696 - Um blogg

Ég get ekki að því gert að ég er óskaplegur dellukarl. Um þessar mundir er það bloggið sem slíkt sem ég er með dellu fyrir. Þegar ég uppgötvaði bloggið einhverntíma um 2000 las ég öll blogg sem ég fann, jafnvel erlend líka. Það kvað svo rammt að þessu að eitt sinn, líklega á jólunum 2003, fékk ég í jólagjöf bókina um Salman Pax. Því miður hafði ég lesið flest áður sem í bókinni stóð því ég hafði lesið bloggið hans frá því nokkru fyrir upphaf Íraksstríðsins. 

Stefán Pálsson hefur verið minn aðalgúrú á þessu tímabili þó Salvör Gissurardóttir hafi komið þar við sögu einnig. Einu sinni las ég hvert einasta blogg frá þeim. Lýsingarnar á því þegar maðurinn hennar Salvarar fór til Afghanistan eru mér minnisstæðar. Já og auðvitað las ég bloggið hans líka.

Á tímabilum hef ég líka lesið hvert einasta blogg sem Ágúst Borgþór og Nanna Rögnvaldardóttir hafa skrifað. Lýsingar Nönnu á sauðargærunni eru klassík. Um þessar mundir læt ég ekkert blogg frá Sigurði Þór Guðjónssyni ólesið. Les jafnvel veðurfarslanglokurnar hans þó mér finnist þær hundleiðinlegar. Við Lára Hanna urðum forsíðubloggarar hér á Moggablogginu um sama leyti og ég las öll bloggin hennar lengi vel en er farinn að sleppa þeim stundum nú í seinni tíð.

Nýjasta dellan mín í bloggheimum er svo blogg-gáttin. Þar skráði ég mig fyrir nokkru og fer þangað inn jafn oft og á mitt eigið blogg. Semsagt mjög oft. Blogg-gáttin er ágæt og þar fyrir utan nota ég Google readerinn talsvert. Bloggvinirnir eru því miður orðnir of margir til þess að ég geti almennilega fylgst með þeim.

Baldur Guðmundsson skrifar fasta þætti í DV.is. Hann heldur því fram að flestir hörðustu ESB andstæðingar á blogg-gáttinni noti bókstafinn Z. Þetta hafði mér aldrei dottið í hug en vel getur verið að það sé rétt. Hörður Bragason segir í athugasemd að þeir eigi það líka sameiginlegt að hafa aldrei verið búsettir í öðru Evrópuríki en Íslandi.


Bloggfærslur 26. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband