679- Enn um dauðarefsingar

Það er margt sem bendir til þess að enn og aftur sé ástæða fyrir mig til að fjölyrða um þetta. Jón Valur Jensson hefur nokkrum sinnum skrifað heilmikið um þessi mál í athugasemdakerfið mitt. Þessi innlegg hans eiga það sannarlega skilið að vera lesin af öllum sem rekast hingað inn. Þeir eru svosem ekkert rosalega margir en eflaust fleiri en þeir sem kommentin lesa.

Jón Valur leggur heilmikla vinnu í svörin til mín og er sannfærandi. Í einstaka tilvikum hefur hann breytt skoðunum mínum en ég get alls ekki verið sammála honum í öllum atriðum. Að þessu sinni mun ég einkum beina athygli minni að svörum hans við síðasta innleggi mínu.

Margt af því sem ég hef sagt um þyngd refsinga, kynþáttamál og fælingamátt refsinga hefur Jón Valur í raun fallist á með því að minnast ekki á það. Sigurþór P. Björnsson segir í einu innleggi sínu: Hinar miklu og heitu umræður um dauðarefsingar, snúast aðallega um dauðarefsingar í Bandaríkjunum og hveru ómannúðlegar þessar refsingar eru.

Þetta er alveg rétt hjá Sigurþóri. Hvort sem það er með réttu eða röngu þá snúast umræður um dauðarefsingar einkum um hvernig þessum málum er fyrirkomið í Bandaríkjunum. Það sem Jón segir síðan um dauðarefsingar í öðrum löndum er beinlínis staðfesting á þessu. Auðvitað eru dauðarefsingar algengari víða annars staðar. Það vita þeir mjög vel sem um þessi mál fjalla. (Nefndar tölur eru samt ekki nákvæmar. Til dæmis hafa aftökur í Bandaríkjunum undanfarið verið um eitt hundrað á ári en ekki að meðaltali 50 eins og Jón segir.)

Sú staðreynd stendur samt óhögguð að Bandaríkin eru eina vestræna ríkið sem beitir dauðarefsingum. Þau ríki öll sem við berum okkur oftast saman við hafa látið af þessum grimmilegu refsingum. Þó aðrir séu verri en Bandaríkjamenn afsakar það þá ekki á nokkurn hátt. Þessu getur Jón Valur ekki kyngt og segir beinlínis á einum stað: Þessu verður ekki á nokkurn hátt jafnað til hins langtum skaplegra ástands í Bandaríkjunum.

Meginatriðið í gagnrýni Jóns í nýjasta innlegginu snýst þó um að ég hafi ekki komist réttilega að orði þegar ég sagði í bloggi mínu í gær að líta megi á Bandaríkin á vissan hátt sem höfuðvígi dauðarefsinga. Þetta get ég vel fallist á eins og fram kom í einu svara minna í athugasemdum gærdagsins.

Í síðustu athugasemd Jóns er helst að skilja að menn hljóti einkum að skrifa um dauðarefsingar til að hafa áhrif á yfirvöld í þeim löndum þar sem þær eru algengastar. Svo er alls ekki um mig. Þessi bloggskrif mín eru pælingar um mál sem allir hugsandi menn hljóta að velta fyrir sér.


Bloggfærslur 9. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband