759- Stórhausalisti Moggabloggsins

Hætt er við að Moggabloggsmenn hafi safnað meiri glóðum elds að höfði sér með því að loka á DoctorE en þeir fái risið undir. Orð DoctorE um tiltekna konu hef ég ekki séð en er samt þeirrar skoðunar að DoctorE eigi að fá að halda áfram að blogga hér. 

Ég ætla að skrifa hér nokkur orð um stórhausalistann einkum fyrir þá sem ekki hafa mikla hugmynd um hvernig hann er til kominn eða hvernig hann virkar.

Ég veit ekki hvernig hugmyndin um þennan lista varð til upphaflega því ég byrjaði ekki að blogga hér fyrr en 2006. Ekki leið á mjög löngu áður en ég var settur á þennan fræga lista og kom það til af því að ég fór að spyrja þá Moggabloggsmenn hvernig í ósköpunum þeir væru valdir sem alltaf kæmu fremst í bloggið hjá þeim. Við Lára Hanna Einarsdóttir, sem eitt sinn var vinnufélagi minn, höfðum nokkurt samstarf um þær fyrirspurnir.

Mér vitanlega eru þeir ekki spurðir fyrirfram sem settir eru á þennan lista. Val á hann er alfarið í höndum Moggabloggsmanna og reglur um það hvað þurfi til greinilega samdar jafnóðum. Moggabloggsmenn hafa sagt að á þennan lista fari þeir sem bloggi svona og svona en það er augljóslega ekki rétt því stundum komast menn á listann útá nafn sitt eingöngu. Sagt hefur verið að á þessum lista séu nú u.þ.b. 200 bloggarar.

Sjaldgæft er að menn séu teknir af þessum lista. Þó þekkist það. Ég man til dæmis vel eftir því að Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson í Kaupmannahöfn var eitt sinn tekinn af þessum lista og var ekki par ánægður með það. Mig minnir að því hafi verið haldið fram að skrif hans væru of einhæf. Skrifaði hann sig inná listann aftur eftir japl og fuður.

Sagt er að það sé síðan sérstakt forrit sem velji blogg úr þessum lista til birtingar hverju sinni. Það getur vel verið rétt en ég held að aldrei hafi verið upplýst fullkomlega hvaða atriði þetta forrit hefur til hliðsjónar við val sitt. Örugglega er líka hægt að breyta þeim skilyrðum eftir hentugleikum.

Barátta þeirra Moggabloggsmanna við þá sem fremur vilja notast við dulnefni en sitt eigið nafn og sífelldar lokanir þeirra á hina og þessa er svo efni í annað blogg. Sömuleiðis mætti skrifa langt mál um eyjuna.is og hvernig þeir nældu sér á tímabili skipulega í þá sem vinsælir urðu á Moggablogginu.

Ný leitarvél er á komin á Netið. Microsoft og Yahoo hafa sameinað krafta sína á leitarvélamarkaðnum. Ekki veit ég hver gleypti hvern en augljóslega er þessu beint gegn google. Nýja leitarvélin heitir bing. Ég prófaði semsagt bing.com og gúglaði (eða bingaði??) sjálfan mig. Hlutirnir raðast öðruvísi þarna en á google.com og eitt það athyglisverðasta sem ég sá var urlið: vefsidurhvergerdinga.blogspot.com. Ég þangað en þekkti eiginlega enga nema sjálfan mig og Bjössa. Á þó eftir að athuga þetta betur enda fróðlegt mjög.

Bankahrunsmálin eru það langalvarlegasta sem komið hefur fyrir þessa þjóð í marga áratugi. Á sama hátt og stjórnmálaflokkarnir hafa leitast við að telja allt sem fer sæmilega í þjóðarbúskapnum vera sér að þakka er eðlilegt að kenna þeim um það sem úskeiðis fór í aðdraganda bankahrunsins. Langstærstan hlut þar á Sjálfstæðisflokkurinn. Næst kemur Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin þar á eftir. Mikið þarf að breytast til að ég kjósi nokkru sinni framar einhvern af þessum flokkum til að fara með stjórn landsmála.

Frá fyrsta degi hefur þar að auki verið haldið afar illa á öllum þeim málum sem hruninu tengjast. Núverandi ríkisstjórn virðist þó vera ívið skárri en þær sem á undan voru. Af þeirri ástæðu einni mundi ég líklega gera ríkisstjórninni það til geðs væri ég Alþingismaður að samþykkja ríkisábyrgðarfrumvarp hennar um Icesave.

 

Bloggfærslur 31. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband