676- Nokkur orð um dauðarefsingar

Í allmörgum ríkjum heims er dauðarefsing við lýði. Eina vestræna lýðræðisríkið sem beitir henni er Bandaríki Norður Ameríku. Refsigleði þar er almennt mikil. Margir hafa fjallað um þetta og tölur hafa hér lítið að segja. Í nokkrum Asíuríkjum er refsigleði einnig mikil og á margan hátt óskiljanleg okkur Vesturlandabúum.

Í alþjóðasamningum um mannréttindi er lífið talið hinn helgasti réttur allra. Ekkert mælir með því að ríkisvaldi sé heimilt að svifta menn því. Glæpir geta auðvitað verið svo svívirðilegir að mörgum sýnist réttlátt að gerningsmaðurinn sé sjálfur sviptur lífi en það veitir þó ekki ríkisvaldinu rétt til að taka líf. Önnur ráð eru tiltæk til þess að koma í veg fyrir að viðkomandi fremji fleiri glæpi.

Þungar refsingar halda ekki aftur af afbrotamönnum. Það er margsannað. Það er siðferðið og almenningsálitið sem ríkir á viðkomandi svæði sem ræður mestu um ástandið fremur en dómavenjur. Það er röng stefna að krefjast ætíð þyngri refsinga fyrir afbrot.

Hefndarskyldan var lögð niður á Íslandi þegar þjóðveldið leið undir lok 1262-65. Þar með varð það hlutverk Noregskonungs að sjá um dómaframkvæmd. Á Íslandi hefur það lengi verið venja að brotaþola komi ekki í raun við hver refsing er og hvernig hún er framkvæmd. Hlutverk ríkisins sé að sjá til þess að sem fæst afbrot séu framin fremur en að tryggja að brotaþoli eða aðstandendur hans verði ánægðir með refsinguna.

Svona er þetta samt ekki alls staðar. Í Bandaríkjunum tíðkast mjög að fjölmiðlar ræði við fjölskyldur þeirra sem brotið var gegn þegar morðingjar eru teknir af lífi. Þróunin í Bandaríkjunum er samt sú að dauðarefsingum fer fækkandi og verða þær ef til vill lagðar niður þar áður en langt um líður.

Ef reynt er að gæta þess að bera ekki fyrir borð réttindi hins dæmda verður enginn sparnaður í dómskerfinu af dauðarefsingum. Þessu hafa Bandaríkjamenn kynnst af eigin raun.

Í flestum vestrænum ríkjum hefur dauðarefsing verið aflögð og rætt hefur verið um að banna hana með öllu í stjórnarskrá Íslands. Síðasta aftaka hér fór fram árið 1830.

Þar sem athafnafrelsi er mikið og dómarar kosnir í almennum kosningum er talsverð hætta á mikilli refsigleði. Sú hefur raunin orðið víða í Bandaríkjunum og þekkjum við Íslendingar dæmi þess.


Bloggfærslur 6. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband