733 - Besti bloggarinn

Mér finnst ég í alvöru vera einn af bestu bloggurum landsins. Verst að öðrum skuli ekki finnast það líka. Blogg-greinar mínar eru alltaf mátulega langar. Ég fréttablogga aldrei. Minnist alltaf á hæfilega mörg atriði í mínum bloggum og tengi atriðin vel saman. Blogga daglega. Aldrei samt oft á dag. Númera bloggin mín.

Vanda skrifin alveg helling. Er nánast laus við prentvillur og málvillur. Segi bara það sem ég get staðið við. Er á móti Icesave. Hvað viljið þið eiginlega hafa það betra? Meira að segja Mogginn sjálfur er búinn að uppgötva hvílíkur snillingur ég er. Ég hef nú reyndar skrifað betri frásagnir en músasöguna.

Prýðilegur íslenskumaður og tek mig öðru hvoru til og gagnrýni málfar annarra. Ekki mitt eigið. Aðrir verða að sjá um það. Svo er ég líka fyndinn stundum. Svei mér þá.

Er fjölhæfur með afbrigðum. Skákmaður góður. Vísnasmiður. Fjallgöngumaður. Útivistarséní. Og svo framvegis.

Það er enginn leikur að blogga á hverjum degi. Og það án þess að segja nokkuð merkilegt. Upplifi yfirleitt fátt í mínu daglega lífi. Menn treysta sér ekki einu sinni til að gagnrýna mig í kommentum. Sem sýnir bara hve snjall ég er.

Og myndirnar mínar. Ekki eru þær lakari. Hreinasta list. Passa mig á að fækka pixlunum nógu mikið til að ekki taki því að stela þeim. Kroppa þær svolítið og átokorrekta stundum en ekkert annað. Stórfínar myndir.

Meira að segja naflaskoðunarstíl eins og þennan gæti ég tileinkað mér.

Eiður Guðnason fékk það óþvegið þegar hann ruglaði saman Einari Má og Einari Kárasyni. Aldrei hefði það hent mig. Ég þekki þá í sundur. Átti samt í æsku í vandræðum með að átta mig á muninum á „innfæddur" og „einfættur".

Dagný sú sem Guðni Ágústsson kallaði eitt sinn „framsóknargimbur" talaði um að vera í rétta liðinu (útrásarliðinu). Nú eru menn líklega ýmist í Icesave-liðinu eða hinu. Annars á ég erfitt með að skilja hugsunarhátt framsóknarmanna eftir að þeir endurfæddust og kusu Sigmund Davíð yfir sig.

Eitt sinn kom ég á hestamannamót á Hvítárbökkum skammt frá Ferjukoti. Þegar ég kom þangað voru allir að pissa útum allt. Eftir stellingunum að dæma voru það aðallega kallar. Man ekki eftir svona miklu pisseríi frá öðrum hestamannamótum.

Ingólf á Flesjustöðum hitti ég þarna. Hann var með tvo til reiðar og vildi endilega að ég riði öðrum klárnum. Ég hafði nú ekki oft komið á bak og var svolítið óklár á stýrigræjunum. Ingólfur taldi þetta lítið mál og sýndi mér hvernig stýra ætti tryllitækinu. Svo riðum við góða stund fram og aftur um mótssvæðið. Ingólfur var svolítið í glasi og þurfti nauðsynlega að versla í sjoppu sem þarna var. Til þess fór hann af baki en ég var kyrr á mínum reiðskjóta því ég var ekki viss um að ég kæmist á bak aftur ef ég hætti mér niður.

Þegar Ingólfur var búinn að versla kom hann til baka og ætlaði á bak hesti sínum í einu stökki án þess að styðja sig við neitt. Hestinum brá við öskrið, sem hann rak upp um leið og hann stökk, og flutti sig svolítið til hliðar, rétt nægilega mikið til þess að Ingólfur lenti í forarpolli við hlið hestsins en ekki á baki hans.

Við þetta reiddist Ingólfur og tók óþyrmilega í taum hestsins, dró hann að sér, steig í annað ístaðið og sveiflaði sér á bak með látum. Þá vildi ekki betur til en svo að sveiflan var einum of öflug svo hann fór yfir hestinn. Þetta hefði ég viljað eiga á myndbandi.

Og svo fáeinar myndir:

IMG 3179Hús í Kópavogi. Sólsetrið speglast í rúðunum.

IMG 3184Kattarhryggur á Holtavörðuheiði. (eða var það í Norðurárdalnum?) Þarna lá vegurinn í eina tíð.

IMG 3185Ólafslundur skammt frá Blönduósi.

IMG 3190Ég sjálfur.

IMG 3196Hringleikahúsið mikla á Akureyri.

 

Bloggfærslur 4. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband