1041 - Úr útiverunni

bok2Þessi bók kom út árið 2006 hjá bókaútgáfunni Hólum. Já, þetta er einskonar auglýsing á henni og ekki síður á Borgarbókasafni Reykjavíkur sem vinsamlega lánaði mér þessa bók.

Hún er athyglisverð í meira lagi og fjallar um mál sem ég hef (eða hafði) sérstakan áhuga á. Ég er búinn að lesa hana spjaldanna á milli og áhugi minn á göngu- og fjallaferðum hefur vaknað að nýju. Reyndar er ég alls ekki sú fjallageit lengur sem ég einu sinni var. Nú orðið hentar mér betur að ferðast á jafnsléttu. Brekkur eru mun erfiðari og svo hefur lofthræðslan farið vaxandi.

Það eru margar bækur til af þessu tagi en hér er fjallað vítt og breitt um fjallasýki og skylda sjúkdóma. Höfundur segir af skiljanlegum ástæðum mest frá sjálfum sér og gerir það vel. Hann er fyndinn og skemmtilegur og laus við svo til allan hátíðleika. Allmargar teiknaðar myndir eru í bókinni og hefur Ragnar Kjartansson gert þær. Einnig eru allmargar vísur þar sem flestar eru eftir Davíð Hjálmar Haraldsson. Til dæmis þessi:

Í uppsveitum Önundarfjarðar
ég æfingar stundaði harðar.
Þar var svo bratt
að þegar ég datt
þá var rúm tomma til jarðar.

Það getur vel verið að ég stæli þessa bók eitthvað í bloggskrifum mínum á næstunni. Þá mundi ég skrifa um Hengilsvæðið og nágrenni Hveragerðis en ekki Tröllaskagann eins og Bjarni Guðleifsson. Þegar ég var unglingur fórum við skátarnir víða um Hengilsvæðið, Hellisheiðina, Reykjafjall og allt til Ingólfsfjalls.Um þetta svæði má margt segja og eflaust er það mörgum kunnugt nú orðið. Svo var samt ekki í mínu ungdæmi.

Bjarni Guðleifsson segist sjálfur vera með fjallasýki og segir að Steindór Steindórsson frá Hlöðum hafi sagst vera með öræfasýki. Þegar ég skoðaði eitt sinn hið magnaða Íslandslíkan sem geymt er í kjallara ráðhússins í Reykjavík kom mér á óvart hve Ísland er eiginlega lítið fjöllótt. Jú, á ýmsum svæðum eru brött og mikilfengleg fjöll en miðhálendið er mestallt ein eyðimörk að sjá. Þangað hef ég aldrei komið en næst því með að ganga frá Hvítárvöllum til Hveravalla sem í þann tíð var mikil tískuleið.

Margar ferðir fór ég á þeim tíma og hef líklega klifið flest þau fjöll sem sjáanleg eru frá Reykjavík og nokkrum sinnum farið gangandi milli Hveragerðis og Reykjavíkur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband