1061 - Lára Hanna

Í góða veðrinu í dag fórum við Áslaug lengst útá Seltjarnarnes og tókum þar meðal annars nokkrar ljósmyndir. Stóra Láru-Hönnu málið fór því alveg framhjá okkur. Lesum samt blogg vel og vandlega flesta daga. Mér eru mál Láru Hönnu skyld því hún var vinnufélagi minn í eina tíð. 

Efast ekki um að hún skrifar sín blogg án þess að aðrir hafi þar hönd í bagga. Síst af öllu held ég að ESB hafi keypt hana. Hún hefur samt gert sig seka um ótrúlegan barnaskap með því að vera ekki á undan AMX að skýra frá Brusselferð sinni. Og ekki orð um það meir.

Las um daginn bók sem heitir „Orð og tunga 12". Hef ekki hugmynd um af hverju 12 eru í nafninu. Dettur helst í hug að þetta sé einskonar tímarit og hér sé um það tólfta í röðinni að ræða. Hvað um það, í þessu riti sem gefið er út á yfirstandandi ári af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er margt fróðlegt og athyglisvert. Flestar greinarnar í riti þessu fjalla um örnefni og nafngiftir allskonar.

Merkileg er til dæmis grein eftir Hallgrím J. Ámundason sem höfundur nefnir „Óformleg örnefni í Reykjavík.". Þar er meðal annars rætt um nöfn eins og Hallærisplanið, Markúsartorg, Klambratún, Fjalaköttinn og margt fleira. Næpuna, Múrinn, Pontukot, Heilagsandastræti og Kjaftaklöpp einnig svo eitthvað sé nefnt.

Grein þessi fjallar einkum um Reykjavík eins og nafnið bendir til. Vert væri þó að taka þetta efni til athugunar víðar um land. Oft komast slík nöfn aldrei á prent og glatast með öllu. Sjálfur gæti ég eflaust nefnt einhver svona nöfn eða viðurnefni sem tíðkuðust áður fyrr í Hveragerði. Fyrir seinni tíma fólk er ekki ónýtt að hafa um þetta upplýsingar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi ferð finnst mér ekkert grunsamleg. Blaðamennirnir heimsækja stofnanir ESB og það eru engar hömlur á því að þeir spyrji þeirra spurninga sem þeir vilja. Það eru góðar líkur á því að þeir komi fróðari heim aftur og eigi meiri möguleika á því að fjalla af þekkingu um kosti og galla aðildar að ESB.

Er þetta ekki bara gott mál?

Bestu kveðjur,

Jóhannes

Jóhannes Þorsteinsson 26.6.2010 kl. 09:46

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jóhannes, ég er ekkert að tala um það. Ég er bara að tala um að Lára Hanna hefði átt að vera á undan AMX að skýra frá þessu. Hún er opinber persóna. Hvenær verður fólk opinberar persónur? Það er spurningin.

Sæmundur Bjarnason, 26.6.2010 kl. 09:56

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ég er sammála þér Sæmundur, það var viss dómgreindarbrestur að minnast ekki á þessa boðsferð. Ferðin var farin í lok mai og ekkert minnst á hana í 3 vikur!! Hvort Lára Hanna er minna trúverðug fyrir vikið skal ég ekki segja. En með því að þyggja þessa ferð þá dæmdi hún sjálfa sig úr leik í umræðunni um ESB

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 26.6.2010 kl. 12:24

4 identicon

Eins og mörgum
er kunnugt
vissu menn allt
fyrir hundrað árum.

Nú vitum vér fleira
en fátt.

Og einnig færra
en fátt.
Stefán Hörður Grímsson

Ólafur Sveinsson 26.6.2010 kl. 16:17

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Mér finnst Lára Hanna ekki verða neitt ótrúverðugri útaf þessu en hún verður það kannski í einhverra augum. Þessvegna hefði hún átt að gæta að því að segja frá þessu á sínu bloggi.

Sæmundur Bjarnason, 26.6.2010 kl. 22:10

6 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég er ekki opinber persóna, Sæmi - hef aldrei verið og mun vonandi aldrei verða.

Barnaskapurinn eins og þú kallar það felst kannski helst í að vera alls ekki tilbúin til að skrifa eitt eða neitt um ESB af því mér finnst ég ekki vita nóg ennþá. Ferðin var ekkert leyndarmál og hún hefði að sjálfsögðu verið nefnd þegar og ef skrif um ESB hefðu hafist á síðunni minni. Ég hef engu lofað í þeim efnum og skrifa kannski aldrei um það mál. Ég hef ekkert að fela og skrifa oft ekki um atburði eða málefni fyrr en löngu eftir að þeir eiga sér stað. Hef einfaldlega ekki við og finnst ég ekki enn vita nóg til þess einu sinni að byrja að skrifa um ESB.

Barnaskapurinn felst ef til vill líka í því, að vera óviðbúin öllum soranum sem reynt er að moka yfir mig á bloggum, þar á meðal mínu eigin, og netmiðlinum amx - af þeim sem hafa þegar tekið öfgafulla afstöðu gegn inngöngu í ESB og nota öll brögð í bókinni til að niðurlægja og gera lítið úr þeim sem ekki hafa tekið nákvæmlega sömu afstöðu og þeir. Sjáðu bara þessa ómálefnalegu og sóðalegu umræðu hér: http://jonvalurjensson.blog.is/blog/jonvalurjensson/entry/1071212/ og Jón Valur hótar miskunnarleysi. Þarna er sannleikurinn einskis metinn, snúið út úr, hártogað og skáldað með frjálsri aðferð til að sverta mannorð fólks.

Þetta fólk skilur ekki þá afstöðu að vilja ekki segja já eða nei fyrr en samningur liggur fyrir og vitrænar umræður hafa farið fram. Þó er talsverður fjöldi fólks á þeirri skoðun.

Þessu bjóst ég ekki við. Það var barnaskapur.

Lára Hanna Einarsdóttir, 26.6.2010 kl. 22:30

7 identicon

Ég hef enn traust á trúverðuleika hennar en hún skaut samt fram hjá í
http://blog.eyjan.is/larahanna/2010/06/26/er-%C3%BEetta-spurning-um-mannrettindi/

Ólafur Sveinsson 26.6.2010 kl. 22:33

8 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þakka þér fyrir traustið, Ólafur - en viltu segja okkur hvernig ég skaut fram hjá?

Lára Hanna Einarsdóttir, 26.6.2010 kl. 22:36

9 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Lára Hanna, þegar ég las fyrst um þessa boðsferð blaðamanna á AMX, þá varð ég fyrir miklum vonbreigðum. Þrátt fyrir alla umræðuna í vetur, um styrki og mútur til handa stjórnmálamönnum og blaðamönnum þá hafið þið ekkert lært! Það vantaði bara að ykkur hefði verið flogið til Brussel í þotunni hans Björgólfs..  Ef að þú skilur þetta ekki þá skaltu heldur ekki gagnrýna aðra styrkþega sem nota bene töldu sig ekki hafa gert neitt rangt. Nægir að nefna Guðlaug Þór og Steinunni Valdísi.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 27.6.2010 kl. 00:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband