Bloggfærslur mánaðarins, maí 2016

2465 - Frambjóðendur í úrvali

Það er einkennilegt að utankjörstaðaatkvæðagreiðsla sé hafin þó framboðsfrestur sé ekki liðinn í forsetakosningunum. Og eftir því sem Sturla Jónsson sagði um daginn mátti heldur ekki skila meðmælendalistum fyrr en eftir einhvern ákveðinn tíma. Sennilega eiga margir eftir að gera það. Gott ef það er ekki fjölmiðlunum mest að kenna að mögulegir frambjóðendur séu svona margir. Sumir er alls ekki í þessu af neinni alvöru.

Sennilega stafar þetta af því að sérlög eru um framboðsfresti og önnur lög um kosningar almennt. Hringlandaháttur stjórnvalda er stundum grátlegur.

Annars eru þessar forsetakosningar sem yfirvofandi eru í júní næstkomandi að breytast í eitt allsherjar sjónarspil. Eins og staðan er núna virðist mér að alvöruframbjóðendur séu í mesta lagi fjórir og kannski hætta þeir allir við. Hvað gera Danir þá?

Auðvitað geldur alþingi þessa. Þar er rætt um alvörumál (a.m.k. í nefndum – að sögn) Ef lög stangast á er þinginu gjarnan kennt um. Satt að segja er ekki hægt að ætlast til að þingmenn hafi á hraðbergi og þekki út í hörgul öll þau lög sem samþykkt hafa verið. Þeir sem vinna í ráðuneytunum ættu að vita þetta. Þeir hafa hvort eð er hrifsað til sín nær öll völd. Ráðherraræflarnir gera fátt annað en afsaka þessa ábyrgðarlausu starfsmenn. Mér dettur sífellt í hug bresku sjónvarpsþættirnir sem hétu að mig minnir: „Já, ráðherra.“

Held að stuðingsmenn Guðna Th. ætti að vara sig á Davíð Oddssyni, þó munurinn á þeim virðist mikill núna. Davíð hefur oft háð kosningabaráttu áður og veit uppá hár hvaða meðulum er heppilegast að beita. Auk þess er hann með vel smurða áróðursvél, en Guðni sennilega ekki. Sem stuðningsmaður Guðna Th. vara ég þá sem hann styðja við því að vanmeta Davíð Oddsson. Þó flokkapólitík og afstaða til ESB eigi ekki að skipta máli í þessu sambandi gerir hún það áreiðanlega. Vinstri menn, margir hverjir, munu áreiðanlega kjósa Andra Snæ og óánægja með núverandi ríkisstjórn getur dreifst víða.

Satt að segja sakna ég þess að heyra ekki meira frá stuðningsmönnum Guðna því þeir hljóta að vera fjölmargir. Davíð Oddsson hefur alveg sérstakt Trump-lag á því að koma sér í fjölmiðla. Þó netmiðlarnir og ríkisútvarpið virðist heldur andsnúin Davíð af ýmsum ástæðum verða menn að gæta þess að Internetið og fésbókin eru ekki upphaf og endir alls. Sumir kunna alls ekki að meta þessa nýmóðins tækni allasaman og ef þeir sameinast í andstöðu sinni geta þeir sem hægast haft mikil áhrif.

Nú er u.þ.b. mánuður til forsetakosninganna. Sá tími mun mörgum finnast fljótur að líða. Kosningabaráttan verður að miklu leyti háð í fjölmiðlum og á netinu. Samt mega frambjóðendur ekki alveg gleyma því að gamaldags vinnubrögð og ferðalög kunna að hafa talsverð áhrif líka.

WP 20150623 08 20 04 ProEinhver mynd.


2464 - Um forsetaembættið o.fl.

Helgi Hrafn Gunnarsson, en skammstöfun á nafni hans ruglaði ég í fyrstu saman við Hannes Hólmstein Gissurarson, en vissulega var það rangt. Einnig ruglaði ég einu sinni saman Jóni Ólafssyni Pírata og honum. Ruglaðist reyndar aldrei neitt á Birgittu. Man vel eftir mömmu hennar og ömmu.

Nú jæja, HHG heldur því fram í Fréttablaðinu s.l miðvikudag að minnihlutastjórnir séu á sinn hátt betri en meirihlutastjórnir og færir fyrir því nokkuð sannfærandi rök. Kannski erum við Íslendingar ekki tilbúnir fyrir slíkt því flokkshollustan er öllu æðri hjá flestum. Forystumenn meirihlutaflokka sem stjórna geta oft leyft sér hvað sem er. Ætlast er til að óbreyttir þingmenn hlýði flokksforustunni í einu og öllu. Auðvitað eiga forystumenn flokka ekki að geta gert hvað sem er. Goggunarröðin ræður mestu um það hverjir verða ráðherrar. Ef þingmenn hlýða flokksforustunni nógu lengi gætu þeir fengið ráðherraembætti að launum þegar þeirra tími kemur. Þessvegna er oft best að rugga bátnum ekki of mikið.

Vegna meirihlutastjórna og ofurvalds flokkakerfisins er hægt að segja að alþingi sé nánast óstarfhæft. Eins og HHG rekur ágætlega í þessari grein sinni er alþingi nánast valdalaus stofnun. Hangir þó eins og hundur á roði á sínu. Þingrofsvald og minnihlutastjórnir má helst ekki ræða um. Þar er samt um grundvallarmál að ræða. Efast mjög um að hægt hefði verið að taka nýju stórnarskrána óbreytta í gildi. Margt er þó í henni sem horfir stórlega til bóta. Alþingi Íslendinga er á margan hátt einskonar risaeðla og steingervingur í íslensku þjóðlífi. Engin furða þó framkvæmdavaldið hafi tekið yfir. Misjafn er árangurinn þó.

Forsetaembættið er á margan hátt barn síns tíma. ÓRG túlkaði það eftir sínu höfði og aðallega í eigin þágu. Hlaut hatur sumra og aðdáun annarra fyrir vikið. Í stjórnarskránni eru ákvæði um embættið afar óljós en ekki þarf þó að efast um að VALDIÐ (með stórum stöfum) er hjá þinginu. Forsetaembættið er með öllu óþarft ef þingið gæti komið sér sæmilega saman og hætt þessum kjánalega liðaleik og mælskukeppni.

Á valdið t.d. til stjórnarskrárbreytinga að vera hjá alþingi eða hjá almenningi. Um það virðist fólk ekki vera sammála. Þjóðaratkvæðagreiðslur rugga bátnum og eru stjórnendum til óþurftar ef þær eru of algengar. Þingkosningar á 4 ára fresti nægja samt ekki.

WP 20150423 12 02 01 ProEinhver mynd.


2463 - Um stjórnarskrá og forsetakosningar

Sennilega er það gjafakvótinn sem valdastéttin ætlar sér að halda áfram að styðja. Augljóslega má ekki gera neinar þær breytingar á stjórnarskránni sem ógnað geta útgerðarauðvaldinu. Áður fyrr byggðust heilu kauptúnin í kringum útgerðina á staðnum sem stundum var í eigu eins manns. Svo fór þetta að þjappast saman og sum kauptúnin og kaupstaðirnir voru skilin eftir á köldum klaka þó öðru væri lofað. Ágætt virðist að hafa umboðsmann þessarar stefnu á Bessastöðum.

Icesave söngurinn þó falskur sé á áreiðanlega eftir að hljóma margradda á næstunni. Búast má við að ESB komi líka við sögu og Guðna verður áreiðanlega borið það á brýn að vera ESB-sinni. Kannski bara vegna þess að hann er ekki yfirlýstur ESB-andstæðingur. Þeim finnst nefnilega að allir eigi að vera það, Annars sé fólk óþjóðlegt. Annars var Bjarni Ben. og flestir sjálfstæðismenn fylgjandi síðasta Icesave-samningnum. En happdrættishugarfarið sigraði og reyndist vera vinningsleikur. Kannski Sigmundur Davíð bjóði sig bara fram til forseta. Hann gæti það, eða er það ekki? Og mundi sjálfsagt fá framsóknaratkvæðin. Verst fyrir hann hvað þau eru fá.

Í fyrstu forsetakosningunum sem ég man eftir hef ég alls ekki getað kosið. Sennilega verið svona níu ára þá. Man helst eftir Vigni bróðir þar sem hann var nýfarinn að tala að marki. Hann sagði: „Má ég kjósa?“ Og svaraði sér síðan sjálfur með örlítið breyttri röddu: „Já, þú mátt kjósa.“ Þá vorum við í húsinu að Laufskógum 1 en þar vorum við sumarið sem nýja húsið var byggt. Þetta mun hafa verið árið 1952 og Ásgeir Ásgeirsson sigraði þá séra Bjarna Jónsson.

Næstu forsetakosningar sem ég man eftir voru síðan á milli Kristjáns Eldjárn og Gunnars Thoroddsen og þaðan man ég eftir fundinum í Laugardalshöll þar sem ekki komust allir inn og Kristján hrasaði í stiganum upp á svið.

Ég er einn af þeim ótalmörgu sem hafa alltaf „kosið rétt“ í forsetakosningum hingað til. Ég kaus Kristján Eldjárn á sínum tíma og síðan Vigdísi og flutti meira að segja ávarp á áróðursfundi sem haldinn var af stuðningsmönnum hennar í Borgarnesi. Ólaf Ragnar kaus ég líka árið 1996, en hefði ekki kosið hann aftur núna. Orrustu milli Andra Snæs og hans hefði ég líklega leitt hjá mér en núna virðist mér einsýnt að styðja Guðna. Hann minnir á Kristján Eldjárn og Andri Snær minnir um margt á Vigdísi. Um Davíð gamla ræði ég ekki þó hann sé skyldur mér. Afdankaðan stjórnmálamann þurfum við ekki í þetta embætti.

Ég tel að stjórnarskráin sem svokallað stjórnlagaþing sammæltis um verði aldrei í heild samþykkt af Alþingi. Reyna má að koma með nýja stjórnarskrá sem byggir í mörgu á henni og þeim atriðum sem samþykkt voru í þjóðaratkvæðagreiðslunni hefði þurft að koma sem flestum að fyrir næstu kosningar. Það verður samt ekki en á næsta þingi mun e.t.v. reyna á mörg atriði þar.

Grundvallaratriði er að stjórnarskárbreytingar eða samþykkt nýrrar þarf að fara fram í samræmi við þá gömlu. Annað gæti kallað á langvarandi ósamkomulag um flesta hluti. Alþingi er stjórnarskrárgjafi núna og það vald verður ekki af því tekið nema með samþykki þess.

WP 20150624 20 21 48 ProEinhver mynd.


2462 - Forsetar hér og forsetar þar

Síðasta blogg mitt kallaði ég „Davíð fjórtánda“. Ekki átti það að vera nein tilvísun í sólkonunginn sjálfan, Lúðvik 14., heldur skildist mér að Davíð Oddsson væri fjórtándi frambjóðandinn til forsetaembættisins. Annars veit maður aldrei frá degi til dags hve margir frambjóðendurnir eru. Eflaust fá þeir langflest atkvæðin sem fjölmiðlarnir hampa mest og hafa best lag á að koma sér þangað. Þannig hefur það verið og þannig mun það verða. Einnig skiptir eflaust máli að vera óþreytandi við að kynna sinn málstað og hafa sem flesta og duglegasta stuðningsmenn. Vel er hægt að hugsa sér að internetið og fésbókin verði undirlögð á næstunni undir áróður í tilefni af fosetakosningunum. Við því er að búast og vel er hægt að varast þann áróður.

Ef gert er ráð fyrir að engum snúist hugur úr þessu og Ólafur hætti við og Davíð haldi sínu til streitu þá finnst mér líklegast að barátta standi einkum á milli Davíðs og Guðna. Andri Snær og aðrir komi þar á eftir með miklu minna fylgi. Halla virðist þó taka þessa baráttu alvarlega. Aðrir fá miklu færri atkvæði geri ég ráð fyrir.

Er líklegt að allir þeir sem hættu við þegar ÓRG varpaði sinni næstsíðustu sprenju hætti núna við að hætta við? Hvernig er skynsamlegast að haga sér þegar forsetinn sjálfur lætur svona?

Er ekki sjálfsagt að bíða þangað til framboðsfrestur er útrunninn og sjá þá hverjir ætla að bjóða sig fram í raun og veru. Auðvitað skipta skoðankannanir miklu máli og greinilega eru sumir forsetaframbjóðendur núna að þessu einkum í auglýsingaskyni.

Kannski er Trump nær Demókrötum í mörgum málum en halda mætti. Auðvitað er það svo að mest sker í augun stefna hans í málefnum ólöglegra innflytjenda og flóttamanna. Múslimahatur hans er líka kunnugt. Slagorð hans er „Gerum Bandaríkin aftur stórkostleg,“ Þetta allt saman gæti bent til vaxandi einangrunarhyggju. Kannski er það vinsælla í Bandaríkjunum en margur hyggur. Kvenhatur hans er einnig þekkt og gæti orðið honum til trafala ef hann dregur ekki úr því. Ef Trump tekst að breyta ímynd sinni verulega getur hann vel orðið frambjóðanda Demókrataflokksins hættulegur. Múrinn milli Mexikó og Bandríkjanna sem hann hefur boðað og ósveigjanleg stefna hans í innflytjenda og flóttamannamálum er nokkuð sem hann þarf að breyta. Dragi hann í land með það eins og fjöldamargt annað gæti það haft slæm áhrif á kjörfylgi hans.

Ekki eru allir ánægðir með að Trump skuli vera orðinn svo gott sem frambjóðandi repúblikanaflokksins. T.d. finnst trúarnötturum að The Grand Old Party (GOP) hafi svikið sig. Einnig hefur hann stjórn Repúblikanaflokksins að mestu leyti á móti sér. T.d. hafa Bushar-arnir næstum allir lýst yfir andstöðu við hann.

Trump hefur sagt að gera megi undanþágu frá múslimabanni sínu fyrir borgarstjóra Lundúaborgar. Sá borgarstjóri segist samt taka frambjóðanda demókrataflokksins framyfir Trump.

Forsetakosningar, bæði hér á skerinu og í Bandaríkjunum eru þó fremur þýðingarlitlar, því þessir blessaðir forsetar ráða fremur litlu í lýðræðisríkjum. Þingkosningar eru oftast miklu afdrifaríkari.

IMG 2349Einhver mynd.


2461 - Davíð fjórtándi

Ekki entist sú spá mín lengi að Davíð Oddsson mundi ekki bjóða sig fram til forseta.

Ég hef í hyggju að kjósa Guðna Th. í komandi forsetakosningum. Vonandi berjast Davíð og ÓRG um sama fylgið. Það er að segja fylgi þeirra sem engu vilja breyta. Guðni mun aftur á móti fyrst og fremst berjast við Andra Snæ og ég held að hann sigri þar en Davíð og ÓRG verði fyrir neðan þá.

Aftur á móti er ég ansi hræddur um að þingkosningarnar sem væntanlega verða í haust geti skilað mjög snúinni niðurstöðu. Sumarið verður samt spennandi pólitískt séð. Sú ríkisstjórn sem hugsanlega tekur við eftir kosningarnar í haust er ekki öfundsverð. Hætt er við að hún sitji ekki mjög lengi. Hugsanlega hefur ÓRG rétt fyrir sér að því leyti að ansi snúin staða gæti komið upp eftir næstu þingkosningar. Hann er samt ekki eini maðurinn sem gæti greitt úr þeirri flækju. Ég treysti Guðna Th. alveg til þess. Þjóðaratkvæðagreiðslur þurfa að geta átt sér stað eftir fleiri leiðum en þeirri einu sem nú er til staðar og GTJ hefur opnað á þann möguleika.

Heldur finnst mér sú afsökun þynnkuleg sem ÓRG kom með eftir langa umhugsun. Hann segist hafa misskilið þá spurningu sem lögð var fyrir hann af fréttamanni CNN. Annað hvort er hann óvenju heimskur eða hraðlyginn. Ég fer ekkert ofan af þessari skoðun minni þó um sé að ræða forseta lýðveldisins sem ég hafi átt þátt í að koma til valda árið 1996.

Framboð Davíðs kemur sem blaut tuska framaní marga en satt að segja er hann með alla sína pólitísku fortíð ekki sá sem þjóðin vonast eftir í þetta embætti. Eflaust verður Davíð með öllu samþykkur Ólafi Ragnari um að núverandi stjórnarskrá sé bara skrambi góð. Sú held ég að sé ekki skoðun þjóðarinnar og útfrá þeirri skoðun er spádómur minn hér á undan. Verst að það skuli yfirleitt vera lítið að marka mína spádóma.

Já, já. Það er erfitt að varast stjórnmálin þessa dagana. Sumarið held ég að verði sögulegt. Jafnvel gæti komið hitabylgja.

Einhver mynd.WP 20150803 10 13 33 Pro


2460 - Davíð Oddsson

Einhverjir (allmargir) hamast við að boða þau ósköp að Davíð Oddsson ætli að bjóða sig fram til forseta hér á Íslandi. Ekki hef ég trú á því, en samt er því ekki að neita að skemmtilegar gætu þær forsetakosningar sem boðaðar hafa verið í sumar orðið ef svo færi. Annars held ég að Guðni Th. muni leika sér að því að vinna sigur í þeim. Ólafur getur varla farið nema niður á við. Kannski er hann að hugsa um að hætta við að hætta við að hætta við að hætta. Ég meina að kannski ætlar hann að láta slag standa og hella sér í framboð eftir allt saman.

Nú er kannski við hæfi að snúa sér að alvöru forsetakosningum. Segja má að þær íslensku séu bara einskonar æfing. Þær bandarísku séu alltumlykjandi. Samt er vald bandaríska forsetans afar takmarkað. En vissulega má gera ráð fyrir að þær kosningar hafi mun meiri áhrif á heimsmálin.

Þó nokkuð víst er að Trump og Clinton muni kljást í Ameríkunni en þar gæti sæmilega sterkur og þekktur þriðji frambjóðandi gert alla spádóma talsvert erfiðari.

Yfirgnæfandi líkur eru á því að Clinton sigri Trump. Samt er það svo að Trump gæti gert talsverðan óskunda, því Clinton er alls ekki vinsæl. Segja má að hún standi á vissan hátt fyrir óbreytt ástand, en Trump fyrir talsverðar (og jafnvel miklar) breytingar. Gera má ráð fyrir að hann mildi nokkuð svænsustu ummæli sín og repblikanar vilja fyrir hvern mun koma í veg fyrir að Clinton taki við af Obama. Kannski verður andúðin á báðum frambjóðendum sterkasta aflið í kosningunum.

Einhverju sinni var stofnað flugfélag hér á Íslandi. Það flugfélag átti meðal annars að keppa við Flugfélag Íslands með því að bjóða lægri flugfargjöld. Aðrir kunna þá sögu sjálfsagt betur en ég. Svo fór að þetta félag var stofnað og t.d. og var boðið uppá mun ódýrari flugfargjöld milli Húsavíkur og Reykavíkur og allt var sambærilegt. Það var einmitt Húsvíkingur sem sagði mér þessa sögu. Allir dáðust að þessum Davíð sem með þessu lagði til orrustu við Golíat sjálfan. Meðal annars kunnur athafnamaður á Húsavík. Sá sem sagði mér þessa sögu vissi fyrir tilviljun að þessi athafamaður hafði alveg nýlega farið til Reykjavíkur.

„Og þú hefur náttúrulega farið með nýja flugfélaginu“, sagði hann.

„Nei, ég fór nú með hinu, ég er vanastur því“.

Auðvitað fór þetta flugfélag fljótlega á hausinn.

Mér datt þetta svona í hug þegar ég las um íbúana í Pólunum, sem kusu íhaldið þegar þeir loksins fengu að kjósa.

Stjórnarskráin vefst talsvert fyrir mönnum. Kannski er þar að leita orsakanna að fylgistapi Pírata í síðustu skoðanakönnun. Held nefnilega að þeir ásamt Samfylkingu og líklega fleiri stjórnarandstöðuþingflokkum hafi nýlega samþykkt að vera á móti þeim breytingum á stjórnarskránni sem samkomulag náðist um í nefnd þeirri sem fjallað hefur um málið í allan vetur. Þó þar sé ekki fjallað nema um 4 atriði finnst mér þau vera til bóta. Mér finnst að rétt sé að sætta sig við það sem náðist fram núna, frekar en að heimta bara nýja stjórnarskrá, sem allsekki er hægt að ná fram á stuttum tíma. Það er einfaldlega ekki búið að samþykkja þá stjónarskrá, sem stjórnlagaþingið (svokallaða) samþykkti einróma.

WP 20150428 08 43 04 ProEinhver mynd.


2459 - Ætlar Ólafur kannski að hætta við að hætta við að hætta, eða þannig

Þegar Guðni Th. stígur upp sem verður víst opinberað á fimmtudaginn (í dag) má sennilega gera ráð fyrir að ÓRG fari í felur. Ekki samt útaf Guðna heldur áþreifanlegu og ógnþrungnu minnisleysi. Hann man nefnilega alls ekki lengur hvort hann er giftur Dorrit eður ei. Aumingja Dorrit. Hún á víst hvergi heima. Kannski bara í Ísrael. (Og samkvæmt síðustu fréttum jafnvel ekki einu sinni þar.) Ekki vilja Bretar kannast við hana og er þá fokið í flest skjól.

Setti þessa miklu speki á fésbókina um daginn því ég gat ekki beðið eftir bloggi. Að vísu er ég eitthvað búinn að breyta þessu veggskrifelsi, en í aðalatriðum ekki.

Ekki er annað að sjá en ríkisstjórnin hafi styrkst við undanfarandi skadala. Skoðanakannanir benda ótvírætt til þess. Vandræði forsetans eru samt allsekki ríkisstjórninni að kenna. Enn einu sinni erum við Íslendingar hafðir að háði og spotti í fjölmiðlum heimsins. Sem betur fer gleymist slíkt undrafljótt og undarleg eru afglöp þeirra Sigmundar og Ólafs því þeir höfðu nægan tíma til að undirbúa sig. Fljótfærni getur þetta því ekki talist. Sennilega eru þeir hvorki úr Súdan eða Grímsnesinu. Með þessu er ég að gefa í skyn að ég hafi lesið eitthvað eftir Tómas Guðmunsson. Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur (já, ég ber talsverða virðingu fyrir góðum sagnfræðingum) og hann gáfu reyndar út sagnaþætti í mörg ár og voru sannkallaðir metsöluhöfundar og það á undan Arnaldi. En þetta með Súdan og Grímsnesið er úr frægu ljóði eftir Tómas.

Í síðustu kosningum áttu Píratar talsvert undir högg að sækja. Samt kusu margir þá og þar á meðal ég. Nú er boðskapur þeirra kominn á flug og hvort sem þeir fá 3 þingmenn (eins og núna) eða 30 (eins og sumar skoðanakannanir bentu til) er það hjóm eitt samanborið við þá staðreynd að flokkarnir eru mikið breyttir frá því fyrir Hrun. Siðferði allt er betra og ævintýramenn og útrásarvíkingar eiga mun erfiðara með að athafna sig. Stóra málið í öllu þessu sambandi finnst mér vera að tekist hefur (hvernig svo sem farið var að því) að halda verðbólgunni nokkurn vegin í skefjum. Vextir eru að vísu háir og margt má að íslensku þjóðlífi finna. Okkur tókst að losa okkur við lukkuriddarann Sigmund Davíð og ef við getum losað okkur við Bessastaðabóndann líka þá ættu okkur að vera flestir vegir færir. Flokkakerfið sjálft og margt á alþingi er samt hrikalega gamaldags en það stendur allt til bóta. A.m.k. vil ég trúa því.

Meira að segja veðrið er farið að leika við okkur. A.m.k. þau okkar sem búum á Suðvesturhorningu. Allt vaðandi í sólskini, um hitastigið segi ég samt fátt.

WP 20150711 08 03 26 ProEinhver mynd.


2458 - Forsetakosningarnar: Guðni og Ólafur

Guðni Th. hefur notið þeirrar óvenjulegu sæmdar að fá nokkurnveginn marktæka skoðanakönnun án þess að hafa ákveðið hvort hann býður sig fram eða ekki. Þó Guðni fengi allþokkalega niðurstöðu þar kom það mér svolítið á óvart að sú útkoma var að talsverðu leyti á kostnað Andra Snæs. ÓRG kom hinsvegar ágætlega út, en fylgi hans getur hrunið hvenær sem er.

Nú heyrist að Guðni (þó ekki kusuvinurinn Ágústsson) ætli að halda blaðamannafund á fimmtudaginn. Varla þarf að minna fólk á að það er einmitt Evrópudagurinn. Hvort sem það hefur einhverja sérstaka þýðingu eða ekki. Þar að auki er það víst uppstigningardagur og kannski ætlar Guðni að stíga þá uppúr djúpunum og ráðast á drekann ÓRG. Bardagi hans við drekann ógurlega getur orðið spennandi. Vonum bara að sá veikari vinni eins og venjulega gerist í ævintýrunum.

Ólafur Ragnar Grímsson er nokkurskonar stjórnmálaleg útgáfa af lifur og lauk. Þó ég hafi ekki mikið vit á matargerð veit ég að sumir fá aldrein nóg af lifur og lauk en aðrir geta jafnvel ekki hugsað sér að smakka á þeim eðla rétti. Sama sagan er með ÓRG. Sumir elska hann en aðrir elska að hata hann.

Ekki er hægt að neita því að Ólafur kann að verða erfiður andstæðingur. Ekki er víst að hann svífist neins og misnoti forsetaembættið í kosningaslagnum eftir því sem hann getur. Gangi hann of langt í því getur það samt haft öfug áhrif. Mest er samt að marka hvernig andstæðingarnir taka því. Að því hlýtur að koma að Ólafur tapi í forsetakosningum.

Hef alltaf haft heldur lítið álit á Eiríki Jónssyni síðan hann var með þáttinn sinn á Stöð 2. Einnig á Hreini Loftssyni síðan hann gaf í skyn að hann ætlaði að hjóla í Davíð Oddsson en gerði það svo ekki. Ef Hreinn rekur Eirík er beinlínis ekkert við því að gera og eiginlega bara ágætt.

Frambjóðendur í Ameríkunni geta nú farið að halla sér. Næstu stórkosningar, fyrir utan þær á þriðjudaginn kemur í Indiana, eru að ég held í Kaliforníu í byrjun júni. Á sínum tíma (1968) var það eftir þær að Sirhan Sirhan drap Robert Kennedy. Síðan eru það flokksþingin í seinni hluta júni sem útnefna frambjóðendur stóru flokkanna endanlega. Og frambjóðendurnir tilnefna síðan varaforsetaefni sín. Að vísu þjófstartaði Ted Cruz með því að tilnefna um daginn varaforsetaefni sitt. En kannski þarf ansi mikið að gerast svo Republikanaflokkurinn tilnefni Cruz sem forsetaefni sitt. Trump er þrátt fyrir allt líklegri.

Skelfing er þetta blogg mitt að verða pólitískt orienterað. Ég ræð bara ekkert við þetta. Það er svo margt sem gerist þessa dagana. Einhver vorgalsi virðist vera hlaupinn í menn. Svo er sauðburðurinn á næstu grösum skilst mér og þá hætta sumir að sofa.

WP 20151011 09 49 17 ProEinhver mynd. (Munið að klikka á hana til fá hana skýrari.)


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband