Tólfta blogg

8Ég er að lesa þessa dagana bók eftir Árna Bergman fyrrum Þjóðviljaritstjóra. Hún heitir listin að lesa eða eitthvað á þá leið. Sumt í bókinni finnst mér óttalegt bull en margt er skarplega athugað hjá honum. Hann er samt greinilega óttalegur besservisser og hefur áreiðanlega efni á því a.m.k. hvað bókmenntir varðar. Þessa bók tók ég á Bókasafninu fyrir nokkru ásamt þónokkrum öðrum. Ég fer alltaf reglulega á

Bókasafnið eða reyndar bæði á Bókasafnið í Kópavogi og Borgarbókasafnið í Gerðubergi. Venjulega tek ég svona 15- 20 bækur að láni í báðum bókasöfnunum og reyni síðan að gæta þess að skila þeim áður en mánuðuinn er liðinn. Það tekst nú ekki alltaf og þá er ekki um neitt að ræða annað en það að borga þá sekt sem upp er sett. Yfirleitt tekst mér allsekki að lesa allar bækurnar sem ég tek í hvert skipti en þá verður bara að hafa það. Stundum tek ég meira að segja sömu bækurnar að láni oftar en einu sinni. Fyrir nokkru las ég seinna bindið af ævisögu Steingríms Hermannssonar eða það bindi sem fjallar um ævi hans sem forsætisráðherra. Margt var mjög athyglisvert í þeirri bók þó ég nenni nú ekki að fara að tíunda það hér. Um þessar mundir les ég oft blogg Guðmundar Steingrímssonar sonar Steingríms og þó hann sé prýðilega ritfær sé ég ekki fyrir mér að hann eigi eftir að feta í pólitísk sport föður síns.

Það er best að halda þessum tveimur lesendum mínum við efnið og skrifa eitthvað fyrir þá þó það verði kannski óttalegt bull. Ég hef stundum verið að velta því fyrir mér hvort þeir sem blogga daglega fari ekki smátt og smátt að líta á bloggið sem kross. Líka hvort sé mikilvægara að blogga hæfilega löng blogg eða gæta þess sérstaklega að skrifa þau reglulega. Mig grunar að reglufestan sé merkilegri. Jafnvel mikilvægari en hvað bloggað er um. Ég nenni t.d. ómögulega að vera að blogga um fréttir dagsins, frekar eitthvað bull á borð við þetta. Speglasjónir (spekúlasjónir) um allt og ekki neitt. Hvað lengdina snertir finnst mér nægilegt að láta blaðsíðuna nægja.

Tókst að smella hefðbundnu fjósabragði á 32 ára Bandaríkjamann í bréfskák sem ég er að tefla við hann á playchess.de. Ég er ekki viss um að mér hafi tekist áður að ná því bragði í bréfskák. Annars er mér farið að líka betur að tefla bréfskákir á gameknot.com en playchess.de. Bjarni er þar líka og er nýbúinn að starta 7 manna móti með hinum og þessum sem hann þekkir, aðallega sýnist mér það vera gamlir Snæfellingar.

Áhugi minn á Hattrick leiknum er í óttalegu lágmarki um þessar mundir en liðið mitt Úlfarnir stendur sig samt alveg þokkalega og ég gleymi sjaldan að stilla upp liði fyrir sunnudagsleikina. Annað mál er með vináttuleikina, þeim gleymi ég iðulega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband