Bloggfærslur mánaðarins, desember 2013

2086 - Hraunbæjarmálið o.fl.

Mér finnst bera mikið á hugtakaruglingi í sambandi við Hraunbæjarmálið. Vissulega er það glæpur að skjóta með haglabyssu á fólk. Þeirri staðreynd er samt ekki mikið haldið á lofti að geðsjúklingar eru ekki líklegri til að fremja ofbeldisglæpi af því tagi en aðrir. Þeirri skoðun er samt haldið að almenningi að slíkt ofbeldi sé í sjálfu sér merki um geðveiki. Svo er ekki. Geðveiki er sjúkdómur og það eina sem e.t.v. er einkennilegt við hann er að líkamleg einkenni eru ekki alltaf fyrir hendi.

Lögreglan drap mann og hvernig sem á það er litið hlýtur það að teljast glæpur. Auðvitað er hægt að réttlæta þann glæp á margan hátt. M.a. með því að með framferði sínu hafi maðurinn stefnt öðrum í stórhættu. Það líður samt einkennilega stuttur tími frá því að sérsveitin mætir á staðinn þar til ákveðið er að láta til skarar skríða og gera manninn óskaðlegan. Sömuleiðis virðast þeir hafa farið mjög ógætilega varðandi lásasmið þann sem hjálpaði þeim að opna dyrnar að íbúðinni. Sú staðreynd að mjög erfitt er að fá upplýsingar um allt sem raunverulega gerðist bendir til þess að eitthvað sé einkennilegt við þetta mál.

Að lögreglan sjálf rannsaki ásakanir um lögregluofbeldi er fráleitt. Fámenni okkar Íslendinga er slíkt að erfitt getur reynst að finna algerlega óháðan aðila til þess, en það ætti ekki síður að vera lögreglunni í hag en öðrum að svo yrði reynt af fremsta megni. Sinnuleysi opinberra aðila gagnvart geðsjúklingum er svo aðskilið mál sem kallar svo sannarlega á breytingu. 

DV elur á öfund. Það er í mörgum tilfellum alls ekki óeðlilegt að samið sé um afskriftir ef um háar fjárkröfur er að ræða. Í sumum tilfellum hefur skuldurum tekist að koma fjármunum undan en ekki er nærri alltaf hægt að vita það. Þjóðfélag okkar byggir á því að laun manna og eignir séu mismunandi. Annað er hreinn kommúnismi. Verði mismunurinn hins vegar of mikill getur það leitt af sér allskyns vandræði. Hingað til hefur þessi misumunur ekki verið mikill á Íslandi. Á árunum í kringum síðustu aldamót jókst þessi munur meira hér en á öðrum Norðurlöndum. Slíkt er óheppilegt og á ekki vel við okkur Íslendinga.

Í það heila tekið er DV götublað að mínum dómi. Jafnvel sorpblað. Slík blöð eru samt sem áður nauðsynleg. Ég er ekki í neinum vafa um það að menn vilja helst ekki lenda í þeirri grjómulningsvél sem blaðið er alltof oft. Það sem önnur blöð og fjölmiðlar vilja helst þegja um veltir DV sér gjarnan uppúr. Slíkt er illa séð af sumum, en nauðsynlegt engu að síður.

Að mörgu leyti er óviðeigandi að minnast á sjálft ríkisútvarpið þessa dagana nema ríkisstjórnin sé fordæmd um leið. Einu sinni var samt ort:

Stundar af öllu efli
Útvarpið málvöndun.
Breytir það skafli í skefli,
skatnar fá um það grun
að fréttahraflið sé hrefli
holan á kviði nefli
allt sé að ganga af gefli
glæst ert þú nýsköpun.

Ég gerði þetta semsagt ekki. Tilefnið var það að einhverju fréttaþulinum hafði orðið það á að mismjólka sig.

IMG 4947Frá Gardavatni.


mbl.is Lögreglan leitaði skjóls hjá fjölskyldu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2085 - Löggan drepur

Nú er kominn desember og óhætt að fara að velta því fyrir sér hvaða eftirmæli árið fær. Tvöþúsund og þrettán. Sennilega finnst mörgum að það sé talan þrettán sem stingur mest í augun. Þetta sé með öðrum orðum óhappaár. Í mínum augum lítur út fyrir að þetta verði árið sem Hruninu lauk og óhætt verður kannski að hætta að skrifa það með stórum staf héreftir. Kosningar voru á þessu merkisári, SDG-stjórn tók við af Jóhönnustjórninni og lögreglan byrjaði að drepa fólk. Gerðist eitthvað fleira? Ekki sem ég man eftir. A.m.k. ekki hér á Íslandi. Eitthvað hefur kannski gerst í útlandinu. Veit það bara ekki.

Einkennilega lítið er fjallað um Hraunbæjarmálið. Jú, lítilsháttar er minnst á það í helstu fjölmiðlum á netinu og kannski verður það eitthvað svolítið til umfjöllunar næstu daga, en ég er sammála Sigurði Þór um að þetta eru vissulega vatnaskil. Einu afsakanirnar sem hlustandi er á, er að þetta hafi verið alveg óvart, sem þeir drápu manninn (er sammála því að nauðsynlegt hafi verið að handsama hann) eða þeir hafi haft alveg pottþétta ástæðu til að ætla að hann mundi granda einhverjum. Það hlýtur alltaf að vera æðsta hlutverk lögreglunnar að vernda mannslíf.

Þetta með millistéttina var nokkuð snjallt hjá SDG. Flestir vilja (og þykjast) auðvitað tilheyra henni. Fáir eða engir vilja tilheyra hástéttinni sem mergsýgur almenning eða lágstéttinni sem lepur dauðann úr skel. Lífskjörin gætu verið mun betri hér á Íslandi. Skandinavíska módelið er skárra en það bandaríska, segir Jón Baldvin sjálfur. Annars keppast allir sjálfskipaðir málsvarar millistéttarinnar við að afneita honum af því hann var í graðara lagi og smyglaði meira að segja kjöti til landsins eins og aðrir.

Nú er veturinn að koma fyrir alvöru. Dimmt á morgnana og allt orðið hvítt. Vona bara að snjórinn verði ekki mjög mikill. Aðallega er það vegna þess að krapið og slabbið verður þá svo mikið þegar hann loksins fer.

Vinsælt er að skrifa allskyns ímyndaðar fréttir á netið. Má þar nefna baggalút, grefilinn og sannleikann. Stundum eru þessar fréttir fyndnar og baggalútur er einna bestur þeirra. Verst er að stundum eru grínfréttirnar svo lélegar að menn trúa þeim. Er alveg viss um að ég gleymi einhverjum enda leita ég sjaldan að slíku og læt mér yfirleitt nægja mbl.is og eyjuna. Ef ég vil endilega fá sem flestar fréttir bæti ég stundum blogggáttinni við. DV.is kíki ég stundum á ef ég vil fá fréttir matreiddar með dv-hætti og sem flestar (og lélegastar) þýðingar.

Auðvitað fer ég líka oft á fésbókina eins og flestir aðrir. Þar er mikið skrifað og sumt ekki alvitlaust. Tilbúnir og upplognir statusar eru samt algengir þar. Áskoranir um að gera slíkt einnig. Leiðist þessháttar.

IMG 4939Lögreglan á Ítalíu.


mbl.is „Lögreglan gerði allt sem hún gat“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2084 - Það er þetta með verðtrygginguna

Það er ekki ónýtt að hafa alteregó einsog Jens Guð hefur. Þeim er hægt að kenna um allskyns hugsanlegan misskilning, (sem jafnvel gæti verið rangur). Sögur hans af Lullu frænku gætu samt allar verið sannar. Hvað veit ég? Átti sjálfur svona frænku. Og auðvitað eru allar sögur sem ég gæti átt eftir að segja af henni heilagur sannleikur. Hún var reyndar kölluð Lauga eða Rúna, ég man það ekki með vissu.

Einu sinni sem oftar kom hún í heimsókn til okkar í Hveragerði. Svo þurfti hún að skreppa uppað Reykjum. Hún þekkti víst einhvern þar. Eftir því sem mamma sagði þá neyddist hún til að snúa við á miðri leið. Það var vegna þess að hún sá nokkur sauðnaut á beit. Þau eru eins og allir vita stórhættuleg. Hún kom þessvegna til baka án þess að hafa hitt nokkurn uppi á Reykjum. Reynt var að telja henni trú um að sauðnaut væri allsekki að finna á Íslandi, en það var alveg tilgangslaust. Hún hafði séð þau sjálf og þó henni væri sagt að þetta hefðu eflaust verið einhver önnur og meinlausari kvikindi, lét hún ekki telja sér trú um neitt slíkt.

Þetta var eftir að brann. Þegar brann var ég níu ára gamall. Eftir það eru allar tímaviðmiðanir frá æsku minni og uppvexti bundnar við brunann og húsum sem við bjuggum í eftir hann. Pabbi byggði strax sumarið eftir nýtt hús á rústunum af því sem áður hafði brunnið. Eiginlega man ég eftir mjög fáu frá því fyrir brunann. Kannski hafa þær minningar bara brunnið líka. Eftir á var mamma vön að miða alla atburði við brunann. Ef á nákvæmari tímasetningu þurfti að halda miðaði hún gjarnan við fæðingu okkar systkinanna.

„Það var þegar ég gekk með Sigrúnu, Ingbjörgu, Sæmund, Vigni, Björgvin eða Bjössa sem þetta gerðist.“ Sagði hún gjarnan. Reyndar var það bara Bjössi sem hún gekk með eftir brunann. Allt hafði gerst áður en brann eða eftir það.

Uppsagnirnar á RUV og pólitískur hávaði sem nóg er af um þessar mundir hefur furðulítil áhrif á mig. Tröllasögur af tölvumálum virðast heldur ekki vera áhrifamiklar. Hrunið sjálft hefur sömuleiðis sífellt minni og minni áhrif, hvernig sem á því stendur. Fjármál ríkisins eru alltaf að verða sjálfvirkari og sjálfvirkari. Síðustu ráðstafanir í þeim málum virðast einkum eiga að festa í sessi það happdrættishugarfar sem einkenndi árin fyrir Hrun og að rugla venjulegt fólk sem mest í ríminu. Vonandi verður þó mun varlegar farið nú en áður.

Ekki er fyrir það að synja að ráðstafanir þær sem kynntar voru síðasta laugardag, hafa heldur styrkt núverandi ríkisstjórn en veikt hana. Aftur á móti er margt sem veikir hana verulega og þar er hægt að nefna náttúruvernd og hnatthlýnun sérstaklega. Lögregluofbeldi virðist líka fara vaxandi og e.t.v. er það nauðsynlegt. Ísland er á margan hátt ekki nærri eins einangrað og áður var.

Stjórnmál dagsins eru háð Vodafónmálinu og breiðsíðunni frá Sigmundi Davíð. Ég held satt að segja að stefni í meiri háttar  stéttar og stjórnmálaátök í vetur. Allt er þetta tengt baráttunni við hlýnun jarðar og þær leifar efnis til orkuöflunar sem mannkynið þarfnast. Hugsanlega er enginn skilningur réttur á því máli.

Líklegast er að heimurinn muni koma til með að skiftast í eina þrjá ríkjahópa og verða þverrandi olíulindir einn helsti ásteitingarsteinninn. Rúmlega þrjúhundruð þúsund manna þjóð á sér enga von án þess að ganga einhverri fylkingunni á hönd að meira eða minna leyti. Landamæri hafa lítil áhrif nútildags.

Ómar Ragnarsson hefur oft gert fötluðu stæðin, sem mér finnst reyndar allof mikið af, að umtalsefni. Sjónarmið mín er afar lík hans. Eflaust leggur hann aldrei í fatlað stæði. Það geri ég ekki heldur. Frekar mundi ég ganga svona einn kílómeter en leggja í fatlað stæði. En er það nóg? Er það ekki bölvuð sjálfselska að hugsa bara um sig? Ég hugsa að ég mundi aldrei fara að jagast í öðrum útaf misnotkun á slíkum stæðum. Þó veit ég það ekki. Kannski mundi ég bara leggja sjálfur í svona stæði ef ég gæti réttlætt það fyrir sjálfum mér.

IMG 4873Á Markúsartorgi.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband