Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

179. blogg

Harpa Hreinsdóttir er einu sinni enn lent í deilum á blogginu sínu.

Ég ætla ekkert að skipta mér af þeim, en tek eftir því að eitt af því sem deilt er um er rétturinn til þess að nota það efni sem maður finnur á Netinu. Margir gera það og finnst það ekkert tiltökumál. Í deilu Hörpu og Ásgeirs er deilt um djúpkrækjur og aðrar krækjur. Ég fullyrði að margir þekkja ekki muninn og gera ekki einu sinni greinarmun á því hvort krækt er eða dánlódað. Sé krækt má alltaf búast við að krækjan sæki eitthvað allt annað en til stóð að birta. Hugverkum er stolið miskunnarlaust á degi hverjum. Torrent.is hefur nú verið stöðvað en líklegt er að aðrar slíkar veitur spretti upp fljótlega. Kannski dregur samt verulega úr magni íslensks efnis sem boðið er.

Fullyrt hefur verið í fréttum að félagar í torrent.is séu 26 þúsund. Það finnst mér vera gríðarlega há tala. Nýjar veitur ná varla svo mikilli útbreiðslu á stuttum tíma. Margir eru hissa á því að svona lagað geti þrifist. Veitur á borð við torrent.is eru algengar víða um heim og eru ekki að dreifa ólöglegu efni. Þær gefa hinsvegar þeim sem vilja dreifa efni ólöglega færi á að gera það með auðveldum og einföldum hætti. En auðvitað er líka verið að gefa þeim færi á dreifa efni sem hafa fyllsta rétt til þess. Bókasöfn dreifa bókum með ódýrum og einföldum hætti og hafa til þess fyllsta rétt. Það er ekki nóg að þeim sem vill dreifa kvikmyndum eða öðru efni finnist að það sama eigi að gilda um það eins og um bækur, það gerir það bara alls ekki.

Eftir því sem fram kemur í deilum Hörpu og Ásgeirs hefur hún breytt fyrirsögn sinni og það er slæmt. Mér finnst að ekki eigi að breyta bloggum eftirá. Þar með er verið að gefa þeim sem fyrst lesa aðra mynd en þeim sem seinna  koma. Mér finnst einfaldlega að allir lesendur eigi að sitja við sama borð að þessu leyti. Auðvitað er eðlilegt að leiðrétta augljósar villur en ef merkingu og innihaldi er breitt að einhverju marki, þarf að geta þess.

Sverrir Hermannsson segir Finn Ingólfsson ljúga. Gaman að vita hvernig þeirri deilu lýkur. Ekki ljúga báðir - eða jú annars, það finnst mér líklegast. Svandís Svavarsdóttir er búin að semja við Orkuveituna. Einkennilegt að báðir aðilar telji það sér til framdráttar, að ekki liggi fyrir  álit dómstóla á þessu máli.

Þetta er merkileg mynd og því miður þekki ég alls ekki alla á henni. Fremst sitja talið frá vinstri óþekktur, Skafti Ottesen og Björgvin Bjarnason að ég held. Miðröð frá vinstri sonur Aage Michelsen heitir líklega Ari eða Atli. Þá Már Michelsen og næst Vignir Bjarnason. Þá Ingvar Christiansen sonur Lauritz Christiansen garyrkjubónda. Ég veit ekki hverjir eru í öftustu röð en lengst til vinstri gæti verið Lárus Kristjánsson. Húsið til vinstri er Varmilækur og hægra megin er íbúðarhús og verslun Halldórs Gunnlaugssonar.

 

Hér heldur Björgvin á Bjössa. Þessi mynd er eins og margar aðrar tekin á tröppunum á Hveramörk 6.

 

 

 

 

 

Hér erum við 5 systkinin. Lengst til vinstri er Vignir, þá Björgvin, Sigrún, ég sjálfur og Ingibjörg. Þarna höfum við sennilega verið á túnblettinum framan við húsið.


178. blogg

Þegar kirkjukórar, eða fólk úr þeim, æfði sig fyrrum var það oft á hinum ólíklegustu stöðum. Fjósum, fjárhúsum, hlöðum eða hvar sem var. Þá þótti óviðeigandi að nota texta sálmanna sjálfra og því oft samdir aðrir textar sem pössuðu við sálmalögin sem verið var að æfa.

Þessir textar voru kallaðir „druslur" en voru samt oft ágætur og sniðugur samsetningur.

Þegar ég var á Bifröst var yfirleitt sungið í rútunni ef við fórum eitthvað. Vinsælastur var sennilega textinn sem er svona: Rúgbrauð með rjóma á, mér þykir gott að fá, o.s.frv. o.s. frv., sem flestir kannast eflaust við. Líka var oft sungin drusla ein sem byrjaði eins og hér segir. Lagið var eitthvert sálmalag sem ég kann ekki að nefna.

Framandi kom ég fyrst að Grund

fallegur er sá staður

Því miður man ég þennan texta ekki allan, en man þó að rímorðið við staður var berrassaður.

Einkum var það bekkjarbróðir minn Baldur Óskarsson sem stóð fyrir þessum söng, enda var hann margfróður og ætíð hrókur alls fagnaðar.

Ein besta sjálfsævisaga sem ég hef lesið er er „Í verum" eftir Theodór Friðriksson. Það er reyndar nokkuð langt síðan ég las hana en ég man bara að mér þótti hún verulega góð. Sú útgáfa sem ég las var í tveimur bindum. Theodór lýsir vel lífinu á Íslandi á fyrri hluta þessarar aldar og basli sínu við að ná tökum á tilverunni. Einkum segir hann þó frá lífinu á Norðurlandi og ferðum sínum um Fjörðurnar og Tröllaskaga. Hann átti víða heima, kannski lengst á Sauðárkróki, en líka á Grenivík og fór víða um land til vinnu. Meðal annars til Vestmannaeyja og á hákarlaveiðar. Alltaf stundaði hann einhverjar skáldskapartilraunir, en ég held að það sé einkum ævisagan sem heldur nafni hans á lofti. Eflaust voru þó fleiri bækur eftir hann gefnar út. Síðustu ár sín bjó hann einsamall hér í Reykjavík og dó einhverntíma á fimmta áratug síðustu aldar.

Það er dálítill kross að vera búinn að ákveða að blogga eitthvað á hverjum degi eins og ég er búinn að gera. Stundum reynist tíminn ekki mikill til að setja eitthvað saman . Ég held bara að ég nenni ekki að blogga meira núna.


177. blogg

Sífellt er verið að tala um það hvað vín sé ódýrt víðast annarstaðar en hér á landi. Oft er minnst á Frakkland og fleiri Evrópusambandslönd í því sambandi. Ég held að hluti af skýringunni sé sá að þar eru vín talin landbúnaðarafurð og væntanlega niðurgreidd sem slík.

Áfengi er vímuefni á sama hátt og bönnuð eiturlyf. Vitanlega eru kaffi og tóbak líka vímuefni en miklu mildari. Áfengi er sterkt eiturlyf sem fylgt hefur mannkyninu lengi og óhugsandi er að reyna að útrýma því. Ástæðulaust er þó að dreifa því sem víðast og að gera aðgengi að því sem auðveldast. Lögleg eiturlyf eru ekki í eðli sínu neitt betri en önnur. Eflaust er hægt að finna dæmi um góð áhrif af tilteknu víni við tilteknar aðstæður. Það sama er vel hægt hvað snertir önnur eiturlyf.

Það er auðvelt að eyða alltof miklum tíma í blogglestur og bloggskrif. Kannski geri ég það. Sigurður Þór Guðjónsson segir á sínu bloggi: „Ég hef komist að þeirri niðurstöðu, sem ætti reyndar að liggja í augum uppi, að bloggið er botnfall mannlífsins." Þetta segir hann eftir að vera nýbúinn að eyða út hjá sér alllangri bloggfærslu með skömmum um Dag B. Eggertsson og fleiri vegna ófullkominna veðurlýsinga þegar ekki var verið að lýsa veðrinu neitt heldur hafði blaðamaðurinn bara spurt eitthvað um veður. En eins og allir vita er það lenska hér að svara spurningum fréttamanna með einhverju fyrirfram ákveðnu sem oft er ekki í neinu sambandi við spurninguna. Sigurður er óútreiknanlegur. Einu sinni eyddi hann mér út sem bloggvini sínum en tók mig svo í sátt aftur. Svo hættir hann stundum að blogga með látum, en byrjar aftur. Skaði ef hann hættir núna einu sinni enn.

Blaðamanni varð það einhvern tíma á að segja í einhverju sambandi: „Mennirnir drupu höfði". Í Speglinum var af þessu tilefni birt teiknuð mynd af hópi manna þar sem höfuðin bókstaflega láku af þeim. Þetta var kryddsíldarveisla þeirra tíma.

Salvöru Gissurardóttur varð það á að setja í fyrirsögn á blogginu sínu eitthvað svipað og Nanna Rögnvaldardóttir var fljót að grípa það og sagði í athugasemd að nota ætti sögnina að drúpa en ekki drjúpa.

Nanna setti nafnið sitt undir líkt og hún væri Moggabloggari og þegar farið var á setur hennar blasti þetta við:

Bara af því að ég var orðin útúrpirruð á að geta ekki skrifað athugasemdir hér á Moggablogginu . Auðvitað verð ég svo áfram hér.

Undir hér-inu var svo náttúrlega linkur á hennar aðalblogg. Ég vissi ekki að Nanna bloggaði á Moggablogginu, enda væri synd að segja að hún væri aktív þar.

Nokkrar myndir í lokin.

Veiðileg mynd af Bjögga. Ýsan er frosin og fyrst vildi hann halda henni þannig að hausinn sneri upp, en það fannst okkur Ingibjörgu ekki nógu sniðugt. Fimm lítra mjólkurbrúsi er hafður úti á tröppum þvi enginn var ísskápurinn.

 

 

 

 

Tvær ungar og hressar. Sigrún og Unnur á tröppunum á Hveramörk 6.

 

 

 

 

 

Inga systir mömmu hefur verið í heimsókn í Hveragerði. Á myndinni eru Valgeir Gunnarsson (aftari röð til vinstri) og Björgvin fyrir framan hann. Vignir síðan við hliðina á Valgeiri og Guðjón Gunnarsson fyrir framan hann.


176. blogg

„Amen, kúmen, sémen" sagði formaður félagsins og lamdi með spýtu á öxlina á viðkomandi þegar nýr meðlimur var vígður í leynifélagið okkar.

Það var kallað „Njósnafélagið" og við Siggi í Fagrahvammi stofnuðum það einhvern tíma ásamt fleirum og það átti einkum að njósna um félaga í öðru leynifélagi sem við héldum að væri starfandi í Hveragerði og héti „Stóra þjófafélagið". Ég held að starfsemi þessa félags hafi aldrei orðið mikil og man satt að segja ekki eftir nema einum fundi í því fyrir utan einhverjar vígsluafthafnir, en á þessum fundi vorum við Siggi, ásamt fáeinum öðrum, niður við Varmá í kofa sem Siggi átti og þóttumst sjá meðlimi úr „Stóra þjófafélaginu" á vakki í kringum kofann.

Oft er talað um það fjálglega, bæði af stjórnmálamönnum og öðrum, að nauðsynlegt sé að skapa störf. Eða að einhver ákveðin framkvæmd skapi störf fyrir svo og svo marga. Mér leiðist þetta orðalag mjög. Langbest væri að engin störf væru nokkurn tíma sköpuð og enginn þyrfti að gera neitt, nema hann langaði mikið til þess. Ef framkvæmdir gerðu ekkert annað en að „skapa störf" til hvers væri þá að vera að þessu brölti. Aðaltilgangurinn er auðvitað allt annar. Nefnilega að græða. Og það er ekkert ljótt við það. Einhvern hvata þurfa menn til athafna. Sköpun starfa er oftast nær liðónýtur hvati.

Bókatíðindi eru ekki komin til mín ennþá, en ég hef einmitt séð marga blogga um það ágæta rit. Þarf ég að sækja þennan bækling eitthvert eða hvað? Ég vil að minnsta kosti vita hvort bókin hans Bjarna Valtýs Guðjónssonar er ekki þarna einhvers staðar. Áslaug lagði á sig mikið erfiði við að teikna kápumynd á þá bók. Ég held að bókin heiti: „Hólaborg - ævintýrið um langspil landsins", eða eitthvað þess háttar. Ekki á ég von á að þessi bók verði mjög vinsæl til jólagjafa, en bók er alltaf bók og ég er að minnsta kosti búinn að lesa hana.

Ómar Ragnarsson segir í sínu bloggi og er að tala um Jónas Hallgrímsson: Stærsti draumur hans sem fræðimanns var að ljúka sínu stóra verki um íslenska náttúru og um leið var það einn stærsti harmleikur lífs hans að falla frá langt um aldur fram og sjá þennan draum ekki rætast. Tilvitnun lýkur. Ég held satt að segja að „einn stærsti harmleikur" lífs hvers manns sé dauðinn. Auðvitað er þetta útúrsnúningur, en mér finnst hugsunin stundum hlaupa frá fólki þegar það vill vera sem hátíðlegast. Sigurður Þór Guðjónsson er alveg laus við þetta. Hans hugsun er svo jarðbundin og laus við hátíðleika að það getur jafnvel stuðað fólk á stundum. Væmni á hann heldur ekki til, en hún er ansi áberandi víða í bloggheimum.

Mín fyrsta hugsun, þegar hin mögnuðu tíðindi um árásina á tvíburaturnana í New York árið 2001 spurðust út, var að nú mundi þróunin í átt til lögregluríkis hraðast til mikilla muna á Vesturlöndum. Kannski hefur sú þróun ekki verið alveg eins hröð og ég átti von á, en hún er þarna. Þegar sú þróun verður komin á svipað stig og okkur er sagt að sé í Singapore, þá fyrst held ég að öfgasinnaðir hægri menn eins og Björn Bjarnason verði ánægðir. Líklega verð ég þá dauður, en einhverjir munu þurfa að búa við þetta og grípa eflaust til þeirra ráða að láta sem þetta sé gott og blessað. Og það verður það náttúrlega fyrir þá sem ekki fara útfyrir rammann. Spurningin er bara hvernig ramminn verður.

Fréttin um meistaratitil Bjarna er nú komin á mbl.is. Reyndar er hún bara afrit af grein Egils í Sunnlenska og segir nokkuð um vinnubrögð þeirra Moggamanna. Einnig er loksins sagt frá þessu á skak.is og linkað í sudurland.is


175. blogg

Ég sé að það endar með því að ég þarf að kaupa mér viðbótarpláss fyrir myndir ef ég á að halda áfram á sömu braut.

Hugsanlega fer myndbirtingum hjá mér að fækka eitthvað, en við sjáum til.

Nanna Rögnvaldardóttir, sá þekkti matargúrú, sem heldur úti bloggsíðunni „Konan sem kyndir ofninn sinn" er að mínum dómi einhver besti bloggari landsins. Þó einkennilegt sé þá hef ég oft gaman af að lesa frásagnir um mat og matargerð. Las t.d. á sínum tíma í gamla DV flestalla veitingahúspistla Jónasar Kristjánssonar þó ég skildi ósköp lítið af því sem þar var ritað um mat.

Því fer víðsfjarri að Nanna bloggi bara um mat. Hún bloggar satt að segja um allt milli himins og jarðar. Best nær Nanna sér samt á strik þegar hún segir frá Sauðargærunni en þar er húmorinn oft svo hárfínn og beittur að unun er að lesa. Nanna hefur líka gefið út fullt af bókum, bæði matreiðslubókum og ýmsu öðru. Ég las t.d. einhverju sinni bókina með endurminningum Björns Sv. Björnssonar sem hún ritaði og gefin var út árið 1989.

Bók þessi heitir „Ævi mín og sagan sem ekki mátti segja" og fjallar um son Sveins Björnssonar forseta sem gerðist foringi í SS sveitum Hitlers á stríðsárunum. Ég hitti Björn eitt sinn þegar hann var að selja Encyclopaediu Britannicu og hann var einstaklega snjall sölumaður. Þetta vann hann við hér á Íslandi einhvern tíma um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar.

Nú eru liðin rúmlega 50 ár síðan ég byrjaði að safna frímerkjum. Þetta veit ég vegna þess að meðal fyrstu nýju frímerkjanna sem gefin voru út hér á Íslandi eftir að ég byrjaði mína söfnun var frímerki til minningar um 150 ára afmæli Jónasar Hallgrímssonar. Nú segja menn að liðin séu 200 ár frá fæðingu hans. Annars blöskrar mér alveg mærðin og slepjan í sambandi við þetta afmæli. Jónas var þó gott skáld, en gamli tíminn er bara liðinn og kemur ekki aftur. Gunnarshólmi er fínt kvæði, en þegar ég var í skóla voru menn mjög að hasast upp á að láta krakka læra svona löng kvæði. Mamma kunni það þó reiprennandi utanað. Óhræsið er líka kvæði sem ég man mjög vel eftir úr skóla og satt að segja eru bestu kvæði Jónasar alveg ótrúlega myndræn. Frásögnin er svo sterk og eftirminnileg að það er með ólíkindum.

Einhverntíma fyrir langalöngu man ég að ég samdi einhverja afbökun af kvæði Hannesar Hafstein um Jónas Hallgrímsson. Það er annars merkilegt hve mörg skáld hafa samið ljóð um Jónas Hallgrímsson. Ég man að afbökunin byrjaði svona hjá mér: Þar sem sterkir stólar ./. sofukrílið fylla./. ljóðaleysu gólar./. litli Jónas illa. Þetta var svosem ekki hugsað sem nein sérstök gagnrýni á Jónas, en mér finnst hann hafa verið full fyrirferðarmikill meðal íslenskra ljóðskálda á sama hátt og Kiljan hefur verið alltof fyrirferðarmikill meðal skáldsagnahöfunda.

Loks er það vefurinn jonas.ms.is sem er mjög athyglisverður. Stórt og mikið ljóðasafn sem er sett upp á sérkennilegan og eftirminnilegan hátt. Hvet alla til að skoða hann.


174. blogg

Nálægt Hvítasunnunni árið 1978 komu þeir í heimsókn til mín á Vegamótum Bjössi bróðir minn og Brynjar Ragnarsson, kallaður Diddi. Hann er sonur Unnar elstu systur minnar (eða uppeldissystur ef algjörrar nákvæmni er gætt)

Ætlun okkar var að ganga á Snæfellsjökul og höfðu þeir nokkurn búnað með sér frændurnir. Ég bjó nú ekki svo vel á þessum árum að ég ætti almennilega gönguskó svo ég fór bara í ferðina á stígvélum. Úlpu og íshaka fékk ég að láni hjá þeim félögum.

Bjössi sendi mér um daginn nokkrar myndir sem teknar voru í þessari ferð og ég er að hugsa um að setja þær hér inn í þessa frásögn.

 

Við fórum sem leið liggur vestur Staðarsveit og áleiðis að jöklinum í þokkalegu veðri. Þegar á jökulinn kom var veðrið hinsvegar orðið snarvitlaust, mikill skafrenningur og hávaðarok svo við urðum að snúa frá eftir nokkur hundruð metra og halda heim á leið.

Ekki gáfumst við þó upp, heldur reyndum aftur næsta dag. Þá var veður miklu skaplegra. Satt að segja bara ágætisveður og gengum við beina leið á topp jökulsins. Vélsleðar tíðkuðust ekki á þessum tíma. Slík farartæki voru sjaldgæf. Á nokkrum stöðum lá leið okkar upp brattar fannbrekkur og mér er minnisstætt að mér hefði áreiðanlega ekki tekist að komast þarna upp á mínum stígvélum ef þeir Bjössi og Diddi hefðu ekki jafnan höggvið spor í harðfennið.

Með því að halda mig við sporin sem þeir höfðu höggvið í snjóinn tókst mér bærilega að klöngrast upp brekkurnar. Einnig kenndu þeir mér að halda á íshakanum á þann hátt að ef ég dytti stingist hann strax niður í snjóinn svo ég rynni ekki niður brekkuna. Þetta kom sér ágætlega nokkrum sinnum.

 

 

 

Satt að segja er ólíkt betra að klöngrast upp langar harðfennisbrekkur, þar sem alltaf eru notaðar samskonar hreyfingar, vitandi að ekki er stórhætta á ferðum þó maður detti. Langar snjóbrekkur geta satt að segja verið ansi þreytandi. Þannig var það þegar ég kleif Heklu í seinna skiptið, en nú er ég kominn út fyrir efnið.

 

 

 

 

 

 Þegar upp var komið sáum við að efst á toppnum var nokkurra mannhæða hár snarbrattur íshraukur. Ég lét mér nægja að ganga nokkrum sinnum í kringum hann, en þeir Diddi og Bjössi álitu ferðina alls ekki fullkomna nema klifrað væri þar uppá topp. Allt þetta má sjá nokkuð vel á myndunum.

 

 

 

 

 

 

Niðurleiðin var mun fljótlegri því þá gátum við rennt okkur niður brekkurnar í stað þess að fara þær uppávið. Ætli öll ferðin hafi ekki tekið svona fjóra til fimm klukkutíma, ég man það ekki. Þessi ferð var á margan hátt eftirminnileg. Þetta var í fyrsta sinn sem gekk á jökul og Snæfellsjökull er nú ekki hvaða jökull sem er.

 

 

 

Egill Jórsalafari og sonur Bjarna þingmanns Harðarsonar skrifar grein sem birtist á útsíðu í Sunnlenska fréttablaðinu í dag. Af því að þetta er nú montblogg öðrum þræði þá er ég að hugsa um að birta hér mynd af þeirri grein í lokin.


173. blogg

„Hann er spilltur, frekur og hreinlega minniháttar á andlega sviðinu" heitir pistill sem Elliði Vignisson skrifar á Moggabloggið sitt.

Elliði er bæjarstjóri í Vestmannaeyjum og var auðvitað ekki par hrifinn þegar börnin hans sáu miður falleg skrif um hann sjálfan.

Ég hef tekið eftir því að margir virðast halda að því orðljótari sem þeir eru því kraftmeiri séu skrifin. Þetta er hin mesta vitleysa. Ef menn taka stærra upp í sig en ástæða er til þá verða skrifin eingöngu hlægileg og ekkert annað. Önnur hlið á þessari orðræðu er svo það sem Elliði setur greinilega fyrir sig. Hvað gerist þegar þeir sem ekki eru vanir svonalöguðu sjá þetta?

Margir blogga mikið um börnin sín. Stundum verður mér hugsað til þess að ef börnin sjálf sæu það sem um þau er skrifað þætti þeim það mjög leiðinlegt. Það sem einu sinni er skrifað á Netið getur hvenær sem er dúkkað upp aftur og orðið mönnum til leiðinda. Þegar börnin stálpast gætu þau séð þetta, því við vitum ekkert hvar skrifin lenda á endanum.

Var að enda við að lesa bók sem heitir Játningar Láru miðils eftir Pál Ásgeir Ásgeirsson. Bókin kom út í fyrra eða hitteðfyrra. Þetta er um margt athyglisverð bók þó augljóst sé að höfundurinn er vantrúaður á líf eftir dauðann. Ég hef líka alltaf verið mjög vantrúaður á allt miðilsstúss og annað kukl. Ég las í æsku ævisögu Houdinis og þar er mikið rætt um miðla. Ég er ekki frá því að sú bók hafi valdið miklu um vantrú mína á þeim.

Lára hefur greinilega átt erfiða ævi á margan hátt. Ég tel mig vera miklu fróðari um hana eftir en áður. Flestir vita eflaust að hún var dæmd fyrir svindl í miðilsstarfsemi sinni. Samt sem áður hélt hún áfram á svipaðri braut. Auðvitað geri ég mér ljóst að svindlið sem slíkt segir lítið um það hvort hæfileikar hennar voru raunverulegir eða ekki, en svikamiðlarnir eru bara svo margir að þessi mál eru hreinlega komin úr tísku. Margir hafa samt áhuga á þessu, en spíritistar hafa bara aldrei sannað neitt að mínum dómi.

Páll Ásgeir gerir fremur lítið úr séra Sveini Víkingi. Það er ómaklegt því þó hann hafi verið spíritisti var hann hinn mætasti maður. Hann var skólastjóri á Bifröst fyrri veturinn minn þar og mér fannst honum farast það vel úr hendi. Þó hann hafi eflaust verið óttalega blindur á galla Láru, var hann ekki einn um það. Annars hefði hún ekki getað haldið miðilsstarfseminni áfram.

Páll reynir að koma því inn hjá lesendum sínum að Lára sjálf hafi ekki haft neina trú á andlegum hæfileikum sínum. Mér finnst afar ólíklegt að svo geti verið. Líta má á þessa bók á vissan hátt sem árás á íslenska spíritista sem voru talsvert áberandi í þjóðlífinu áður fyrr. Mig minnir að ég hafi einhvers staðar lesið að afkomendur Láru hafi verið lítt hrifnir af bókinni.

Því miður minnist ég þess ekki að hafa lesið dóm um þessa bók svo ég verð bara að reyna að búa sjálfur til minn eigin. En mál er að hætta þessu rugli.

Hér eru svo nokkrar myndir.

Þessi mynd er af Bjössa bróðir.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Á þessari mynd eru krakkarnir hennar Ingibjargar. Lengst til vinstri er Atli Vilhelm , þá Krístín Þóra og svo Bjarni sem nú er orðinn þingmaður.

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér er svo mikil aktion-mynd frá Vegamótum. Arsenal maðurinn Benedikt tekur þarna vítaspyrnu með tilþrifum og Bjarni bróðir hans gerir tilraun til að verja. Júlíana og Helga í Holti sitja rétt hjá. Í horninu til vinstri sést í enda sláturhússins og síðan sést Lynghagi í hinu horninu.


172. blogg

Þetta með að Bjarni hafi unnið meistaratitil Bahamaeyja í skák þykir víst engin frétt.

Mér finnst það samt svolítið sögulegt að Íslendingur vinni meistaratitil í útlöndum. En það er bara ég.

Leikarar eiga sér oft mörg andlit og mörg gerfi. Sérstaklega á þetta við um gamanleikara og eftirhermur. Ég held mismunandi mikið uppá karaktera sem gamanleikarar hafa skapað sér. Enginn getur t.d. keppt við Jóhannes Kristjánsson í að herma eftir Guðna Ágústssyni. Það væri þá helst Guðni sjálfur. Laddi og Þórður húsvörður eru næstum eitt í mínum huga. Örn Árnason finnst mér eiga sína bestu spretti í gerfi Davíðs Oddssonar. Sigurður Sigurjónsson er auðvitað góður í gerfi Ragnars Reykáss, en mér finnst hann jafnvel betri í hlutverki Já-mannsins hræðilega.

Það er alltaf gaman að fá hrós í kommentunum. Takk fyrir það. Oft er ég samt ekki mest með hugann við vinsældir þegar ég læt móðann mása hér á blogginu mínu, heldur að þau séu hæfileg að lengd. Ég veit sjálfur af löngum og miklum blogglestri að ekki er gott að þau séu óhóflega löng. Með því móti fælast þeir hugsanlega frá sem þó rekast hingað inn. Miklu meira máli skiptir að skrifa oft og reglulega.

Auðvitað skiptir líka máli um hvað er skrifað og hvernig skrifað er. Leikni í því síðarnefnda næst oft smátt og smátt með æfingunni, en um það fyrrnefnda er aldrei neitt hægt að vita. Mér finnst skipta mestu máli að vera ekki alltaf að bergmála aðra, reyna heldur að koma með eitthvað frá eigin brjósti. Minningabrot, ættfræði, þjóðlegan fróðleik, draugasögur, stjórnmálayfirlýsingar, sögur af daglegu amstri og hvers kyns frásagnir. Um að gera að blanda þessu bara öllu saman. Þannig finnst mér að blogg eigi að vera. Blanda af öllu mögulegu.

Þónokkrum árum fyrir síðustu aldamót fór ég á Þjóðminjasafn Íslands því til stóð að loka því. Tilkynning um lokunina var auglýst þar. Tekið var fram að góður tími væri tekinn í þetta, undirbúningur allur sérlega vandaður og fyrirfram ákveðið að safnið mundi verða opnað aftur þann 17. júní árið 2000. Tekið var líka fram í auglýsingunni að öfugt við það sem oft tíðkaðist hér á Íslandi þá væri engin hætta á að þessi dagsetning stæðist ekki.

Ég ætla engar myndir að setja inn núna. Kannski seinna.


171. blogg

Bjarni gerði jafntefli í síðustu umferðinni og er þar með orðinn skákmeistari Bahamaeyja.

Ég ætla ekkert að skrifa meira um þetta, því ég reikna með að hann geri það sjálfur á eftir og vísa bara á bloggið hans - lampshadow.blog.is.

Um áramótin 1990 og 1991 hætti ég að reykja. Um þau áramót urðu þau tímamót í apótekasögu landsins að ekki þurfti lengur læknisvottorð til að geta keypt sér nikótíntyggjó. Þetta notfærði ég mér og um leið og ég fór í vinnuna 2. janúar, eftir að hafa kvalist sígarettulaus í Hveragerði allan nýjársdag, keypti ég mér nikótíntyggjó í Árbæjarapóteki.

Í þeim janúarmánuði sem í hönd fór gerðist einkum tvennt. Hekla fór að gjósa og Flóabardagi hinn síðari hófst. Saddam Hússein hafði af góðmennsku sinni innlimað Kuwait í ríki sitt, en Búskurinn eldri var ekki hrifinn af því og ákvað að hrekja hann þaðan í burtu. Þessvegna braust Flóabardagi hinn síðari út, en ekki vegna þess að ég hætti að reykja. Sama er um Heklugosið að segja, engin bein tengsl eru milli þess og reykingastoppsins hjá mér.

Ég er dálítið sammála Davíð Oddssyni um að þessi óhemjugangur varðandi opnun dótabúða er illskiljanlegur. Það hefur verið vitað lengi að álagning verslana á leikföng hefur verið mjög rífleg hér á landi. Þegar smáskarð rofnar í þann múr sem verið hefur umhverfis þá tilhögun er eins og allt verði vitlaust. Einhvern tíma kemur líka að því að skarð rofnar í þann múr sem er utanum vaxtaokur bankanna. Ég veit ekki hvort lætin verða eins mikil þá, en það verða samt áreiðanlega merkari tímamót.

Blaðamennskan er síðasta vígi ómenntaðra aumingja las ég einhvers staðar nýlega. (Guðbjörg Hildur Kolbeins - kannski) Verst hvað þeir hjá mbl.is taka þetta bókstaflega. Stundum finnst manni eins og það séu eingöngu ómenntaðir aumingjar sem skrifa svokallaðar fréttir þar. Svo er þó alls ekki alltaf. Stundum er eins og fréttirnar séu lesnar yfir og lagfærðar af fólki með viti. Mér finnst slæmt að fréttir víðlesinna fjölmiðla, eins og mbl.is eflaust er, séu skrifaðar á afleitu máli. Oft og einatt bera fréttirnar það líka með sér að vera þýddar og það illa þýddar. Meira máli skiptir að fréttirnar séu þokkalega skrifaðar, en að það takist að rubba af einhverju ákveðnu magni á vissum tíma.

Sama er að segja um bloggið, það skiptir ekki öllu að blogga sem mest heldur að það sé örlítið vit í blogginu. Þess vegna er ég að hugsa um hætta núna.

Ég get samt alveg bætt við fáeinum myndum.

nullHér er Vignir greinilega á ferð og ansi glaðhlakkalegur.

 

 

 

 

 

nullÞarna erum við fjögur systkinin. Sigrún, ég og Ingibjörg í aftari röðinni og Vignir fyrir framan Sigrúnu. Vignir og Sigrún eru eins klædd og þegar Vignir fékk að sitja á hjólinu hennar svo kannski er þetta tekið í sama skipti.

 

 

 

 

 

nullEnn ein mynd af Vigni, en hér er það nýja húsið sem er í baksýn og líklega er það Björgvin sem er eitthvað að bauka þarna á bak við hann. Merkilegt að á fyrri myndinni er hann ljóshærður en þarna er hann orðinn dökkskolhærður. Samt er þetta áreiðanlega Vignir á báðum myndunum.


170. blogg

Í dag, laugardag, fór fram næstsíðasta umferðin á meistaramóti Bahama í skák.

Bjarni er þar í efsta sæti, sigraði í dag og hefur möguleika á því að verða skákmeistari Bahamaeyja. Til að tryggja sér það má hann ekki tapa í síðustu umferðinni. Annars er Bjarni búinn að blogga sjálfur um mótið og ég vísa bara á það.

Skúrar af ýmsu tagi eru og voru karlmönnum mjög kærir. Eitthvað á þessa leið skrifaði ég á bloggið mitt um daginn. Útaf þessu má leggja á ýmsa vegu. Líklega kúga konur oft karlmenn þó þeir séu yfirleitt ofbeldisfyllri en þær. Kúgunin kemur einkum fram í því að þær vilja ráða öllu innanhúss. Svoleiðis hefur það alltaf verið og því má helst ekki breyta. Karlmennirnir vilja gjarnan sanka að sér allskyns rusli og fangaráð þeirra verður oft að byggja einhvers konar skúr og koma uppáhalds draslinu sínu þar fyrir.

Eitt sinn heyrði ég um mann fyrir norðan sem safnaði húfum. Einkum derhúfum með vörumerkjum. Á endanum var safnið orðið svo stórt að hann byggði sér lítinn sumarbústað við hliðina á íbúðarhúsinu og kom húfunum fyrir þar. Ég held að hann hefði ekki lent í þessum vandræðum ef hann hefði safnað frímerkjum. Þá hefði hann getað reist sumarbústaðinn einhvers staðar uppi í sveit og eignast um leið ánægðari eiginkonu. Ég get ekki ímyndað mér að hún hafi verið hrifin af húfunum.

Undarlegt er það hve margir skoða þessa bloggsíðu mína. Þeim fjölgar nokkuð jafnt og þétt þessa dagana. Kannski það séu myndirnar. Það er nokkuð kúl að setja alltaf einhverjar gamlar myndir með hverri færslu. Auðvitað get ég það ekki endalaus, en er á meðan er.

Ellilífeyrisþegum svokölluðum mun fjölga mikið á næstu árum. Ekki bara vegna þess að ég kemst í þann flokk heldur fara eftirstríðsárakynslóðirnar (hræðilega langt orð) að láta að sér kveða á þeim vettvangi. Gamalmennablogg eins og vel mætti kalla þetta verða þá jafnvel meira áberandi en nú er.

Hvað á þetta fólk allt saman að gera annað en að hanga í tölvunum sínum þegar búið er að koma í veg fyrir að það geti unnið með því að taka allar tekjur þess í skatta, skyldur og alls kyns eftirkröfur? Jú, til tilbreytingar gæti það náttúrlega hlustað á útvarp Sögu eða farið á bókasafnið. Þó illa hafi verið farið með gamalt fólk ekki síður en börn og unglinga á árum áður hefur það þó getað haldið áfram að gera eitthvað meðan getan leyfði. Nú má enginn gera neitt nema hafa háskólapróf uppá að vera sérfræðingur í greininni.

Það sem hefur komið mér einna mest á óvart í sambandi við þessi bloggskrif er hversu auðvelt er að finna sér eitthvað til að skrifa um. Ég hef reynt að halda lengd pistlanna í lágmarki, en oftast nær er ég að velta á undan mér mörgum hugmyndum um bloggefni og geri ekki alvöru úr að nota nema lítinn hluta þeirra.

Hér er vísa sem er úr rímu eða einhverju þess háttar. Skemmtileg vísa.

Greiddi upp trýnið gluggasvín,

greitt að hnefabragði.

Sverðarunn tók sér í munn

og saman aftur lagði.

Gluggasvín merkir hús og sverðarunni er maður. Hér er semsagt verið að lýsa þeirri einföldu athöfn að maður nokkur ber að dyrum, þær opnast strax, maðurinn gengur inn og hurðin lokast á eftir honum. Takið líka eftir hinu skemmtilega innrími í fyrstu ljóðlínu og þeirri þriðju.

Og þá eru það myndirnar.

Hér heldur mamma á Vigni.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér er Björgvin í sínum fínu matrósafötum og horfir í áttina að skúrnum. Ekki veit ég hvers vegna. Lengst í fjarska sést í Árnýjarhús sem ber næstum við Ingólfsfjall.

 

 

 

 

 

 

 

Á þessari mynd hefur Sigrún leyft Vigni að setjast á hjólið sitt og styður við hann. Greinilega er það gamla húsið á Bláfelli sem er í baksýn. Takið líka eftir símastaurnum í horninu til vinstri. Svona lagað sést ekki núorðið og svei mér ef hér er ekki enn eitt dæmið um prjónaða peysu af betri sortinni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband