Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

508. - Svolítið um Bjarna Harðarson og almennar hugleiðingar um stjórnmál

Jæja. Brátt varð um þingmennskuna hjá Bjarna frænda mínum Harðarsyni. Ég átti nokkurn þátt í að koma honum ofarlega á lista framsóknarflokksins á Suðurlandi á sínum tíma og hann kemur til með að hafa hreinni skjöld en margur annar í næstu kosningum. Það er mannsbragur að því hjá honum að segja af sér strax.  

Hugsanlegt er að útúr öllu því sem nú gengur á í þjóðfélaginu komi eitthvað gott að lokum og betra en sú græðgi og það taumleysi sem gegnsýrt hefur þjóðlífið undanfarið. Endurmat á öllu mögulegu mun nú fara fram. Gömlu gildin um heiðarleika, nægjusemi, dugnað og ósérhlífni verða aftur verðmæt. Það er ekki auðvelt að taka á sig verulega lífskjaraskerðingu en það verðum við Íslendingar augljóslega að gera núna. Mest vorkenni ég börnunum sem vanist hafa á að fá allt upp í hendurnar en verða núna allt í einu að fara að hafa fyrir hlutunum.

Ráðherrar eru smám saman að hrifsa til sín allt vald í þjóðfélaginu og það er Alþingi til stórskammar að láta það viðgangast. Jafnvel dómarar fá ekki að vera í friði fyrir ráðherrum. Þrískiptingu valdsins á að halda í heiðri. Alþingi fer með fjárveitingarvaldið og löggjarfarvaldið og þingmenn eiga ekki að líða það að ríkisstjórnin fleygi í þá frumvörpum og skipi þeim að samþykkja þau. Mesta vandamálið er flokkshollustan svokallaða. Stefna flokksins í einstökum málum er oftast ákveðin af formanni og stjórn þó svokölluð flokksþing sem haldin eru endrum og eins séu látin samþykkja drög sem hægt er að teygja og toga að vild eftirá.

Það er sjálfhætt hjá mér með að hafa niðurlag hverrar greinar um spillingarliðið. Ólína sjálf er hætt þessari vitleystu sem kannski var engin vitleysa.


507. - Vísnablogg númer ég veit ekki hvað

Líklega er kominn tími á nýtt vísnablogg. Vonandi hef ég ekki birt áður þær vísur sem hér koma.

Anna ber af öllum.
Hún ætti að búa í höllum.
Hjá henni vil ég vera
og vefja hana örmum bera.
Væta hana tittlingstári
200 sinnum á ári.

Þessi er gömul og góð. Eiginlega fjandi sniðug.

Harðna tekur tíðarfar
Teresía spáir byl.
Hver sem verður tittlings var
veiti honum skjól og yl.

Það var laust eftir 1950 sem ég sá þessa vísu í gestabók í skála Skátafélags Hveragerðis í Klambragili. Nokkru fyrr hafði Teresía Guðmundsdóttir verið veðurstofustjóri Íslands og við hana er að sjálfsögðu átt í vísunni.

Mér er sem ég sjái hann Kossuth
með svipu í hendi reka hross út.
Sína gerir hann svipu upp vega
séraStefánáMosfellilega.

Einhvern tíma skrifaðist ég á við Ungverja. Hann var alveg bit á því að ég skyldi kannast við Kossuth. Það var reyndar bara útaf þessari vísu. Síðasta ljóðlínan er snilld.

Enginn grætur Íslending
einan sér og dáinn.
Þegar allt er komið í kring
kyssir torfa náinn.

Þessa þekkja flestir. En hún er ekkert verri fyrir það. Ég man ekkert hver orti þetta né um hvern það er.

Nú er hlátur nývakinn
nú er grátur tregur.
Nú er ég kátur nafni minn
nú er ég mátulegur.

Þetta er einhver frægasta drykkjuvísa Íslandssögunnar. Oft er þetta sungið af mikilli tilfinningu.

Tunnan valt og úr henni allt
ofan í djúpa keldu.
Skulfu lönd og brustu bönd
en botngjarðirnar héldu.

Keldan sem kemur við sögu í þessari vísu ku vera svokölluð biskupskelda á Leggjabrjótsleið sem liggur frá Hvalfjarðarbotni til Þingvalla.

Ég vildi ég mætti vera strá
og visna í skónum þínum.
Léttast gengirðu eflaust á
yfirsjónum mínum.

Þessa fallegu ástarvísu er sagt að Páll Ólafsson hafi ort til konu sinnar. Í þá tíð var alsiða að fólk setti heyvisk í skó sína svo þeir entust lengur.

Man ég okkar fyrsta fund
forn þó ástin réni.
Nú er eins og hundur hund
hitti á tófugreni.

Sagt er að þessi vísa sé eftir Vatnsenda-Rósu og sé ort til valdsmanns sem Rósa átti að hafa þekkt vel þegar hún var yngri.

Komdu nú að kveðast á,
kappinn ef þú þorir.
Látum ganga ljóðaskrá
ljóst þar til að vorir.

Á þennan hátt eða svipaðan var oft byrjað þegar kveðast skyldi á. Það að kveðast á var íþrótt sem mikið var stunduð áður fyrr. Ávallt skyldi næsta vísa byrja á sama staf og sú síðasta endaði. Leyfilegt var að búa vísurnar til jafnóðum og höfðu því snjallir hagyrðingar umtalsvert forskot í þessari íþrótt.

Ég hef farið margs á mis
mín er lítil saga.
Ég hef götur gjálífis
gengið alla daga.

Þessi vísa er eftir Egil Jónasson frá Húsavík og þá eru vísurnar orðnar tíu og ég hættur.

Burt með spillingarliðið.


506. - Bretar hafa komið mjög illa fram en málstaður þeirra er ekki slæmur

Það mátti skilja á mínu síðasta bloggi að ég teldi Breta og Hollendinga hafa betri málstað í icesave-deilunni en Íslendinga. Sá skilningur er réttur. Ég tel samt að við eigum að gera það sem við mögulega getum til að ergja Breta í þessu máli. Stjórnvöld þar hafa komið fram við okkur með miklum ofstopa og yfirgangi og eiga ekki annað skilið. 

Ef við getum fengið þau lán sem við þurfum án þess að Bretar eigi þar hlut að máli eigum við hiklaust að gera það. Ef þeir geta komið í veg fyrir að við fáum aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eigum við að reyna að komast af án hennar ef við mögulega getum.

Það er slæmt hvað stjórnvöld eru treg til að segja sannleikann. Það er mun betra að fá ill tíðindi strax en að láta matreiða þau ofan í sig í smáskömmtum. Nú orðið reikna ég með að það gerist sem Geir Haarde segir að sé mög ótrúlegt að geti gerst.

Ekki gat ég farið á mótmælafundinn á Austurvelli í gær en um næstu helgi mun ég reyna að mæta. Óþarfi er að láta það hafa áhrif á sig þó einhverjir unglingar hendi eggjum eftir fundinn. Ég hef fylgst nokkuð vel með fréttum af fundinum og tel afar lítið að marka fréttir hinna hefðbundu fjölmiðla og lögreglu af því sem gerðist. Þá er nú bloggið betra. Það besta sem ég hef fundið þar eru frásagnir bloggvina minna þeirra Láru Hönnu Einarsdóttur og Salvarar Gissurardóttur.

Það er mikill misskilningur að halda að laugardagsmótmælendur þurfi að vera sammála um allt. Að mótmæla ástandinu er nóg. Alþingismenn eru flestir geðlausar lurður sem hugsa bara um eigið rassgat svo almenningur verður að stíga fram. Burt með óhæf stjórnvöld og kjósum sem fyrst.

Helst vildi ég blogga um eitthvað annað en þetta eilífðarmál sem bankahrunið er að verða. En ég get ekki stillt mig um að láta ljós mitt skína. Kannski er það líka mjög gáfulegt sem ég hef til málanna að leggja.

Samkvæmt frétt á Eyjunni.is biður rithöfundurinn Þórunn Erla Valdimarsdóttir um gott veður fyrir útrásarvíkingana. Jú, hún fékk að kyssa þá og mola af borðum þeirra en það skiptir ekki máli. Það má færa rök fyrir því að engum skíni gott af því að setja útrásarvíkingana í gapastokk á almannafæri. Mér finnst þó að þeir verði að taka þátt í því uppbyggingarstarfi sem framundan er en ekki bara að hamast við að eyða því sem þeim hefur ef til vill tekist að stinga undan.

Burt með spillingarliðið.

 

505. - Hver og hver og vill? Vera eitt stykki aðstoðarstimpill

Við Íslendingar finnum nú hvernig það er að vera fátækur og vinalaus í veröldinni. Hingað til höfum við álitið okkur yfir aðra hafna. Ég trúi því samt að við séum svo dugleg að jafnvel þó allir bregðist getum við unnið okkur út úr þeim vanda sem við blasir. Hann er stór því örugglega munu engir hjálpa okkur fyrr en við samþykkjum að annarra þjóða fólk sé jafnrétthátt okkur. Stjórnvöld sviku okkur.

Jóhann Björnsson sálfræðingur spyr: Hvað eru Alþingismenn að gera með aðstoðarmenn ef það er ekkert að gera hjá þeim? Góð spurning hjá Jóhanni. Alþingismenn sjálfir kvarta undan því að vera bara notaðir sem stimplar. Eru þeir þá að ráða aðstoðarstimpla? Ömurlegt starfsheiti það.

Sigurbjörg Árnadóttir hefur komið fram víða að undanförnu og lýst ástandinu í Finnlandi í byrjun síðasta áratugar síðustu aldar þegar bankakreppan skall þar á. Vel getur verið að hún máli með nokkuð dökkum litum en hvar höfum við Íslendingar verðið á þessum tíma ef við höfum ekkert heyrt af þessu fyrr? Og svo ætlumst við til að aðrir komi hlaupandi þegar á bjátar hjá okkur.

Góðir hlutir gerast hægt en það getur allt farið til fjandans á örskotsstundu. Nú er liðinn meira en mánuður síðan allt fór á versta veg hér á Fróni en samt er eiginlega ekkert að gerast. Orka ráðamanna fer einkum í að halda hlutum leyndum. Þeir virðast vera að hamast við að halda lokinu á pottinum. Á endanum verður þrýstingurinn samt áreiðanlega of mikill fyrir þá.

Ef hægt er að kenna einhverjum um hvernig fór er nærtækast að benda á þá sem setja áttu reglurnar og fylgjast með framkvæmd þeirra. Semsagt Fjármálaeftirlitinu. Þegar allt fer í köku er þeim hæfustu auðvitað falið að leiða tilraunir til bjargar. Semsagt Fjármálaeftirlitinu. Svona er Ísland í dag.

Vinsælt er um þessar mundir að tala í viðtengingarhætti um evruna og annað sem tengist efnhagsástandinu. Ef evran hefði verið tekin upp á þessum tíma og þetta og þetta hefði verið gert þá.....

Svona fabúleringar eru lítils virði. Stjórnmálamönnum hættir til að láta svona og þykjast með því hafa vit á ýmsu þó þeir viti lítið í sinn haus flestir hverjir.

Burt með spillingarliðið.

 

504. - Ástandið er alvarlegt segja Geir og Bjöggi. Bjóst einhver við öðru?

Ég vil ekki skrifa mikið um ástandið í þjóðfélaginu. Verst finnst mér hve lítið er vitað og hve litlar upplýsingar eru gefnar. Kynningarmál öll eru í algeru skötulíki hjá stjórnvöldum. Mér finnst til mikils mælst að fólk sé rólegt og yfirvegað í ástandi eins og hér hefur verið að undanförnu. 

Að skipa ný bankaráð við bankana þar sem eru sérstakir varðhundar flokkanna er einfaldlega afturför sem nemur mörgun áratugum.

Á blaðamannafundinum sem þeir Geir og Bjöggi héldu í dag fannst mér óheilindi þeirra skína í gegnum allt á fundinum. Þegar talið barst að icesave reikningunum fóru þeir einfaldlega undan í flæmingi.

Mér kæmi ekki á óvart þó lán það sem beðið hefur verið eftir hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum komi aldrei og það sem einkum verði deilt um næstu vikurnar verði þessir blessaðir icesave reikningar. Ég á ekki von á öðru en fjölmenni á mótmælafundinum á mogun. Samstaðan er að lagast.

Merkilegt hve margir af þeim sem maður hittir hafa séð bloggið manns og jafnvel lesið. Sennilega er lesendum mínum talsvert að fjölga og möguleg áhrif mín þar með að aukast. Hingað til hef ég talið þau afar lítil. Kannski verð ég að endurskoða það. Moggabloggurum fer sífjölgandi. Vinsældir bloggsins eru ótrúlegar og ég get ekki séð að þær séu neitt að dvína.

Við sem eldri erum eigum ekki að hatast við unga fólkið. Obama hinn nýi forseti Bandaríkjanna nýtur einkum fylgis meða ungs fólks, kvenfólks og annarra valdleysishópa. Heimsku hvítu karlarnir hans Moores hafa líklega kosið McCain þó Palin hafi verið heldur öfgafull fyrir þá. Öfgarnar þarf að dulbúa vel til að þær njóti almenningshylli. Það kunnu stuðningsmenn Georgs Dobbeljú.

Það er mikið sem gengur á í Netheimum núna. Barack Hussein Obama notaði sér nýjustu tækni í samskiptum á leið sinni í eitt valdamesta embætti veraldarinnar. Á Vesturlöndum mun Netið innan tíðar yfirtaka gersamlega hlutverk hinna gamaldags og afdönkuðu fjölmiðla. Þeir eru flestir á hausnum hvort eð er og fáir sem sjá eftir þeim. Hlutverk þeirra mun fara síminnkandi á næstunni. Þó munu þeir ekki hverfa.

Í lokin eru svo nokkrar myndir sem ég tók um daginn í nágrenni við heimili mitt við Auðbrekku.

Burt með spillingarliðið.

 
IMG 1432IMG 1436IMG 1439IMG 1442IMG 1444IMG 1447IMG 1450IMG 1454

503. - Við erum öll vond og ævintýrin gera okkur enn verri því þau magna í okkur meðvirknina

Blogg mitt númer 501 um svarta hundinn hefur kallað á nokkur komment. Meðal annars segir Sigurður Þór:

VIð erum vond en ekki full af einhvejrum umfaðmandi kærleika. Eins gott að viðurkenn það. Og ekkert væl! 

Þetta er ef til vill mergurinn málsins. Ef við trúum því að mannskepnan sé í eðli sínu vond er allt tilgangslaust. Sumum gæti jafnvel dottið i hug að fara að tala um erfðasyndina. Öll heimsins pólitík og allar trúmálaþrætur veraldarinnar eru hjóm eitt og hismi ef vonska er eðli mannsins. Ómögulegt er að halda sönsum nema trúa því að mannkyninu fari eitthvað fram.

Hinn allt umfaðmandi kærleikur sem Sigurður talar líka um er svo alt annað mál. Hann er engan vegin sjálfsagður sem andstæða illskunnar heldur einungis keppikefli sumra. Það er vel hægt að vera ekki vondur án þess að vera endilega góður.

Íslenska þjóðarsál dreymir um hugprúðan riddara sem kemur á hvítum hesti og berst við hrímþursann eldspúandi og ógurlega og hefur auðvitað sigur að lokum.

Einhver alvinsælasta sagan á Íslandi fjallar einmitt um þetta. Kvikmynd í mörgum hlutum var gerð eftir sögunni og varð feikivinsæl. Nafnið á sögunni var vel hægt að setja í samband við vinsælasta samkvæmisleikinn á Íslandi. Sá leikur snerist um Baugsmál hin fyrri.

Þar var bæði hægt að finna hetjur og skúrka eins og í fornum ævintýrum. Þar börðust vinsælasti riddarinn og aðalskúrkurinn og veitti ýmsum betur. Svo fór þó að lokum að riddarinn hugumstóri særðist nokkuð og hvarf af vettvangi í bili.

Ekki var þó aðalskúrkurinn eða kóngurinn allskostar ánægður með þau málalok. Að lokum ákvað hann að kveikja í kóngsríkinu til að sjá hvort riddarinn kæmi ekki þjótandi til að bjarga því sem bjargað yrði.

Og sjá. Ekki leið á löngu áður en riddarinn þeysti í hlað. Bardagi hans við kónginn hófst að nýju. Þrátt fyrir að eldurinn kæmi riddaranum illa reis hann jafnan upp þar sem hans var síst von og lagði til kóngsins. Enn standa Baugsmál hin síðari sem hæst og óséð hvernig þeim lýkur. Meira að segja er ekki enn hægt að sjá hvernig gengur að slökkva þá elda sem kóngurinn kveikti.

Burt með spillingarliðið.

 

502. - Um Samuel Langhorne Clemens og tungumálið þýsku

Árið 1880 skrifaði bandaríski rithöfundurinn Mark Twain grein sem hann kallaði "The Awful German Language." Ég las þessa grein einhvern tíma fyrir óralöngu og man að þar hæðist Mark Twain á sinn einstaka hátt að þessu tungumáli í löngu og ítarlegu máli og með ýmsum dæmum. 

Síðan þetta var hef ég alltaf haft heldur horn í síðu þýskunnar þó ég viðurkenni auðvitað að hún sé sannkallað heimsmál. Ég skil mun meira í henni en í flestum öðrum tungumálum. Undanskil þó íslensku, ensku og dönsku. Kunnátta í íslensku leiðir síðan sjálfkrafa af sér skilning á færeysku og ég er alveg sammála því að með dönskukunnáttu megi komast langt í skilningi á norsku og sænsku. Ég er samt með öllu ótalandi á þýsku.

Hörður Haraldsson spretthlaupari og teiknari með meiru átti að kenna mér þýsku þegar ég var við nám á Bifröst í Borgarfirði um 1960. Það gekk illa en ég man að við nokkrir nemendur hans tókum upp þann sið að nota fáeinar þýskar setningar í tíma og ótíma (eflaust aðallega í ótíma) Við Sigurjón Guðbjörnsson tókum til dæmis upp á því að segja ævinlega þegar okkur þótti einhver komast vel að orði:

"Sehr shön Bemerkung, nicht war?"

Þetta gerðum við náttúrlega til að svo liti út að við kynnum þýsku og svo þótti okkur þetta fyndið.

"Ich habe gewesen sein" var líka vinsæl setning en þýðir mér vitanlega ekki neitt sérstakt og er bara hrúga af hjálparsögnum.

Örfáar vísur kann ég á þýsku:

Wer nicht liebt Weib,
Wein und Gesang
er bleibt Nar
sein leben lang.

Þetta er mér sagt að sjálfur Marteinn Lúther hafi látið frá sér fara og hefur það verið þýtt þannig á íslensku:

Sá sem ekki elskar vín,
óð né fagra svanna.
Verður alla ævi sín
andstyggð góðra manna.

Upphafið að kvæðinu fagra um Lórelei eftir Heinrich Heine minnir mig að sé svona:

Ich weiss nicht was soll es bedeuten
dass ich so traurig bin.
Ein Marchen von alten Zeiten
Das kommt mir nicht aus dem Sinn.

Þetta var snilldarlega þýtt á íslensku þannig:

Ég veit ekki af hvers konar völdum
svo viknandi ég er.
Ein saga frá umliðnum öldum
fer ei úr huga mér.

Mér finnst eins og Jónas Hallgrímsson hafi þýtt þetta, en er þó ekki viss.

Því er ég að fjasa þetta um þýsku að þó ég lesi yfirleitt ekki gestabækur þá las ég áðan gestabókina á vef konunnar minnar (123.is/asben). Systir hennar bjó árum saman í Þýskalandi og þarna er að finna ýmislegt um þýsku og á þýsku.

Ólína Þorvarðardóttir sendir bloggvinum sínum öllum brýningu í bankakreppunni og ég er að hugsa um að hlýða henni að hluta. Hún og Lára Hanna eru báðar áberandi í bloggheimum og skeleggar í pólitíkinni eða það finnst mér.

Burt með spillingarliðið.

 

501. - Og 501 strax á eftir. Um svarta hundinn, Einar Kárason, Obama, Kennedy og ýmsa fleiri

Margt er um að skrifa eftir að hafa verið í hálfgerðu bloggfríi síðustu daga. Harpa Hreinsdóttir skrifar um svarta hundinn og ýmislegt fleira. Varðandi það sem hún segir um geðsjúkdóma er ég yfirleitt á sama máli og hún. Enda hef ég lesið bloggið hennar lengi. Minni á að Árni Tryggvason leikari skrifaði í ævisögu sinni um svarta hundinn og hafði langa reynslu af honum. Hef líka lesið söguna um konuna í köflótta stólnum. Churchill er með þeim frægustu sem þjáðst hafa af slæmu þunglyndi.

Ég er aftur á móti ekki sammála Hörpu þegar hún skrifar um Einar Kárason. Hef samt ekki lesið nýjustu bókina hans. Las "Óvinafagnað" á sínum tíma og þótti hún góð. Þó þeir sem vel þekkja til Sturlungu og fornra rita yfirleitt geti vel gagnrýnt margt í bók Einars held ég að þeir séu svo fáir að um markverða gagnrýni sé varla að ræða. Ef sagan er vel skrifuð er hún vel skrifuð burtséð frá öllum hugsanlegum ritgerðarefnum. Svarti hundurinn held ég að verði Einari ekki að fótakefli.

Ég spáði Obama sigri í forsetakosningunum í Bandaríkjunum enda var það lítill vandi. Þegar John Fitzgerald Kennedy var kjörinn forseti í Bandaríkunum var hann fyrsti kaþólikkinn sem varð forseti þar. Efamál er að sú nýjung að kjósa blökkumann í embættið nú sé meiri en það var þá.

"Drengurinn er einstakur höfðingi" sagði Jón Ólafsson um Jón Ásgeir þegar hann keypti af honum Norðurljósaveldið eins og það lagði sig. Ég hef ekki mjög miklar áhyggjur af eignarhaldi Jóns Ásgeirs á 365 miðlum. Hluturinn í útgáfufélagi Morgunblaðsins held ég að verði honum ekki til neins gagns og hann væri áreiðanlega betur kominn hjá einhverjum öðrum. Þó yfirvöld hafi á sínum tíma heimilað samruna Hagkaupa og Bónuss er ekki þar með sagt að svo verði um Fréttablaðið og Morgunblaðið.

 

500. - Já, segi og skrifa. Fimmhundruðasta bloggið mitt. Geri aðrir betur

Þetta er tímamótablogg. Númer fimmhundruð í röðinni. Til hátíðabrigða ætla ég ekki að skrifa meira að þessu sinni. Lesendur og aðrar endur geta semsagt átt frí. Á samt von á metsigri hjá Obama.
 
 

499. - Það kreppir að í bloggheimum

Lítið bloggað í kvöld. Svo lítið að líklega rekast fáir hingað inn. Samt ætla ég ekki að sleppa þessum degi.

Fór í dag í IKEA og fékk mér sænskar kjötbollur eftir að hafa skoðað vörur þar í smátíma. Já, það er erfitt að skoða draslið í IKEA.

Skrapp í Hveragerði í gær og fékk nokkrar gamlar myndir hjá Bjössa. Fór með þær til Guðjóns ritstjóra í dag því þær eiga að vera með Bláfellsgreininni í nóvemberheftinu af Heima er bezt.

Nei, svona dagbókarskrif henta mér ekki. Skárra að blogga ekki neitt ef maður hefur ekkert að segja.

Séra Svavar Alfreð á Akureyri bloggar um Íslenska orðræðugreiningu ehf og Ólína á Ísafirði um skuldhreinsun. Þetta er vel að orði komist hjá báðum. Jafnast þó ekki á við áruhreinsunina í Hafnarfirði. Það er einfaldlega sprotafyrirtæki aldarinnar.

Kíki alltaf öðru hvoru í Google readerinn en annað hvort hef ég sett of marga í hann eða þá að ég fer of sjaldan þangað því venjulega eru innleggin svo mörg að ég nenni varla að lesa þau öll.

Frá því var skýrt í fjölmiðlum að nýlegar rannsóknir hafi sýnt að frekar kvikni í nýjum og dýrum bílum en gömlum druslum. Þetta er merkilegt rannsóknarefni og mér dettur ekki í hug að halda að snáparnir séu að gefa í skyn að kveikt hafi verið í bílunum. Þá hefðu þeir einfaldlega sagt það.

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband