1138 - Meistarar og lærisveinar

Pólitíkin er að gleypa hrunið. Eins og mig hefur alltaf grunað er Hrunið með stórum staf í þann veginn að verða bara deild í stjórnmálum dagsins á Íslandi. Verst af öllu er samt að stjórnmálin eru ekki að að breytast neitt eins og hægt var að binda vonir við í upphafi. Ef grein Andra Snæs í Fréttablaðinu er lesin sést að söngurinn er sá sami. Það verður haldið áfram að virkja í þágu atvinnutækifæra og byggja álver í þágu erlendrar fjárfestingar o.s.frv.

Stjórnmálamenn koma sér ekki saman um nokkurn skapaðan hlut og telja ætíð að flokkshagsmunir eigi að ganga fyrir þjóðarhag. Réttara sagt þá skilgreina þeir bara þjóðarhag eftir eigin þörfum. Svo eru fjölmiðlarnir alveg ábyrgðarlausir líka.

Gott dæmi um ábyrgðarleysi þeirra og illan hug er fár það sem skapaðist í heiminum vegna kóranbrennumálsins í USA. Einhverjum kalli datt í hug að minnast atburðanna sem urðu þegar Tvíburaturnarnir hrundu í New York árið 2001 með því að brenna nokkrar gamlar bækur. Fjölmiðlar komust að þessu og tókst að gera úr því alvarlegan atburð sem þjóðarleiðtogar heimsins áttu sumir hverjir í vandræðum með að taka afstöðu til.

Bloggáherslurnar eru að breytast hjá mér. Núorðið líður mér hálfilla ef ég hef ekki vikuskammt eða svo tilbúinn af myndum til að setja upp. Alveg kominn uppá það að birta eina mynd með hverju bloggi. Hef hvorki spurt kóng né prest að þessu svo þeir sem vilja mega endilega segja skoðun sína á því fyrirkomulagi í kommentum. Þau eru sjaldan of mörg.

Ég hef aldrei verið neinn sérstakur aðdáandi Þórbergs Þórðarsonar. Las þó í æsku mörg af hans þekktari verkum og hreifst af. Hef nú lokið lestri nýjustu bókar hans sem kölluð er „Meistarar og lærisveinar". Sú bók er nýkomin út og þó tilvist handritsins að henni hafi lengi verið flestum kunn er fengur að útgáfu hennar. Suma kafla þessarar bókar hef ég líklega lesið áður og fyrir stuttu las ég einnig bók Halldórs Guðmundssonar um æfi þeirra félaganna Þórbergs og Gunnars Gunnarssonar.

Einnig las ég á sínum tíma viðtalsbók Matthíasar við Þórberg sem nefnd var „Í kompaníi við allífið" og var auk þess um tíma fyrir 1970 verslunarstjóri í Silla & Valdabúð þeirri við Hringbraut sem var í sömu blokk og íbúð þeirra Þórbergs og Margrétar konu hans. Sá þau hjónin oft og kannaðist við þau. Ræddi samt aldrei við meistarann um andleg málefni.

Orðsins maður var Þórbergur á allan hátt. Stílisti svo af bar. Jafnvel sjálfhverfasta rugl og draumórar verða læsilegir hjá honum. Slíkur er galdur hans. Guðspekiþruglið í honum var kannski ekki alvitlaust. Trúgirni hans var samt til trafala þar. Það var varla hægt að taka skýjaglóp af hans tagi alvarlega. Þó rataðist honum furðuoft satt á munn.

Skáldsögur eru uppspuni og að engu hafandi. Raunverulegir atburðir eru margfalt merkilegri. Máli skiptir samt að klæða þá í viðeigandi búning. Ekkert er svo ótrúlegt að ekki taki því að rannsaka það.

Samkvæmt kenningum meistara Þórbergs og Krishnamurtis er það nú-ið sem öllu máli skiptir. Fortíðin og framtíðin rugla mann bara. Lífið sjálft er aðaltakmarkið og menn endurfæðast í sífellu og fara batnandi. Baráttan í heiminum stendur á milli hins góða sosíalisma og illa kapítalisma. Hvort óhjákvæmileg bylting verður blóðug eða kemur innan frá jafnt til kommúnista sem kapítalista er aðalmálið.

IMG 0967Reiðhjólafans í Nauthólsvík.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Íslendingar hafa alltaf verið veikir fyrir furðufuglum, því furðulegri því betra. Þórbergur er gott dæmi um það :)  Sama hvað menn segja þá ber Halldór Laxness af í rithöfundaflóru landsins

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 13.9.2010 kl. 05:47

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Spekin um nú-ið er gömul og var ekki fundin upp af Krishnamurti og hvað þá Þórbergi.  Það er svo ekki hægt a afgreiða Þórberg sem rithöfund bara sem furðufugl. Það er óbókmenntalegt mat. Þórbergur var og er mikils metinn af því hann var mikill listamður, góður rithöfundur.

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.9.2010 kl. 11:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband