2400 - Ein röng ákvörðum og kannski tvær

Fésbókin er fágæti. Þar er það stundað að halda minningum að fólki. Þar las ég t.d. eftirfarandi frásögn sem ég sett á bloggið mitt sennilega í fyrra. (blogg nr. 2266) Þar er sagt í stuttu máli frá einhverjum dramatískasta atburði sem ég hef lifað. Held að það sé bara við hæfi að rifja hann upp. Mér dettur a.m.k. ekkert skárra í hug.

Þegar þetta var gegndi ég starfi útbússtjóra að Vegamótum á Snæfellsnesi og bíllinn minn var gamall Moskovits. Skelflutningar miklir voru stundaðir á þessum tíma frá Stykkishólmi til Borgarness. Bílstjórinn á skelflutningabílnum sem ég var rétt lentur framan á var kallaður Kiddi. (Veit engin deili á honum önnur, en rauðhærður minnir mig hann væri).

Við höfðum af einhverjum ástæðum skroppið til Stykkishólms og vorum á heimleið. Um mjóan malarveg var að sjálfsögðu að fara. Þegar nálgaðist Kerlingarskarðið var vegurinn hæðóttur mjög. Ég sá að skelflutningabíll var á leiðinni á móti okkur en gleymdi því samstundis aftur, því við hjónin vorum niðursokkin í að ræða eitthvert málefni sem ég man ekki lengur hvert var.

Því miður var ferðin á bílnum alltof mikil miðað við aðstæður (um eða yfir 80 km á klst.) og þegar ég kom á eina hæðarbrúnina var skelflutningabíllinn á miðjum veginum rétt fyrir framan mig. Ég reyndi að bremsa en það var þýðingarlaust með öllu, bíllinn bara rann til. Framhluti flutningabílsins nálgaðist óðfluga og í einhverju skelfingaræði beygði ég snögglega til hægri útaf veginum, og tókst á einhvern hátt að hanga á vegarbrúninni á hjólunum vinstra megin og meira að segja að koma bílnum, í heilu lagi, aftur uppá veginn aftan við flutningabílinn.

Eftir að ég hafði á undraverðan hátt sloppið við að lenda á miklum hraða í stórgrýtisurð var mér skapi næst að halda bara áfram eins og ekkert hefði í skorist. Varð þá litið í baksýnisspegilinn og sá að flutningabíllinn var nánast þversum á veginum og afturhluti pallsins skagaði langt útfyrir veginn sömu megin og ég hafði farið. Kiddi var á leiðinni útúr bílnum og sagðist hafa verið viss um að hafa sett afturenda flutningabílsins í bílinn minn þegar hann snöggbeygði til hægri í tilraun til að forðast árekstur. Meira er ekki um þetta að segja. Við vorum fjögur í Moskovitsinum (Hafdís var ekki fædd) og hefðum örugglega stórslasast eða dáið öll ef við hefðum lent á flutningabílnum. Þarna var ákvörðun tekin á sekúndubroti og reyndist rétt, þó hún hefði litið illa út.

Það er bara heilbrigt að álíta sjálfan sig mestan og bestan. Aðrir þurfa ekkert endilega að vita af því. Ef maður hefur ekki álit á sér sjálfur er engin von til þess að aðrir hafi það. Mér þykir gaman að tala í spakmælum. Auðvitað hafa margir aðrir notað þau á undan mér, en það er samt ágætt að ímynda sér að maður hafi orðið fyrstur til. Frásagnir eru allt annað en hugleiðingar. Í frásögnum þarf einkum að hafa í huga að vera stuttorður og gagnorður. Annars endist enginn til að lesa frásögnina. Uppdiktuð frásögn í bland við gáfulegar hugleiðingar er oft kölluð skáldskapur. Oftast er hún óttalega lítils virði og þjónar einkum höfundinum og kannski höfundarverkinu. En frásögnin hér á undan er sönn í mínum huga, þó upplifun annarra kunni að vera eitthvað frábrugðin.

WP 20141103 10 45 24 ProEinhver mynd.

 


Bloggfærslur 28. desember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband