2361 - Rafritið

Nú er ég nýkominn úr gönguferðinni minni og þó rokið hafi verið talsvert var úrkoman sem betur fer lítil. Viðmiðunin uppá 400 m per hverjar 5 mínútur náðist en ekkert fram yfir það. Hugga mig við að aðstæður hafi ekki verið sérlega góðar.

Virðist vera farinn að blogga oftar nú en áður enda er ekki erfitt að gera það. Eitt blogg á dag er samt fullmikið. Á sunnudaginn fór ég með Áslaugu í bæinn til að heimsækja Benna og fara á sýninguna í Gerðubergi. Það var sýningarstjórinn mættur (fullseint að vísu) og talaði við fólk um myndirnar. Í gær var svo leiðindaveður ef ég man rétt. Tókst þó að fara í mína gönguferð áður en byrjaði að rigna fyrir alvöru.

Nú er Helgi Hrafn orðinn kafteinn hjá Pírötum og Birgitta formaður litla þingflokksins. Skiptingin þar var mun hávaðaminni en hjá Bjartri (eða vonlausri) Framtíð hvernig sem á því stendur. Í dag er víst von á fjárlagafrumvarpi og við því er að búast að Alþingismenn fari að reyna að vekja á sér athygli. Ég er samt enganveginn farinn að þekkja þá alla enda láta þeir ákaflega mismikið á sér bera.

Ein fyrirsögn í Fréttablaðinu vakti sérstaka athygli mín áðan. Hún er svona: Alma vinnur með Scott Storch. Nöfnin segja mér afskaplega lítið. Kannast við hvorugt. Hefði ekki verið hægt að hafa fyrirsögnina öðruvísi eða er ég bara orðinn svona gamall? Eru þetta virkilega nöfn sem allir eiga að þekkja?

Nú er ég búinn að skrifa langt mál um lítið efni og ætla að hvíla mig svolítið.

Á sínum tíma gaf ég út „Rafritið“. Þar er margt mjög merkilegt að finna. A.m.k. finnst mér það. Öðrum kannski ekki, en við því er ekkert að gera. Hér er sýnishorn af því sem þar er að finna:

Prentvilla?. Útilokað. Módemið mitt er með leiðréttingarútbúnaði.

Námskeið um tímaferðalög var haldið fyrir hálfum mánuði.

Munnlegur samningur er ekki virði pappírsins sem hann er skrifaður á.

Kemur stálull af stálkindum?

OS/2 = 0

Ég er ekkert búinn að tapa vitinu, það er backup hérna einhvers staðar.

Ef ég bjarga hvölunum, hvar á ég þá að láta þá?

Aldrei tilkynnir DOS "EXCELLENT command or file name".

Ef verkið heppnast ekki í fyrstu tilraun skaltu eyða öllum ummerkjum um að þú hafir reynt.

Farðu að mínum ráðum, ég þarf ekki á þeim að halda.

Hreint skrifborð er merki um troðfullar skrifborðsskúffur.

File not found. Ég sæki bara eitthvað sem *mér* finnst áhugavert.

Dauðir eru 30 sinnum fleiri en lifendur.

Sá sem brosir í erfiðleikum hefur fundið einhvern til að kenna um.

Hvert erum við að fara? Og af hverju erum við í þessari körfu?

ASCII a stupid question, get a stupid ANSI.

Drop your carrier ... we have you surrounded.

A feature is a bug with seniority!

Ef ekki væri til C værum við enn að nota BASI, PASAL og OBOL!

Og hér er linkurinn: http://snerpa.is/net/rafrit/raf.htm

Nú er ég hættur.

WP 20150803 10 13 04 ProLangisandur


2360 - Windows 10

Nú er ég að byrja að læra á nýja stýrikerfið og gengur það bærilega. Um margar leiðir að sama markinu er venjulega að ræða. Þannig er það bara með tölvur. Hver og einn finnur hlutina með sinni aðferð. Auðvitað eru þær (leiðirnar) ekki allar jafn skynsamlegar, en við því er ekkert að gera. Þær leiðir sem maður finnur sjálfur á maður auðveldast með að muna.

Mér finnst flóttamannavandamálið „svonefnda“ vera að komast á nýtt stig. Gott ef ekki er um talsverða vinstri sveiflu að ræða – svona pólitískt séð – auðvitað verður að líta á þessi ósköp með pólitískum gleraugum. Með því að tala svona má sega að gripið sé til úrelts kaldastríðs orðalags. Breytingin á hugsunarhætti fólks er þó næstum áþreifanleg. Útlendingahatarar hafa hægt um sig þessa dagana. Þó eru þeir ótrúlega margir. Vantar bara flokk eða eitthvað eða einhvern til að fylkja sér um. Annars virðist flóttamannavandamálið verða stærra og stærra með hverjum deginum. Veit ekki hvar þetta endar. Auk kynþáttahyggjunnar blandast trúmál inn í þetta allt saman og vissulega er hægt að halda ýmsu misgáfulegu fram í þeirra nafni.

Eitt er það sem sjaldan er minnst á í sambandi við flóttamennina. Það eru börnin. Innan fárra ára vaxa þau úr grasi og verða verðmætt vinnuafl. Mér segir svo hugur um að öll lönd Evrópu og ekki síður litla Ísland en önnur þurfi sárlega á því að halda von bráðar. Þessvegna er það sennilega hreinn gróði fyrir lönd Evrópu að taka við sem flestum flóttamönnum.

Ég er að hugsa um að fara að blogga oftar. Þessi tölva er alveg fyrirtak og stýrikerfið líka. Það liggur við að hún lesi hugsanir manns. Þegar maður er einu sinni búinn að finna eitthvað er enginn vandi að gera það aftur. Þó er ég ekki ennþá búinn að finna út hvernig búkkmörkin starfa á þessari tölvu. Yfirleitt hefur það verið mitt helsta vandamál ef ég hef skipt um tölvu eða stýrikerfi að finna út úr búkkmörkunum.

Veran hér á Akranesi leggst bara nokkuð vel í mig. Hér er allt til alls og ég verð að segja að bílafjöldinn á götunum í Reykjavíkinni er fullmikill. Hér er allt eitthvað svo rólegt og æsingurinn í fólkinu sem í bílunum er greinilega ekki nærri eins mikill. Þar að auki höfðum við svosem ekkert við það að gera að vera sæmilega nálægt miðbænum og úr því að við gátum selt eldgamla hæð í húsi á ágætu verði og keypt stærri og alveg nýlega blokkaríbúð á Akranesi fyrir álíka verð var sjálfsagt að grípa gæsina.

Nú segir wordið mér að blaðsíðan sé að verða búin, svo sennilega er best að hætta.

WP 20150803 09 50 29 ProKrotað á gangstétt.


Bloggfærslur 8. september 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband