Bloggfærslur mánaðarins, október 2011

1496 - Páll Magnússon (ekki útvarpsstjóri)

Alveg síðan haustið 2007 hef ég bloggað mjög reglulega og næstum því á hverjum degi. Auðvitað hafa komið hlé öðru hvoru. Lengi vel var það vani hjá mér að hafa blogg tilbúið fyrir miðnætti og setja það svo upp rétt eftir þau tímamót. Þessu er ég hættur og blogga nú bara eftir behag.

Þetta „behag“ er dönskusletta en núorðið skilja víst fáir slíkt. Enskuslettur eru meira í tísku. Slettur auðga málið og það eru bara afdankaðir sérvitringar sem berjast á móti öllu þessháttar. Mestu máli skiptir að þeir sem lesa skilji það sem skrifað er.

En áfram með sprokið. Lítið fréttablogga ég (finnst mér) og tengi sjaldan í vinsælar fréttir eins og sumir stunda. Fylgist samt nokkuð vel með fréttum og hef af sumum verið kallaður fréttasjúkur. Síbloggandi er ég, en hef lítið að segja. Talsverður tími fer í bréfskákirnar sem ég tefli jafnan á netinu. Þar fyrir utan flækist ég víða um netið og les og skoða allt mögulegt og sit yfirleitt meira við tölvuna en góðu hófi gegnir.

Einhverntíma á síðustu öld, líklega svona um 1970, vorum við hjónin ásamt strákunum okkar af einhverri tilviljun stödd á Austurvelli þegar þing var sett. Þá gengu þingmenn og fleiri í virðulegri prósessíu frá Dómkirjunni, að aflokinni messu þar, að aðaldyrum þinghússins. Segir þá Benni skyndilega og að því er virðist uppúr þurru og bendir: „Nei, sjáið fuglana.“ Allir nærstaddir heyrðu þetta og höfðu gaman af. Áreiðanlega var þetta eina áreitið sem halarófan varð fyrir að þessu sinni. Benni var reyndar ekki að benda á þingmennina og fugla þá sem þeim fylgdu, heldur fuglager eitt mikið sem flaug fram og aftur yfir Tjörninni.

Einhver hélt því fram í Kastljósinu að Páll Magnússon væri heppilegri en aðrir í stöðu forstjóra bankasýslunnar og reyndi að útskýra hversvegna svo væri. Þær útskýringar voru lélegar og mannaumingjanum leið illa að þurfa að halda öðru eins fram. Spillingarfnykurinn af þessari ráðningu finnst langar leiðir.

IMG 6823Á Seltjarnarnesi.


1495 - Appaðu þig í gang

Meðan aðalvandamálin eru hvernig á að appa sig yfir alla erfiðleika og hvað nýi snjallsíminn og i-padinn eru dýrir finnst mér með öllu óþarft að henda eggjum og öðru lauslegu í þá sem sannanlega eru að reyna sitt besta.

Mér finnst margt annað meira aðkallandi en finna íslenskt orð yfir app-skrípið. Kannski er það orðið mjög algengt að tala um að appa allan andskotann en það hefur þó ekki flækst fyrir mér hingað til, en auðvitað er ég orðinn gamall og hættur að fylgjast með.

App er greinilega ensk stytting úr orðinu application. Það getur meðal annars þýtt forrit eða eitthvað þess háttar. App er sennilega notað yfir forritsbúta sem settir eru í nýjustu gerðir farsíma, sem hægt er að komast á netið með. Með því að keyra appið á símanum er hægt að virkja applicationina á netinu og gera eitthvað ákveðið.

Það er svo enskur siður að auðvelt er að breyta nafnorðum og jafnvel styttingum í sagnorð. Vel getur verið að appið sigri að lokum, en ég er orðinn svo vanur að orða hugsum mína á annan hátt að ég held að ég komist alveg hjá því að nota þessa sögn. 

Þannig lít ég á þetta mál, en auðvitað getur verið að þetta sé tóm vitleysa. Auglýsinguna frá Neinum skil ég ekki almennilega. Sennilega er heldur ekki ætlast til að nema sumir skilji hana.

Aðalrifrildisefnið núna virðist vera verkfall sinfóníuhljómsveitarinnar eða réttara sagt fagn Sambands Ungra Sjálfstæðismanna útaf því. Það er lúxus að geta verið algjörlega hlutlaus í einhverju. Ég er það eiginlega í þessu efni. Hversvegna í fjáranum er ég þá að skrifa um það? Veit ég ekki að það er í tísku að hafa skoðun á þessu? Ég hef hana bara ekki. Því miður.

Ég er alinn upp við andstyggð á sinfóníugargi í útvarpinu, en get í mesta lagi fundið að því hvernig nefnd hljómsveit er fjármögnuð en ekki fjármögnuninni sem slíkri. Það er einfaldlega ekki möguleiki fyrir hana að fjármagna sig sjálf. Ef við Íslendingar viljum endilega vera sá menningarlegi útkjálki sem fjöldi okkar segir til um, ætti að leyfa okkur það ef meirihlutinn kýs svo.

IMG 6816Litadýrð á leikvelli. Perlan í baksýn.


1494 - Neyðarlög

Í Ölfusinu bjuggu eitt sitt tveir ungir menn. Eldri bróðirinn var stundum nefndur broddskita. Enga hugmynd hef ég um hvernig það viðurnefni var til komið. Bróðir hans sem ég man eftir við skólann í Hveragerði var oftast kallaður broddskitubróðir. Hann var ekki í sama bekk og ég, en umgekkst okkur samt nokkuð. Man alls ekki hvað hans rétta nafn var, en það hef ég þó örugglega vitað. Strákgreyinu líkaði nafnið auðvitað stórilla og nú til dags hefði háttalag af þessu tagi verið kallað einelti og skólastjóra og kennurum borið skylda til að reyna að koma í veg fyrir það.

Í skólanum varð ég fyrir lítilsháttar einelti, en af því ég gat svarað fyrir mig var ég tekinn í klíkuna. Sú klíka stundaði einelti gagnvart öðrum (sérstaklega krökkunum úr sveitinni) og stóð ég mig nokkuð vel þar. Sá til dæmis til þess að nafngiftirnar „Ingi lús“ og „broddskitubróðir“ væru í stöðugri notkun. Ef til líkamlegs ofbeldis kom reyndi ég þó að halda mig fjarri, því ég var ekki góður í slíku og hræddur við það.

Þegar ég bjó að Vegamótum á Snæfellsnesi (1970 til 1978) fór ég eitt sinn á bændafund eða eitthvað þess háttar sem haldinn var á Breiðabliki. Þar held ég að flestir bændur úr sveitinni hafi verið. Þar var t.d. Gunnar Guðbjartsson á Hjarðarfelli sem þá var formaður Stéttarsambands bænda.

Hann skýrði m.a. frá því að samkvæmt lögum væri leyfilegt að flytja út allt að 10 prósentum af framleiðslumagni hverrar búgreinar. Allir vissu samt að miklu meira en 10% af dilkakjöti var flutt út (með ærnum útflutningsbótum) enda nálgaðist sláturfé hvers árs um þetta leyti eina milljón og sláturhús voru mörg. Hann sagði að lögin væru einfaldlega túlkuð þannig að ef útflutningur einhverrar búgreinar væri minni en 10% af framleiðslunni (mjólk, ostar, smjör, egg o.s.frv.) mætti bæta svipuðu verðmæti við útflutning annarrar búgreinar (dilkakjöts í þessu tilfelli) Þessi túlkun væri þó umdeild og ekki víst að hún héldi endalaust.

Í hæstarétti var einhverju sinni kveðinn upp dómur í máli vegna skyldu til greiðslu gjalda af allri búvöruframleiðslu til búnaðarfélaga eða einhverra félaga sem samtök bænda réðu yfir. Því var haldið fram að þetta samræmdist ekki eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Dómur hæstaréttar studdi málstað bændasamtakanna og ég man að ein röksemdin sem tilfærð var í úrskurði réttarins sneri að því að alltof kostnaðarsamt væri fyrir ríkissjóð að endurgreiða slíkt aftur í tímann ef dæmt væri samtökunum í óhag.

Þetta er að mörgu leyti sama sjónarmiðið og flestir gera ráð fyrir að verði ráðandi hjá réttinum varðandi neyðarlögin svonefndu. Ég held aftur á móti að rétturinn hafi þroskast svo að ekki sé horft á hvað er erfitt eða óframkvæmanlegt fyrir ríkið að gera, heldur hvað beri að gera lögum samkvæmt.

Á útvarpi Sögu og víðar er mikið rifist um hve margir hafi verið á mótmælunum um helgina. Þetta er hefðbundið. Einnig er rifist um hverjir hafi flutt bestu ræðurnar á Alþingi í gærkvöldi. Mér fannst Jóhanna betri en oftast áður, Steingrímur Jóhann fjarri sínu besta, en Guðmundur Steingrímsson fannst mér flytja ræðu sína best. Fylgdist þó ekki með öllum ræðunum. Missti t.d. af ræðu Vigdísar Hauksdóttur sem margir telja að hafi verið afar skrautleg. Alls ekki er þó víst að ræðumennska sé best til þess fallin að meta gæði þingmanna og stjórnenda.

IMG 6798Kópavogskirkja.


1493 - Páll og Jónas

Tveir af allra orðljótustu og æstustu bloggurum sem um stjórnmál skrifa eru Páll Vilhjálmsson og Jónas Kristjánsson. Báðir eru allgóðir pennar og hafa þónokkra reynslu í stjórnmálaskrifum. Ég get ekki að því gert að ég met Jónas miklu meir. Finnst hann skrifa af mikilli þekkingu um mál en  Páll reyna að ganga sem allra lengst í orðhengilshætti og ógeðslegum níðskrifum. Les ekki alltaf það sem hann skrifar að vísu. Af Moggabloggurum er hann samt mjög vinsæll og mikið lesinn. Flaggar því líka óspart og þykist vita alla hluti. Skrifar oft á dag og gætir þess jafnan að linka í vinsælar fréttir.

Það eru að vísu margir sem reyna að ganga eins langt og hann í ESB og Jóhönnu níði. Þetta er það sem mér finnst og vel getur verið að mörgum finnist Jónas ganga mjög langt í hina áttina. Ekki finnst mér það samt.

Útvarp Saga (Pétur Gunnlaugsson) segir að ESB standi nú frammi fyrir þeim stærsta vanda sem það hefur nokkru sinni gert. ESB er meira en evran og fjármálalegt samstarf. Fjármálalega séð er líklegt að vandinn nú sé stór og ekki skal ég draga úr að í því kerfi sem búið er við, skipta fjármálin miklu. Þau þurfa þó ekki að skipta öllu máli, nema svo sé ákveðið. Bankana þarf ekki endilega að reka á þann hátt sem gert er.

Á sínum tíma gerðu kaupfélögin útaf við kaupmennina sem mergsugu bændur. Síðan fóru þessi sömu félög að drepa af sér alla samkeppni og urðu ríki í ríkinu áður en þau liðu víðast hvar undir lok. Á sama hátt og kaupmennirnir hér áður fyrr urðu að gefast upp fyrir kaupfélögunum (samtökum fólksins) held ég að fjármálastofnanirnar og bankarnir þurfi e.t.v. að leggja upp laupana ef fólk sameinast gegn þeim.

Það fólk sem staðið gæti fyrir slíku hér á Íslandi er til. Þann eldmóð og þá framsýni sem einkenndi upphaf samvinnuhreyfingarinnar hér á landi er enn hægt að finna. Samvinnuhreyfingin sótti sér fyrirmyndir til Bretlands. Enn held ég að læra megi af útlendingum. Nýjungar í bankastarfsemi er víða verið að prófa. Eitthvað af því gætum við Íslendingar tekið upp.

IMG 6750Blóm


1492 - Stagley

Á blaðsíðu 10 í því tölublaði Spegilsins sem út kom 23. janúar árið 1943 er þessi klausa:

Fyrir Alþingi liggur frumvarp um sölu á Stagley á Breiðafirði,

og er það Flateyjarhreppur, sem vill kaupa. Vér vonum innilega,

að Alþingi SPEGILSINS sjái sér fært að drauja þessu þannig til,

að það sjálft verði kaupandinn, því að einmitt í þessari eyju ætti það

að vera og hvergi annnarsstaðar.

Úr þessu varð ekki og enn staglast alþingismenn afturábak og áfram á því sem ætti að vera fljótsagt eða jafnvel ósagt.

Spillingin hér á Íslandi er mikil. Hún er að ýmsu leyti falin og sumir trúa því að hún sé lítil. Meðal annars er það vegna þess að hún mælist illa í sumum alþjóðlegum könnunum. Það segir þó ekki neitt um spillinguna, en hugsanlega heilmikið um kannanirnar. Pólitísk spilling og smákóngaveldi grasserar hér á landi ef við hugsum okkur um. Við erum bara orðin svo vön henni að okkur finnst hún eðlileg. Þegar við segjum að útlendingar séu ekki búnir að aðlagast íslensku kerfi (tungumáli) fyrr en eftir talsverðan tíma þá meinum við í rauninni (og þeir líka) að þeir séu ekki búnir að sætta sig við hina íslensku spillingu.

Á ýmsan hátt höfum við Íslendingar þó bætt lífskjör okkar umfram aðra og er það auðvitað jákvætt fyrir okkur, en stundum neikvætt fyrir aðra.

Ef ég byrja á heimsstyrjöldinni síðari þá voru Evrópubúar (og reyndar fleiri) á þeim árum uppteknir við að drepa hvern annan og við það hækkaði matvælaverð. Það nýttum við Íslendingar okkur og græddum vel á styrjöldinni meðan flestir aðrir töpuðu miklu á henni. Auðvitað urðum við Íslendingar líka fyrir barðinu á styrjöldinni og heimskreppunni sem á undan henni fór. Í Bretavinnunni var okkur svo kennt að svíkjast um.

Bandaríki Norður-Ameríku fóru líka ágætlega út úr styrjöldinni því lítið var barist þar. Þeir komu á fót svonefndri Marshall-aðstoð og reistu Evrópu í úr rústum með henni. Við Íslendingar nutum líka góðs af þeirri aðstoð.

Upp úr 1960 þegar stríðsgróðinn var að mestu horfinn var farið í það hér á Íslandi að minnka höftin og skömmtunina sem ríkisstjórnin hafði komið á í stríðinu. Flestar aðrar þjóðir voru þá búnar að því fyrir löngu.

Öllu sparifé í landinu var um þetta leyti stolið frá þeim sem það áttu. Þetta var gert með óðaverðbólgu og þegar spariféð var búið var verðtryggingin fundin upp svo hægt væri að halda áfram að stela.

Næst var fiskinum í sjónum stolið og gefinn helstu gæðingum smákónganna. Hægar gekk að stela öðrum auðlindum landsins og því var gripið til þess ráðs að stela einnig frá útlendingum. Telja þeim trú um að á Íslandi mundi fljótlega rísa upp fjármálamiðstöð heimsins.

IMG 6746Illilegt blóm.


1491 - "Nú er ekki meiri rjómi"

Hjól réttlætisins mala hægt, en við verðum að vona að þau mali rétt. Við höfum komið okkur upp kerfi sem við köllum lýðræði. Á því eru gallar. Eggjakast og annað líkamlegt ofbeldi lagar ekki þá galla. Kosningar geta gert það en þeir sem þar verða undir verða þá að sætta sig við það. Ef við treystum ekki dómstólunum og því kosningakerfi sem við höfum komið okkur upp er lýðræðið í mikilli hættu. Traust á dómstólunum er ein af grundvallarforsendunum fyrir virkni kerfisins.

Samtök allskonar reyna auðvitað að hafa áhrif á stefu ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma. Við því er ekkert að segja. Fjölmiðlarnir eiga ekki bara að segja frá. Þeir eiga ekki síður að útskýra mál fyrir fólki og mennta það. Þeir virðast þó flestir hafa einhver pólitísk markmið. Kannski er það eðlilegt meðal annars vegna þess að fjárhagsleg áhrif á þá koma frá aðilum sem vilja e.t.v. ekki að fjölmiðlarnir sinni sínu hlutverki.

Ríkisfjölmiðlarnir eiga að vera óháðir markaðnum. Þeir eiga ekki að þurfa að styðja ríkisstjórnir á hverjum tíma og samt að vera nægilega fjársterkir til að taka sjálfstæðar ákvarðanir. Þeir eiga ekki að taka þátt í froðusamkeppni við aðra fjölmiðla.

Alþingi er nánast óstarfhæft. Meðal annars er það vegna stórgallaðra þingskapa. Lög þaðan eru líka oft gölluð, og flokkarnir sem þar starfa eru gallaðir,  Von margra er að nýir flokkar og ný stjórnarskrá ráði bót á þessum göllum.

Með Sprengisandinum, sem er útvarpsþáttur á sunnudagsmorgnum á Bylgjunni, er Sigurjón Egilsson á margar hátt að reyna að taka yfir stjórnmálaumræðuna sem Egill Helgason hefur hingað til haft næstum einokun á í Silfri sínu (Sem nú er á RUV). Margt er gott um Sprengisandinn að segja og fullyrða má að stór hluti stjórnmálaumræðunnar eigi mun betur heima í útvarpi en sjónvarpi.

„Nú er ekki meiri rjómi.“ Sagði Stefán Jón Hafstein í Silfrinu í dag og telur hið íslenska spillingar- og smákóngakerfi sem ríkt hefur allar götur frá lokum síðari heimsstyrjaldar (og reyndar lengur) ekki eiga framtíð fyrir sér. Auðvitað er samt á margan hátt þægilegra að eyða og spenna eins og við höfum gert. Einhverntíma hlýtur því tímabili samt að ljúka og kannski er einmitt rétti tíminn núna. Lífskjörin á Íslandi þurfa að vera í samræmi við það sem landið býður uppá.

IMG 6744Sígarettustubbur.


1490 - Skrílslæti frá hægri

Ekki er vafi á því að skrílslætin við Alþingishúsið í dag er vel hægt að kalla skrílslæti frá hægri. Það sem mönnum er eflaust ferskast í minni er búsáhaldabyltingin sjálf og hana má með svipuðum rétti kalla skrílslæti frá vinstri.

Ofbeldi af því tagi sem haft var í frammi þá og nú er alls ekki víst að þjóni þeim málstað sem mótmælendur telja sig vera að styðja. Ríkisstjórnin féll að vísu í kjölfar búsáhaldabyltingarinnar en mótmælin í dag gætu alveg eins styrkt núverandi ríkisstjórn í sessi. Það eru einfaldlega flokkarnir og fámennar stofnanir þeirra sem ráða þessu. Þetta er það kerfi sem við höfum komið upp og við það situr. Við getum að vísu kosið það í burtu en ekki er víst að við gerum það.

Stuðningsmenn ESB virðast sumir vera að missa trúna á að núverandi viðræður leiði til aðildar. Það kann að vera rétt mat að því leyti að núverandi stjórnarmunstur sé ekki hagstætt aðild. Þess vegna má gera ráð fyrir að alþingiskosningar verði á undan þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild. Óvíst er með öllu hvernig þær alþingiskosningar muni fara. Trúlegt er að ný framboð komi fram.

Fjórflokkurinn óttast mjög um sinn hag og mun eflaust gera einhverjar tilraunir til að komast hjá kosningum. Talsverð breyting er að verða á fylgi hans. Skoðanakannanir geta auðvitað ekki mælt fylgi framboða sem ekki hafa ennþá orðið til.

Undarlegt er að ekki er mikið rætt um neyðarlögin sem gert er ráð fyrir að hæstaréttur fjalli um fljótlega. Ég er svo einkennilega innréttaður að ég hef alla tíð haft illan bifur á þessum svonefndu neyðarlögum og á fastlega von á að hæstiréttur dæmi þau ólögleg og í andstöðu við stjórnarskrána.

Afleiðingar þess gætu orðið miklar. Flestir virðast leiða hjá sér að horfa á það ástand sem þá mundi skapast. Einfaldlega vegna þess að slíkt er svo óþægilegt. Vitanlega er ég líka í þeim hópi sem vonar að neyðarlögin haldi.

IMG 6693Umferðarmannvirki.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband