1238 - Jólahald o.fl.

Svo því sé aflokið þá ætla ég bara að segja hér álit mitt á Icesave og skrifa síðan um eitthvað skemmtilegra. Núverandi samningur verður samþykktur og Ólafur Ragnar mun undirrita lög þar að lútandi, með einhverjum semingi þó. 

Ástæðan fyrir því að hann mun skrifa undir er sú að Bjarni Benediktsson og flestallir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins á Alþingi munu samþykkja samninginn. Þar með mun ríflegur meirihluti þingmanna gera það. Þetta verður þó ekki fyrr en undir lok janúarmánaðar og síðan mun stjórnlagaþingið koma saman í framhaldi af því.

ESB samkomulag mun nást áður en kjörtímabilinu lýkur. Ríkisstjórnin mun springa í framhaldi af því og alþingiskosningar verða sumarið 2012.

Af öllum þeim hávaða sem orðið hefur útaf hjásetu þriggja þingmanna VG nú nýlega virðist mér það sitja eftir að þó þeir séu á móti stefnu ríkisstjórnarinnar í ýmsum þýðingarmiklum málum kæra þeir sig hreint ekki um að núverandi stjórnarsamstarf taki enda. A.m.k. ekki að sinni.

Þá er því lokið og gjarnan mundi ég vilja lýsa því yfir að meira verði ekki fjallað um stjórnmál á þessu bloggi í bráðina. En pólitíkin er undarleg tík og vel getur verið að þróunin verði þannig að mér finnist nauðsynlegt að láta ljós mitt skína.

Um mína æfi hef ég aðeins haldið jól á þremur stöðum ef svo má segja. Fjórða staðnum get ég ómögulega munað eftir.

Fyrstu æviárin hélt ég auðvitað jól í foreldrahúsum, en svo brann húsið heima í byrjun desember þegar ég var níu ára. Hvar ég hélt jólin í það skipti man ég alls ekki.

Strax næsta sumar var nýtt íbúðarhús byggt á sama stað og það gamla hafði verið og síðan var haldið áfram með jólahald þar að sjálfsögðu. Nýja húsið er samt að Hveramörk 6 og í rauninni heitir það ekki Bláfell.

Man ekki nákvæmlega hvenær það var en seinna fórum við Áslaug að halda jólin með börnunum okkar. Áttum vissulega heima á ýmsum stöðum en jólin fylgdu okkur ævinlega.

Frá og með 2008 hef ég síðan haldið jól hjá dóttur minni á Akranesi. Það er að segja að þar hefur kvöldmaturinn verið borðaður á aðfangadagskvöld og pakkarnir teknir upp.

Það góða við fésbókina er að hver og einn notar hana á sinn hátt og það þarf ekkert að trufla aðra. Að svo margir skuli vera tengdir henni í einu er líka mikill kostur.

Stóra málið varðandi öll skrif er fyrir hvern eða hverja maður er eiginlega að skrifa. Ég er búinn að blogga svo lengi að mér finnst ég vera farinn að þekkja vel minn lesandahóp. Auðvitað geri ég það samt ekki.

Óþarfar útskýringar eru það sem mér leiðist mest þegar ég les. En ég er ekki aðrir. Kannski leiðist öðrum það ekki nærri eins mikið og ég held ef ég gerist langorður og fer að útskýra sjálfsagða hluti.

Það er lítill vandi að vaða elginn. En að skrifa þannig að aðrir nenni að lesa, það er galdurinn. Ég er ekki að segja að ég hafi höndlað þann galdur en mér finnst ég vera farinn að skilja hann.

„Beautiful nonsense" var það kallað sem rithöfundar á borð við Henry Miller og William S. Burroughs létu frá sér fara um miðja síðustu öld. Semsagt skelfilegt bull en þó læsilegt. Vitanlega las ég margt eftir Henry Miller (sem auðvitað má ekki rugla saman við leikskáldið Arthur Miller) á árunum í kringum 1960 en það var aðallega vegna klámsins.

Slíkt var mikil bannvara í þann tíð og þó norðmaðurinn Agnar Mykle yrði frægur fyrir hina klámfengnu bók sína sem kölluð var Söngurinn um Roðasteininn (Sangen om den röde rubin) var hann ekki nærri eins hugmyndaríkur og Miller. Henry Miller var þannig rithöfundur að hann skrifaði hvað sem honum datt í hug hvort sem það var klámfengið eða ekki.

Ég reyndi líka að lesa bækur eftir Burroughs en fannst hann ekki nærri eins merkilegur og Miller. Fyrst í stað ruglaði ég honum líka saman við rithöfundinn Edgar Rice Burroughs sem skrifaði hinar frægu og sívinsælu Tarzan-bækur.

IMG 3781Strandlengjan við Fossvog (Reykjavíkurmegin).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Þótt maður geti vaðið elginn ..  veður maður þó ekkert yfir elginn..

Óskar Þorkelsson, 22.12.2010 kl. 08:30

2 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Ég er efins um að sjálfstæðismenn kjósi með Icesave, og fullvíst er að framsókn og hreyfingin munu kjósa gegn.  Forsetinn er óútreiknanlegur en ef hann vill vera sjálfum sér samkvæmur mun hann ekki skrifa undir.  Svo veit maður ekki hvað "órólega deildin" gerir.

Axel Þór Kolbeinsson, 22.12.2010 kl. 09:31

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Óskar, elgir geta verið mismunandi. Lifandi elgi er ég hálfhræddur við.

Sæmundur Bjarnason, 22.12.2010 kl. 12:32

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Axel, órólega deildin verður óskaðleg ef BB gerir eins og ég segi honum. ÓRG er illútreiknanlegur, það er rétt. En er hann að hugsa um eitt kjörtímabil ennþá. Það veit ég nefnilega ekki.

Sæmundur Bjarnason, 22.12.2010 kl. 12:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband