732 - Lára Hanna, blogg yfirleitt og fleira

Ég sakna þess að Lára Hanna Einarsdóttir skuli vera nánast hætt að blogga. Það er engin tilviljun að hún skuli vera svo vinsæl hér á Moggablogginu sem raun ber vitni. Auðvitað á hún skilið að fara í frí eins og aðrir. Vonandi kemur hún aftur fljótlega af endurnýjuðum krafti.

Þó ég sakni Láru Hönnu úr blogginu er sá söknuður ekki eins og margra annarra. Flokkspólitískt séð finnst mér hún einum of vinstrisinnuð. Upphaflega skrifaði hún einkum um umhverfismál en eftir að bankahrunið kom til sögunnar hefur hún orðið æ pólitískari.

Ég þekkti Láru Hönnu nokkuð áður en hún byrjaði að blogga og dáist mest að henni fyrir söfnunaráráttuna. Hún heldur saman allskyns upplýsingum um þau mál sem hún tjáir sig um og veitir öllum sem vilja aðgang að því efni. Hún setur líka saman ýmsar upplýsingar á þann hátt að eftir er tekið og er ekkert að skafa utanaf hlutunum í því sem hún skrifar.

Það sem stendur mörgum fyrir þrifum við skriftir er óttinn við endurtekningar. Hugsunin fer í eilífa hringi og ekkert er við því að gera. Bloggið losar mig að minnsta kosti við endurtekningaróttann. Ég endurtek mig ekki oft í hverju bloggi. Þegar ég hef lokið við mína blogg-grein og sent hana út í eterinn eftir að hafa lesið hana sæmilega yfir bæði með tilliti til réttritunar og endurtekninga verður ekki aftur snúið. Ekki fer ég að breyta gömlum bloggum. Man ekki eftir að hafa leiðrétt blogg nema nokkurra mínútna gamalt.

Síðan endurtek ég mig sjálfsagt í einhverju framtíðarbloggi en við því er lítið að gera. Ekki einu sinni víst að aðrir taki eftir því.

Athugasemdirnar eru sér kapítuli. Þær les ég varla yfir og breyti engu enda held ég að ég geti það ekki eftir að þær eru einu sinni farnar frá mér. Þarna er ég bæði að tala um athugasemdir á mínu eigin bloggi og öðrum.

Farsímar, blog, msn, facebook, twitter og hvað þetta allt heitir er í óða önn að breyta heiminum. Að minnsta kosti þeim heimi sem við þekkjum. Ég er samt orðinn svo gamall að ég treysti mér ekki til að fylgjast með þessu öllu. Bloggið hentar mér ágætlega. Þar get ég látið móðann mása og svo eru þónokkrir sem láta svo lítið að lesa þetta. Meira get ég ekki farið fram á.

Siggi Árna, sem eitt sinn var formaður Verklýðsfélagsins í Hveragerði og baðvörður á sínum tíma í frægum leirböðum sem voru á hverasvæðinu skammt þar frá sem draugasundið kom seinna, var sannfærður kommúnisti og mikill aðdáandi alls sem rússneskt var. Hann keypti sér rússajeppa þegar farið að flytja þá inn og allir sem efni höfðu á því gátu fengið sér bíl. Sagt er að Siggi hafi strax skrúfað öll dekkin undan bílnum og farið með þau inn í stofu. Hleypt þar loftinu úr þeim og sagt með sælusvip: „Júððnest loft, júððnest loft!!"


Bloggfærslur 3. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband