699 - Erró, bjór og myndir

Erró er engum líkur. Hann kann að mála. Hefur sérstakan stíl og kann svo sannarlega að auglýsa sig. Einu sinni hét hann Ferró en svo vildi einhver meina að hann hefði einkarétt á því nafni svo hann felldi F-ið niður. Hann heitir víst Guðmundur Guðmundsson og er fæddur í Ólafsvík en alinn upp á Kirkjubæjarklaustri.

Á Hundastapa á Mýrum er rennandi bjór eftir því sem sagt var í sjónvarpinu í kvöld. Ekki veit ég hvað það á að fyrirstilla að vera að gefa nautum bjór en ég man eftir því að einu sinni var vinsælt lag sem hét á ensku „Running bear" eða eitthvað þess háttar. Ég var aldrei viss um hvort verið var að tala um hlaupandi björn eða rennandi bjór. Annars man ég yfirleitt ekki vel eftir dægurlagatextum. Skil þá sjaldnast og finnst þeir yfirleitt ekki skipta miklu máli. Undantekningar eru samt til.

Ef endilega þarf að vera verðtrygging þá er án alls vafa vitlaus vísitala notuð til að hækka lánin. Eðlilegast er að skuldunautar og lánardrottnar skipti verðbólguáhrifunum einhvern vegin á milli sín. Ef verðbólgan er lítil sem engin skiptir þetta auðvitað ekki miklu máli en verðbólgan á það til að rjúka upp eins og dæmin sanna.

Óvenjumargir blogga nú um þingstörfin sín og er það vel. Þetta starf verður manneskjulegra fyrir vikið. Svo er líka oft gaman að fylgjast með Alþingisumræðum í sjónvarpinu. Ágæt gestaþraut er að spá í skammstafanirnar á nöfnunum sem hægt er að sjá á mælendaskránni.

Athyglisverð þverstæða er að nú er líklega fyrst meirihluti á Alþingi fyrir Evrópuaðild en kannski ekki meðal þjóðarinnar. Löngum var því öfugt farið. Líklega fer best á því að láta Alþingi eitt um það næstu vikurnar að þræta fram og aftur um þetta mál.

Og svo eru einar ellefu myndir sem allar eru teknar við Elliðaárnar um daginn.

IMG 2721Þetta er víst fífill að springa út.

IMG 2726Hundasúruplanta berst fyrir lífi sínu.

IMG 2736Vatnið í Elliðaánum.

IMG 2737Séð undir brúna þar.

IMG 2742Meira vatn.

IMG 2744Og enn meira.

IMG 2745Sóleyjar.

IMG 2746Stífla.

IMG 2748Lúpína.

IMG 2754Kríur á steini.

IMG 2757Litið eftir umferðinni.


Bloggfærslur 29. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband