707- Jón Frímann og ritskoðunartilburðir Morgunblaðsins

Fjúkk. Ég er búinn að missa alla stjórn á kommentakerfinu mínu við færslu númer 704 en það er í lagi. Allir mega kommenta og ég hef ekki í hyggju að setja nein takmörk á það. Svarhalinn þarna lifir sínu eigin lífi og er orðinn óhæfilega langur. 

Jón Frímann sem iðinn hefur verið hér við komment um ESB-málið sýnist mér hafa lent í ritskoðunarhremmingum á Moggablogginu um síðustu áramót. Það gerði ég líka en var endurreistur. Með því að minnast hér á ritskoðun Moggabloggsins er ég kannski að kalla yfir mig annan eins svarhala og um daginn. Icesave-málið gæti þó bjargað mér frá því.

Þó ég vilji helst ekki blogga mikið um stjórnmál því það er svo margt skemmtilegra en þau þá sýnist mér Icesave-málið ætla að verða núverandi ríkisstjórn mjög erfitt og reynir nú verulega á stjórnarsamstarfið.

Einu sinni fór ég í gönguferð með Bjössa og Lísu frá Selvogi til Þorlákshafnar. Á miðri leið rákumst við á bílhræ sem virtist hafa dottið af himnum ofan. Það var úti í miðju hrauni og enginn vegur lá þangað. Meira að segja hundurinn hans Bjössa var steinhissa á þessu.

Sögumenn og skrásetjarar segja ekki alltaf endilega sannleikann. Þeir segja bara frá einhverjum aðburðum eins og þeir koma þeim fyrir sjónir. Sú sýn getur hæglega byggst á einhverjum misskilningi og hinn sagnfræðilegi sannleikur verið talsvert frábrugðinn. Samt er sjálfsagt að reyna að hafa fremur það sem sannara reynist eins og Ari fróði sagði forðum.

Það er engin sérstök ástæða fyrir að ég segi þetta. ESB-svarhalinn langi gefur mér þó tilefni til að halda að fjarri sé því að menn sjái sömu atburði eða sömu skjöl alltaf í sama ljósi. Sú aðferð að láta dómstóla skera úr um ágreining manna er góð og svipuð aðferð þyrfti að vera til varðandi ágreining þjóða.

En nú er ég farinn að nálgast hugleiðingar um Icesave, ESB og allt sem því tengist svo best er að hætta.

 

Bloggfærslur 6. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband