1080 - Að heltast úr lestinni

Það er erfitt að vera stuttorður og gagnorður. Stundum tekst það og stundum ekki. Oft verður malandinn svo mikill að maður missir athygli lesandans og það er það versta sem fyrir einn skrifara getur komið.

Margir lesanda minna muna eflaust eftir Steina Briem. Hann vandi komur sínar mjög á mitt blogg og mér þótti fremd að því. Svo fældi Gísli þýðandi hann í burtu með því að hallmæla skáldskap hans. Ég var að vona að hann kæmi aftur og færi að athugasemdast hérna en það er líklega borin von.

Steini Briem heitir Oliver Twist núna og fer sem logi yfir akur í Facebook-heimum. Það finnst mér að minnsta kosti. Eflaust er samt hægt að loka fyrir tilkynningar hans og líklega hafa sumir gert það. Hann les blöðin vel (aðallega Moggann þó) og virðist yfirleitt líka það sem hann les. 3903 vini á hann á fésbókinni svo ekki er hann á flæðiskeri staddur hvað það snertir.

Margir eru hissa á því að meinleysisgrey eins og ég skuli vera að Moggabloggast þetta daginn út og daginn inn eins og mér sé borgað fyrir það. Því er til að svara að ég er svo íhaldssamur að ég kann ágætlega við mig hérna á Moggablogginu þó því sé greinilega að fara aftur. Mér finnst ekki að mér sé að fara neitt aftur.

Á blogginu „Gruflað og pælt" sem ég held að Kristinn Theódórsson skrifi er máltæki eitt notað á þennan veg: „Þar kom annað hljóð í skrokkinn." Kannski er þetta bara prentvilla en þetta er einmitt gott dæmi um hvernig stundum er farið með málshætti sem skiljast ekki almennilega.

Þarna á að sjálfsögðu að nota orðið strokk og vísar það til þess að þegar fullstrokkað er breytist hljóðið í strokknum.

Annað dæmi um samskonar vanþekkingu er máltækið: „Að heltast úr lestinni." Þar er átt við heybandslest þar sem einn hesturinn verður haltur og getur ekki lengur fylgt hinum. Oft er sagt: „Að hellast úr lestinni."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svo sjá menn líka sæng sína "útbreidda" í dag í staðinn fyrir "uppreidda" eins og þeir gerðu áður.

Grefill 15.7.2010 kl. 03:57

2 identicon

... og margir tala um "dropann sem fyllir mælinn" og eru þar að blanda saman tveimur máltækjum.

Grefill 15.7.2010 kl. 03:58

3 identicon

"Svo fældi Gísli þýðandi hann í burtu með því að hallmæla skáldskap hans. "

Flestir bloggarar þola enga gagnrýni og eru ofurviðkvæmir. Þess vegna sleppi ég öllum líkingum um gildi Steina Briem fyrir athugasemdakerfi.

Gísli Ásgeirsson 15.7.2010 kl. 09:22

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég tók nú bara svona til orða, Gísli. Í orðum þínum liggur að ég sé ofurviðkvæmur. Þú ert það þá líka.

Sæmundur Bjarnason, 15.7.2010 kl. 09:52

5 identicon

Flestir. Ekki allir. Varist oftúlkun, segir gamalt máltæki.

Gísli Ásgeirsson 15.7.2010 kl. 10:37

6 identicon

Mér fannst á sínum tíma það frekar vera "sníkjubloggsstimpillinn" sem drap stemninguna en það sem Gísli sagði.

Grefill 15.7.2010 kl. 10:40

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Kann að vera, Grefill. En gættu þín ég gæti farið að ásaka þig um að sníkjubloggast.

Sæmundur Bjarnason, 15.7.2010 kl. 11:08

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þessi málfarspistill þinn kemur nú yfir mig eins og þjófur á heiðskírri nóttu!

Sigurður Þór Guðjónsson, 15.7.2010 kl. 13:11

9 identicon

Mig minnir að "sníkjubloggarar" séu þeir sem halda ekki út i eigin bloggi, heldur eru bara sýnilegir á bloggsíðum annarra. Var það ekki skilgreiningin?

Grefill 15.7.2010 kl. 14:38

10 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Nú er ég víst orðinn sníkjubloggari því ég nenni ekki að halda úti bloggsíðu en geri einstaka athugasemdir hjá öðrum.

Sigurður Þór Guðjónsson, 16.7.2010 kl. 00:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband