1061 - Lára Hanna

Í góða veðrinu í dag fórum við Áslaug lengst útá Seltjarnarnes og tókum þar meðal annars nokkrar ljósmyndir. Stóra Láru-Hönnu málið fór því alveg framhjá okkur. Lesum samt blogg vel og vandlega flesta daga. Mér eru mál Láru Hönnu skyld því hún var vinnufélagi minn í eina tíð. 

Efast ekki um að hún skrifar sín blogg án þess að aðrir hafi þar hönd í bagga. Síst af öllu held ég að ESB hafi keypt hana. Hún hefur samt gert sig seka um ótrúlegan barnaskap með því að vera ekki á undan AMX að skýra frá Brusselferð sinni. Og ekki orð um það meir.

Las um daginn bók sem heitir „Orð og tunga 12". Hef ekki hugmynd um af hverju 12 eru í nafninu. Dettur helst í hug að þetta sé einskonar tímarit og hér sé um það tólfta í röðinni að ræða. Hvað um það, í þessu riti sem gefið er út á yfirstandandi ári af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er margt fróðlegt og athyglisvert. Flestar greinarnar í riti þessu fjalla um örnefni og nafngiftir allskonar.

Merkileg er til dæmis grein eftir Hallgrím J. Ámundason sem höfundur nefnir „Óformleg örnefni í Reykjavík.". Þar er meðal annars rætt um nöfn eins og Hallærisplanið, Markúsartorg, Klambratún, Fjalaköttinn og margt fleira. Næpuna, Múrinn, Pontukot, Heilagsandastræti og Kjaftaklöpp einnig svo eitthvað sé nefnt.

Grein þessi fjallar einkum um Reykjavík eins og nafnið bendir til. Vert væri þó að taka þetta efni til athugunar víðar um land. Oft komast slík nöfn aldrei á prent og glatast með öllu. Sjálfur gæti ég eflaust nefnt einhver svona nöfn eða viðurnefni sem tíðkuðust áður fyrr í Hveragerði. Fyrir seinni tíma fólk er ekki ónýtt að hafa um þetta upplýsingar.


Bloggfærslur 26. júní 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband