1063 - Að loknum landsfundi

Pólitísk umræða á Íslandi er alltof illskeytt. Skil ekki hvernig fólk hefur geð í sér til að bera á borð allan þann óhroða sem það lætur útúr sér í umræðu sem kölluð er pólitísk. Bloggarar eru margir ofurseldir þessu og greinilega nýtur umræða þessi einhverra vinsælda.

Tvær samþykktir nýliðins landsfundar Sjálfstæðismanna vekja eftirtekt. Önnur fjallar um spillingu og er almennt orðuð þannig að auðvelt verður að fara í kringum hana. Framsögumaðurinn nefndi þó tvö nöfn í ræðu sinni og erfitt er að sjá hvernig þeim Guðlaugi Þór Þórðarsyni og Gísla Marteini Baldurssyni verður vært í flokknum að loknu þessu landsþingi.

Hin fjallar um ESB og er um það að Sjálfstæðisflokknum beri að stuðla að því að umsóknin um aðild þar verði dregin til baka. ESB-sinnar í flokknum eru mjög ósáttir við þessa tillögu og telja hana óþarfa. Kannski þjappar hún sjálfstæðismönnum saman en óneitanlega er tekin talsverð áhætta varðandi mögulegan klofning.

Klofningstal sjálfstæðismanna hefur aukist undanfarið. Bendi bara á blogg Guðbjörns Guðbjörnssonar á eyjunnni.is og Friðriks Hansen Guðmundssonar hér á Moggablogginu. Samstarf Sjálfstæðisflokksins við aðra flokka gæti versnað verulega í kjölfar landsfundarsamþykktarinnar.

Auðvitað neitar Bjarni Benediksson því harðlega að klofningur sé í flokknum. Man vel eftir Geir Hallgrímssyni rauðnefjuðum og ræfilslegum harðneita öllum klofningi þó Gunnar Thoroddsen væri búinn að mynda ríkisstjórn með öðrum.

Í Vinstri græna flokknum er andstaðan við ESB-umsóknina vaxandi og einnig við ýmis önnur mál sem ríkisstjórnin ber fyrir brjósti. Vel getur verið að óánægjuöflin þar nái að lokum meirihluta. Sú staða yrði núverandi forystu flokksins hættuleg en andúðin á stjórnarandstöðunni er sterkari en svo að líklegt sé að flokkurinn sé á leið úr ríkisstjórninni.

Viðbrögðin við dómi hæstaréttar um gengistryggð lán valda nokkurri furðu. Það sem ráðherrar ríkisstjórnarinar segja og gera er þó ekkert einkennilegt. Þar vilja menn umfram allt fresta málum endalaust og sjá til hvort Eyjólfur fari ekki að hressast. Lánastofnanir reyna líka að verja sig og sína peninga eftir mætti. Þeir sem telja sig hafa orðið fyrir barðinu á lánastofnunum virðast hinsvegar ekki ætla að skipuleggja sig á neinn hátt og sækja það sem ekki er annað að sjá en þeir eigi með réttu.

Og nokkrar myndir:

IMG 2167Sóleyjar í túni.

IMG 2170Þetta er erfið þjónusta.

IMG 2176Í Fossvoginum.

IMG 2185Sjöunda innsiglið.

IMG 2200Innrásin mikla.

IMG 2221Steinn frá Mars?


Bloggfærslur 28. júní 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband