1773 - Sælgæti, prófkjör o.fl.

Einhversstaðar sá ég því haldið fram um daginn að Íslendingar kynnu ekki að umgangast sælgæti. Trúlega er það rétt. Yfirleitt þykir mér „gott“ ekki gott. Samt er ég alltof feitur. Líklega væri ég enn feitari ef mér þætti „gott“ gott.

Fyrir einu eða tveimur árum var ég staddur í N1-verslun og fór af einhverjum ástæðum að kynna mér verð á sælgæti. Þá komst ég að því að á laugardögum væri 50% afsláttur á öllu slíku. Man að ég velti fyrir mér hver álagningin væri þá aðra daga. (Sagt er að hún sé 65% á nammidögum en 300% aðra daga.) Um svipað leyti varð ég vitni að ótrúlegum hamagangi og útbíun gólfs á sælgætisgangi í stórmarkaði. Á laugardegi – auðvitað. Blöskruðu mér þau læti mjög.

Hvað á eiginlega að segja við krakkagreyin sem halda að þetta ástand sé eðlilegt. Laugardagar eru engir sérstakir nammidagar þó sumir haldi það.

Bandaríkjamenn hafa tekið tæknina í þjónustu sína við manndráp. Svokallaðar fjarstýrðar flugvélar (drones) fljúga yfir lönd og landssvæði sem þeim er illa við og varpa sprengjum. Þessar sprengjur drepa oft saklausa borgara þó þeim sé auðvitað ætlað að drepa hryðjuverkamenn eingöngu. Saklausir Bandaríkjamenn (og jafnvel allt vestrænt fólk) fær að gjalda þess sem þarna er framkvæmt með hatri fólks sem býr á viðkomandi svæðum og þeirra sem það styðja.

Með þessu er ég alls ekki að mæla bót æsingi múslima yfir framkvæmd málfrelsis í vestrænum löndum. Þeir vilja ekki skilja að stjórnvöld eru að mestu áhrifalaus varðandi móðganir (að þeirra mati) í fjölmiðlum.

Séra Egill talar um það á bloggi sínu http://eyjan.pressan.is/silfuregils/ að lítið sé talað um stjórnarskrármálið í opinberri umræðu. Það getur vel verið að stjórnlagaráðsmenn tali meira um það mál en aðrir og að Egill sé nýrri stjórnarská í raun hlynntari en hann lætur. Langathyglisverðast í umræðunni um hana er samt að Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins skuli í raun skora á sína menn að kjósa. Sjálfur segist hann að vísu ætla að segja nei við fyrstu spurningunni og það sama ætlar öfgahægrimaður eins og Jón Valur Jensson  að gera.

Samkvæmt mínum skilningi reyndi Halldór Ásgrímsson að tosa Framsóknarflokkinn til hægri því honum fannst Steingrímur Hermannsson hafa sveigt hann of mikið til vinstri. Þeir sem síðan voru prófaðir í stöðuna vissu ekki hvort heppilegra væri fyrir flokkinn að vera hægri eða vinstrisinnaður. Sigmundur Davíð hefur undanfarin ár sveigt hann verulega til hægri þó hann hafi staðið að því með öðrum að koma Jóhönnu Sigurðardóttur og Samfylkingunni til valda. Höskuldur Þórhallsson er að ég held mun vinstrisinnaðri en Sigmundur Davíð og á margan hátt er yfirvofandi stríð í flokknum mjög athyglisvert.

Vandamálið með prófkjörin er aðallega það að auðvitað ættu þau öll að fara fram á sama tíma og sama stað. Flokkarnir ættu alveg að geta sætt sig við það og með því væri með öllu komið í veg fyrir flakk það sem viðgengist hefur. Í öðru lagi ættu þeir sem bjóða sig fram að vera skyldugir til að bjóða sig fram í öll sætin. Hverju síðan er haldið fram í baráttunni er annað mál. Kjördæmaskiptingin í Reykjavík er síðan svo heimskuleg að ég ræði hana ekki. Sýnir samt vel hvernig flokkarnir starfa.

Stjórnmál og fésbók eru að verða mínar ær og kýr. Myndirnar á fésbók er að gera mig gráhærðan. Úps. Það er víst einhver önnur ástæða... Eftirfarandi status kom frá fésbókaraðila sem á uppundir 200 vini þar (þar á meðal mig) :“Myndin í gær var alveg ágæt.“ Þetta olli mér (og kannski fleirum) heilmiklum heilabrotum og ég ætla ekkert að fara nánar útí fésbókina hér og nú.

Hló mikið þegar ég las á RUV.IS um slunkunýja seríu með Andra á flandri. Auðvitað er þetta bara innsláttarvilla en mér fannst hún fyndin. Orðið slunkuný er ágætt orð.

IMG 1635Húsasmiðjan?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér þykir gott mjög gott, borða mikið af því og er tágrannur og fínn. Reyndar borða ég aldrei nammi um helgar, bara virka daga

DoctorE 28.9.2012 kl. 14:50

2 identicon

Mikið er ég sammála þér með fyrirkomulag prófkjöra og með ólíkindum, að flokkarnir skuli ríghalda í það rugl, sem núna viðgengst. Með því er stjórnmálastéttin að blekkja bæði sjálfa sig og okkur hin. - Mér finnst líka ljóður á ráði annars ágætra tillagna stjórnlagaþings um nýja stjórnarskrá, að þar sé haldið í úrelt kjördæmaskipulag. Gallarnir við það eru svo svimandi margir, að það ætti að vera í raun óþarfi að rekja það. Fyrir nú utan að það að hafa landið allt eitt kjördæmi, gerir talningu atkvæða mun einfaldari og meiri líkur á að almenningur treysti atkvæðagreiðslum og talningum, en með því flókna fyrirkomulagi, sem enginn skilur annar en prófessor Þorkell Helgason, er fræjum tortryggni sáð.

Ellismellur 28.9.2012 kl. 20:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband