerir sér litla grein fyrir þeim erfiðleikum sem forfeður okkar þurftu oft á sig að leggja við það eitt að hafa í sig og á auk nauðsynlegra ferðalaga. Eftirminnilegustu frásagnirnar sem ég las í gærkvöldi eru annars vegar um ferjur og hins vegar um kindur. Hér með eru þeir varaðir við sem lítinn áhuga hafa á slíku.

Það var ekki fyrr en um 1890 sem fyrst kom brú á Ölfusá og nokkrum árum síðar á Þjórsá. Fyrir þann tíma voru lögferjur á helstu stórám og þessar tvær voru að sjálfsögðu þar á meðal. Jón Pálsson þekkir að sjálfsögðu best ferjurnar og ferjustaðina á Ölfusá sem voru við Óseyrarnes og Kotferju. Einnig var oft farið á milli hverfa sem kallað var eða milli Arnarbælis í Ölfusi og Kaldaðarness. Á vetrum var oft íshröngl í ánni og hún erfið yfirferðar. Mestu hættuna töldu ferjumennirnir sjálfir þó oftast vera ef margir biðu ferjunnar í einu því þá var bæði hætt við troðningi miklum og að ferjan yrði ofhlaðin. Væri ágjöf að ráði þyngdist farangur oft mjög og jókst þá ágjöfin að sjálfsögðu og gat ferjan sokkið. Slys voru samt fátíð en komu fyrir, einkum vegna ofhleðslu.

„Árið 1880 fluttist Árni sýslumaður Gíslason frá Kirkjubæjarklaustri á Síðu til Krísuvíkur. Lét hann þá um haustið reka flest sauðfé sitt samtals 1207 fjár, þangað. Var fjárrekstur þessi allur fluttur yfir Ölfusá á ferjustaðnum í Óseyrarnesi. Ferjutollurinn fyrir flutning þennan allan var talinn að hafa verið 7 kindur fullorðnar á ýmsum aldri og mismunandi að gæðum."

Þessi klausa er orðrétt úr Austantórum og því má bæta við að flutningur þessi var á engan hátt merkilegur þó féð væri margt. Flestallt féð fórst hinsvegar fljótlega og það var óvenjulegt. Bæði varð það dýrbít að bráð en einkum týndi það lífinu vegna stroks. Svo var heimþráin sterk í kindunum að þær hentu sér hiklaust til sunds í stórárnar og fórust hópum saman við að reyna að komast yfir þær. Um 60 kindur komust austur undir Eyjafjöll og voru handsamaðar þar. Einungis einn sauður og ein dilkær með lambi sínu komust alla leið í heimahagana við Kirkjubæjarklaustur.

IMG 3871Hús í Kópavogi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki hefur það verið árennilegt að vera sauðkind með heimþrá til forna. Þær hljóta að hylla brúardeild Vegagerðarinnar, ærnar. Sauðirnir ná lengst. Saga Jóns Pálssonar af sauðnum ratvissa sannar það. Og sauðasaga almennt.

K.S. 17.12.2010 kl. 01:05

2 identicon

Hvað varðar WikiLeaks, þá er það hafar heimskulega afráðið af Íslensku stjórninni (og þeirri Sænsku) að vera á móti.  Ég skal segja þér af hverju ...

* Engum líkar vel við smeðjur og sleikjur

* Frelsi og Lýðræði er bandaríkjamönnum mitt í hjarta

Það getur vel verið að uppi sé einn og einn stjórnarerindreki í Bandaríkjunum sem vilji hylma yfir einu og öðru, og banna uppljóstrun gagna eins og WikiLeaks.  Það er þó deginum sannarra að stór hluti þessara skjala komi frá Bandaríkjamönnum sjálfum, sem og öðrum þjóðum eins og Íslandi og Svíþjóð.  Af hverju þessum gögnum er lekið, er hægt að spá í, en eitt vitum við fyrir víst.  Að verði "lögvörn" í málinu fyrir dómstólum í Bandaríkjunum.  Þá mun WikiLeaks vinna það mál ... en með því að láta hunda eins og Ísland og Svíþjóð "halda" að þeir séu að gera "konunginum" í hag, þá sleppa menn frá slíku ...

Vandamálið er bara, að það er enginn Konungur í Bandaríkjunum ... og þar af leiðandi er slíkjur smeðjuháttur algjört skot í mirkri, og mun mest skaða Ísland og Svíþjóð, sjálfar.

Bjarne Örn Hansen 17.12.2010 kl. 07:12

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

þetta útskýrir orðið " sauðheimskur "

Óskar Þorkelsson, 17.12.2010 kl. 09:36

4 identicon

Það er enginn skömm af því að vera heimskur.

Það er skömm af því að vera gáfaður, en haga sér samt eins og hálfviti.

Bjarne Örn Hansen 17.12.2010 kl. 11:53

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þori varla að blanda mér í þessar umræður. Verð kannski álitinn sauðheimskur hálfviti.

Ætli þetta sé ekki mér að kenna. Veð úr einu í annað eins og fyrri daginn.

Stjórnvöld á Íslandi og ákæruvaldið í Svíþjóð eru kannski bara í vafa um hvað sé rétt að gera. Sjálfur held ég að mál sem snerta málfrelsi á Internetinu séu ekkert að hverfa og ekki sé hægt að þegja WikiLeaks í hel.

Stórfyrirtæki sem halda að þau séu að gera stjórnvöldum í USA einhvern greiða með því að valda WikiLeaks vandræðum ættu að íhuga sitt mál.

Sæmundur Bjarnason, 17.12.2010 kl. 12:59

6 Smámynd: Óskar Þorkelsson

upprunaleg merking orðsin heimskur er.. ekki vitlaus, heldur fáfróður um allt nema sitt nánasta umhverfi.. fer aldrei að heiman.. sauður  er sá sem er rekin í flokk... svo sauðheimskur passar fínt ;)

Óskar Þorkelsson, 17.12.2010 kl. 23:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband